Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Norðlenska (KN) og hafa stærstu hluthafarnir, bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, gengið að kauptilboðinu sem samtals hljóðar upp á um 2,5 milljarða.
KS verður eftir kaupin með um 67 prósent af íslenskri kinda- og nautgripakjötsframleiðslu sé tekið mið af gögnum um sláturtölur síðasta árs.
Heildarhlutur bræðranna í KN er um 57 prósent en Búsæld, félag 464 bænda, heldur á um 43 prósentum samtals.
Kjarnafæði stofnað 1985
Hlutafjáraukning stóð fyrir dyrum hjá KN áður en kauptilboð KS barst, svo hægt yrði að ráðast í frekari hagræðingar í slátrun og kjötvinnslu. Samkvæmt heimildum blaðsins stóðu yfir viðræður við fjárfestingafélagið Kaldbak um þá aðkomu. Áður var Kaldbakur dótturfyrirtæki Samherja, en hefur frá árinu 2022 verið sjálfstætt fjárfestingafélag.
Kjarnafæði var stofnað árið 1985 af þeim bræðrum og Norðlenska varð til í júlí árið 2000 þegar Kjötiðnaðarstöð KEA og Kjötiðjan Húsavík sameinuðust.
Viðræður félaganna tveggja um samruna hófust árið 2018 en varð að veruleika í júlí 2021, eftir að uppfyllt höfðu verið skilyrði Samkeppniseftirlitsins.
Við samrunann í Kjarnafæði Norðlenska varð til stærsta kjötvinnslufyrirtæki landsins, með fleiri en þrjú hundruð starfsmenn.
Verulegur rekstrarbati
Frá sameiningunni hefur orðið verulegur rekstrarbati hjá Kjarnafæði Norðlenska. Á árinu 2022, á fyrsta heila rekstrarárinu, varð 231,5 milljóna króna hagnaður fyrir skatta en á síðasta ári nam hagnaðurinn 385,5 milljónum króna fyrir skatta. Var góð afkoma þökkuð aðhaldi í rekstri og hagræðingaraðgerðum þrátt fyrir íþyngjandi fjármagnskostnað.
Óbreytt starfsemi fram yfir sláturtíð
Samkeppniseftirlitið hefur enga aðkomu að kaupum KS á KN vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í mars, en þá var kjötafurðastöðvum veitt undanþáguheimild frá samkeppnislögum til samvinnu og til að sameinast.
Eftir kaupin færast sláturhús og kjötvinnslustöðvar KN á Svalbarðseyri, Blönduósi, Húsavík og Akureyri undir KS. Samkvæmt heimildum blaðsins er gert ráð fyrir að rekstur starfsstöðvanna haldist óbreyttur fram yfir næstu sláturtíð, í það minnsta. Sé miðað við nýjustu sláturtölur verður hlutdeild sláturhúsa í eigu KS rúm 69 prósent af heildarfjölda sláturdilka í landinu. Hvað varðar hlutfall nautgripa á landsvísu sem koma til slátrunar hjá KS, má búast við að það verði um 64 prósent.
- Sjá nánar á bls. 2 í nýju Bændablaði sem kom út í dag