Viðbúnaður vegna fuglaflensu
Eins og alltaf á þessum árstíma metur Matvælastofnun í samvinnu við sérfræðinga á Tilraunastöðinni á Keldum og í Háskóla Íslands, hvort hætta sé á að farfuglarnir okkar beri með sér fuglaflensusmit til landsins.
Á heimasíðu Mast segir að því miður sé staðan sú í Evrópu um þessar mundir að töluvert hefur verið um fuglaflensu, bæði í alifuglum og villtum fuglum. Það er því mikilvægt að fuglaeigendur gæti smitvarna og allir séu vakandi fyrir óeðlilegum dauða bæði villtra fugla og fugla í haldi.
Á undanförnum mánuðum hafa tilkynningar borist um fuglaflensugreiningar bæði í alifuglum og villtum fuglum í löndum þar sem margir af íslensku farfuglunum hafa vetursetu, svo sem í Hollandi, Englandi og Írlandi.
Ekki er talin þörf á að auka viðbúnað enn sem komið er en Matvælastofnun vill samt sem áður brýna fyrir fuglaeigendum að huga að smitvörnum og þá sér í lagi að koma í veg fyrir að villtir fuglar komist í fóður og drykkjarvatn alifugla.
Að svo stöddu er því lágmarks viðbúnaðarstig í gildi. Það felur meðal annars í sér að tilkynna skuli til Matvælastofnunar um dauða villta fugla ef orsök dauða er ekki augljós. Það má gera með því að senda ábendingu á vef stofnunarinnar eða með tölvupósti á netfangið mast@mast.is. Jafnframt skulu fuglaeigendur hafa samband við stofnunina verði þeir varir við aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi meðal fugla sinna.