Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Fjölskyldan á sólskinsdegi. Ingiríður Hauksdóttir og Haukur Marteinsson ásamt börnunum Hauki Snæ og Ríkeyju.
Fjölskyldan á sólskinsdegi. Ingiríður Hauksdóttir og Haukur Marteinsson ásamt börnunum Hauki Snæ og Ríkeyju.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 7. mars 2025

Hagræðing í stækkun

Í Köldukinn stendur stór- og glæsibýlið Kvíaból en það var útnefnt fyrirmyndarbú ársins á deildarfundi NautBÍ á dögunum. Fjölskyldan tekur yfir Instagram-reikning Bændablaðsins á næstu dögum þar sem hægt verður að fylgjast með lífi og starfi fjölskyldunnar.

Ábúendur: Haukur Marteinsson og Ingiríður Hauksdóttir og börnin Haukur Snær og Ríkey. Einnig búa á bænum foreldrar Hauks, Marteinn Sigurðsson og Kristín Björg Bragadóttir.

Stærð jarðar: Jörðin Kvíaból samanstendur af Garðshorni, Hóli, og Arnþórsgerði en á undanförnum áratugum hafa þessar jarðir verið keyptar undir Kvíaból. Jörðin er að heildarstærð um 500 hektarar en ræktað land í dag er um 100 hektarar en við leigjum um 40 hektara til viðbótar undir korn og grasrækt á nágrannajörðum.

Gerð bús: Mjólkur- og nautakjötsframleiðsla.

Fjöldi búfjár: Á búinu eru um 310 nautgripir. Einn Lely A5 sér um að mjólka kýrnar sem eru að jafnaði 55 mjólkandi en ásamt kúm og kvígum erum við með um 170 íslensk naut í kjötframleiðslu.

Hvers vegna þessi búgrein? Við veljum þessa búgrein kannski ekki síður en þessi búgrein velur okkur. Haukur hefur alltaf haft áhuga á nautgripum og ekki síður jarðvinnslu og ræktun og Ingiríður alltaf haft áhuga og ástríðu fyrir kúnum og mjólkurframleiðslunni. Við sækjumst eftir því á sama tíma og okkur býðst að kaupa bú foreldra Hauks, sem hefur gengið í gegn og þau hjálpa okkur gríðarlega mikið, bæði með vinnuna á búinu og ekki síður utan. Helsta vandamálið er að fá þau til að stoppa og „njóta lífsins“.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig? Krakkarnir gerðir klárir í skólann, Þingeyjarskóla, og svo morgunverk á borð við eftirlit, þrif og gjafir. Síðan setjumst við yfirleitt inn í morgunkaffi og sinnum tölvuvinnu eins og bókhaldi, heimabanka, tölvupósti og öllu slíku sem er misjafnt eftir dögum. Svo göngum við í það sem þarf, skepnum sinnt, lagfæringar á vélum eða útihúsum. Talsverður munur er verkum á hefðbundnum degi að vetrarlagi eða sumri sem eru yfirleitt tileinkuð vélavinnu úti í flagi, túni eða einhverju slíku.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Öllum störfum fylgja einhver verðmæti og ánægja, kemur helst upp í hugann að leiðinlegast er þegar erfiðir burðir, súrdoði og slíkt hrjá dýrin eða þegar veðrið leikur okkur grátt.

Hvernig er að búa í dreifbýli? Það hefur sína kosti og galla. Það er vissulega lengra í búðina eða pitsustaðinn en félagslífið er ekki síðra ásamt frelsi til að athafna sig án mikils áreitis. Lykilatriði er að eiga góðan bíl og læra að njóta samverunnar í bílferðum.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi?Að vera bóndi er að eiga og reka fyrirtæki. Það getur verið afskaplega gaman að vera sinn eigin herra, vinna mikið og njóta ávaxta vinnu sinnar. Það er yndislegt að fylgjast með landinu sínu grænka á vorin og sjá árangur af breytingum eða lagfæringum sem gerðar eru. Nándin við dýrin og náttúruna finnst okkur gulls ígildi fyrir börnin okkar að alast upp í.

Hverjar eru áskoranirnar? Að hafa sig yfir erfiðu tímabilin og hafa skynsemi til að eyða ávöxtun góðu áranna vel.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn þinn hagkvæmari? Ná betri tökum á kornframleiðslunni, ekki bara með aukna uppskeru í huga heldur líka að auka stöðugleika milli ára en sveiflan getur verið talsverð. Við sjáum hagræðingu í því að stækka búið og komast upp í tveggja róbóta einingu ásamt nautaeldinu og einnig teljum við íslenska kúabændur ekki geta horft fram hjá hagræðingarmöguleikum í að flytja inn annað kúakyn. Það er lykilatriði fyrir íslenska mjólkurframleiðslu að bændur geti framleitt ódýrari mjólk en nú er.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Bara vel ef stjórnvöld horfa á stóru myndina í alþjóðlegu samhengi og átti sig á mikilvægi greinarinnar. Við erum ekki að framleiða einhverja óþarfa vöru sem hægt er að skipta út. Við erum að framleiða matinn á diskana okkar.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Líklega síðasta sumar í heild sinni. Við tókum það skref að ráðast í 50 hektara skógrækt í fjallinu ofan við bæinn, mjög skemmtilegt verkefni en krefjandi um leið. Það var mjög skrítið að fylgjast með umræðum á samfélagsmiðlum þegar samtök grænfriðunga og slíkt var orðið helstu andstæðingar skógræktar. Við tókum þátt í að reisa þurrkstöð á vegum Búnaðarsambands SuðurÞingeyinga sem var ræst síðasta haust og ásamt því var veðrið einstaklega leiðinlegt í nánast allt sumar. Þetta ásamt því að í tvígang biluðu tvær af þremur dráttarvélunum okkar í byrjun sláttar sem reyndi talsvert á þolrifin. 

Best í heimi að búa í sveit
Bóndinn 11. apríl 2025

Best í heimi að búa í sveit

Nú kynnast lesendur búskapnum á Lynghóli í Skriðdal en þar er fjölbreytnin í fyr...

Nýfædd folöld toppurinn
Bóndinn 21. mars 2025

Nýfædd folöld toppurinn

Hrossin eiga hug og hjarta fjölskyldunnar á Nautabúi í Hjaltadal. Geta lesendur ...

Hagræðing í stækkun
Bóndinn 7. mars 2025

Hagræðing í stækkun

Í Köldukinn stendur stór- og glæsibýlið Kvíaból en það var útnefnt fyrirmyndarbú...

Verndum allan landbúnað
Bóndinn 21. febrúar 2025

Verndum allan landbúnað

Nú kynnast lesendur kúabúinu á Sólheimum í Hrunamannahreppi þar sem laxveiðar er...

Sól í hjarta, sól í sinni
Bóndinn 7. febrúar 2025

Sól í hjarta, sól í sinni

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, eigandi Sólskins grænmetis, hefur í mörgu að ...

Samstaða skiptir máli
Bóndinn 27. janúar 2025

Samstaða skiptir máli

Hjónin Rósa Birna Þorvaldsdóttir og Þór Jónsteinsson reka hrossaræktar- og sauðf...

Mykjubras og menntun
Bóndinn 10. janúar 2025

Mykjubras og menntun

Næstu daga geta lesendur kynnst búskapnum á Hvanneyrarbúinu á Instagram Bændabla...

Á kafi í hrossarækt
Bóndinn 20. desember 2024

Á kafi í hrossarækt

Þau Hannes og Ástríður á Ási 2 víla ekki margt fyrir sér. Húsdýrin, sem eru allt...