Drumboddsstaðir 1
Við tókum við búi af foreldrum Jórunnar árið 2000. Árið eftir var farið í að breyta básafjósinu í lausagöngufjós með mjaltabás í hlöðunni.
Árið 2005 var byggt við og yfir gamla fjósið og útbúin lausaganga fyrir geldneyti og fóðuraðstaða. Árið 2018 var settur mjaltaþjónn.
Býli: Drumboddsstaðir 1 í Biskupstungum.
Staðsett í sveit: Bláskógabyggð í Árnessýslu.
Ábúendur: Jón Gunnarsson og Jórunn Svavarsdóttir.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Gamla settið er heima en krakkarnir, Laufey Ósk, 19 ára, og Ólafur Magni, 16 ára, stunda vinnu og framhaldsskólanám í Reykjavík.
Hundurinn Kátur gætir bæjarins ásamt fjósakettinum.
Stærð jarðar? Um 400 ha og þar af ca 90 ha ræktaðir.
Gerð bús? Kúabú.
Fjöldi búfjár og tegundir? Um 60 mjólkurkýr og annað eins af geldneytum.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Þó kominn sé mjaltaþjónn er enn farið í fjós á „mjaltatímum“.
En á milli eru árstíðabundin störf og svo er endalaust hægt að laga og þrífa ef maður nennir.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast er að horfa yfir heilbrigða hjörð. Leiðinlegast er að gera við eitthvað bilað og þá sérstaklega flórsköfur.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Vonandi blómlegan kúabúskap því að jörðin býður upp á það.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Þeir sem gefa sig í það eiga heiður skilinn en grasrótin þyrfti að vera öflugri.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Við höfum tækifæri í hreinleika en við þurfum að passa vel upp á hann. Fá ekki inn alls konar sjúkdóma og sýklalyfjaónæmar bakteríur.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Alltaf er maður að vona að það takist að flytja út skyr framleitt á Íslandi.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Mjólk, ostur, egg og gerjað fljótandi brauð.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Grillað nautakjöt.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Það var minnisstætt þegar kýrnar komust út um miðja nótt í dymbilvikunni og trömpuðu allt í kringum nýja íbúðarhúsið. Það vildi til happs að það var hvorki snjór né hálka og fullt tungl svo allar kýrnar fundust og engri varð meint af.