Stærsta afurðavinnslusvæði í heimi?
Kínverska afurðafyrirtækið Yili, sem er eitt stærsta afurðafyrirtæki í mjólkuriðnaði í heiminum, hefur nú kynnt áætlun sína um að byggja upp stærsta mjólkuriðnaðarsvæði heims.
Fyrirtækið hefur þegar opnað gríðarlega stóra afurðastöð í Innri-Mongólíu í Norður-Kína, en afurðastöðin getur unnið úr 6,5 milljón lítrum mjólkur á degi hverjum en úr mjólkinni verða framleiddir ostar, hluta hennar verður pakkað sem drykkjarmjólk og þá er afurðastöðin með þurrkaðstöðu svo unnt sé að framleiða mjólkurduft fyrir ungbörn.
Afkastagetan sem slík gerir hana þó ekki þá stærstu í heimi, enda til aðrar afkastameiri afurðastöðvar, heldur önnur áform Yili sem er að gera svæðið að „Dairy Silicon Valley“ heimsins þar sem saman koma afurðavinnsla, heilsusetur, rannsóknasetur og sýningarfjós svo dæmi sé tekið. Verður þessi miðstöð mjólkurinnar alþjóðleg, þ.e. erlendu vísindafólki mun einnig standa til boða að sinna verkefnum hjá þessum kínverska risa.