Endurlit
Þessi peysa er endurunnin, var hönnuð fyrir nokkrum áratugum en ástæða þótti til endurhönnunar.

Gamla uppskriftin var með lengri tungum og var gefin upp fyrir Álafosslopa eða þrefaldan plötulopa. Þessi er aftur á móti fyrir tvöfaldan lopa, sem er mun algengari þykkt á peysum nútímans. Á gömlu peysunni eru margir litir i hverri mynsturtungu, en hér er einn litur í hverri, sem gefur peysunni allt annan svip. Það er gaman að spreyta sig á að setja saman liti í þessa. Það eru gefnir upp 7 litir í mynstrið, en það má líka alveg fækka þeim í fjóra eða fimm, eftir smekk hvers og eins.
Stærðir: S M L XL XXL
Yfirvídd: 88 96 105 112 120
Efni:400-400-450-450-500g Þingborgarlopi í sauðalit í aðallitinn og 4-7 litir. Slettuskjótt í mynsturliti. Prjónað er úr lopanum tvöföldum, Slettuskjótt er tvöfaldur Þingborgarlopi í 50 g dokkum. Í tvo fyrstu litina þarf 50 g af hvorum lit en minna af hinum litunum. Slettuskjótt fæst einnig í 100 g pakkningum með nokkrum litum saman.
Ef notaður er lopi frá Ístex verður að gæta að prjónfestu, ekki er sami grófleiki á honum og á Þingborgarlopanum.
Sokkaprjónar 4 og 5 mm.
Hringprjónar 4 og 5 mm 40, 60 og 80 cm langir.

Prjónfesta: 14 l og 22 umf í sléttu prjóni = 10 x 10 cm.
Önnur prjónastærð getur hentað, allt eftir því hvort prjónað er fast eða laust, finnið það út með því að prjóna prufu. Bolur og ermar eru prjónuð í hring. Lesið uppskriftina yfir áður er hafist er handa.
Bolur: Fitjið upp með aðallit 124- 136-148-160-168 l á 4 mm 80 cm hringprjón og prj. stroff í hring 6-8 sm 2 sl og 2 br. Eins er hægt að hafa aðra stroffgerð að eigin vali og eins er hægt að hafa rendur í stroffi til skrauts. (Lengd á bol er smekksatriði, mælið viðkomandi og metið hvað bolur á að vera síður.)
Á dömupeysu er fallegt að gera ,,mitti“ á peysuna með því að taka úr á bol. Setjið merki í báðar hliðar, takið úr 2 l hvoru megin, *prj. 2 l saman, prj. 1 l, prj. 2 l saman*. Fyrst er tekið úr er bolur mælist 8-12 cm og síðan 2x aftur með 5 cm á milli. Alls eru teknar úr 12 l. Prj. 5 cm, þá er aukið út aftur samsvarandi og með sama millibili og tekið var úr og endað með sama lykkjufjölda.
Ermar: Fitjið upp með aðallit 32-32- 36-36-40 l á 4 mm sokkapjóna og prjónið stroff í hring 6-8 cm. Skiptið yfir á 5 mm sokkaprjóna þegar stroffi er lokið og aukið strax um 2 l undir miðri ermi, (1 l eftir fyrstu lykkju og 1 l fyrir síðustu lykkju í umf). Endurtakið aukningu 7-7-8- 9-9 x upp ermi, með u.þ.b. 8 umf. á milli, þar til 48-48-54-56-60 l eru á prjóninum. Skiptið yfir á stutta 5 mm hringprjóninn á u.þ.b. miðri ermi. Gott er að nota prjónamerki til að merkja þar sem aukið er út. Prjónið uns ermi mælist 44-52 cm. (Mælið handlegg og metið hve ermin á að vera löng)
Axlastykki:Sameinið nú bol og ermar á 5 mm 80 cm langa hringprjóninn. Setjið 5-5-5-5-6- síðustu l og 5-5-5-6-6- fyrstu l á báðum ermum á prjónanælu. Setjið 10-10-10-11-12 af bol á prjónanælu þar sem umferð byrjar vinstra megin á bol. Prjónið fyrri ermina við bolinn 38-38-44-45- 48 l, prjónið næstu 52-58-64-69-72 l af bol og setjið næstu 10-10-10-11-12 l á hjálparprjón. Prjónið seinni ermina við og gerið eins og með hana. Prjónið síðan 52-58-64-69-72 l af bol, þá eru 180-192-216-228-240 l á prjóninum. Prj. mynstur eftir teikningu. Notið styttri hringprjóna eftir því sem lykkjum fækkar. Þegar mynstri lýkur er tekið úr aukalega þar til u.þ.b. 64-70 l eru eftir á prjóninum, þá er skipt á 4 mm 40 cm hringprjón og prj. 6-8 sm stroff og 4 umf. slétt prjón, fellið af. Gangið vel frá öllum endum og lykkjið saman undir höndum.
Þvottur: Þvoið flíkina í volgu vatni með góðri ullarsápu eða sjampói. Skolið vel og vindið svo í hálfa mínútu í þvottavél. Mikilvægt er að vélin fari strax að vinda, (þær eru misjafnar að þessu leyti) en sé ekki að veltast með flíkina fyrst, þá getur hún þófnað. Leggið peysuna á handklæði til þerris.
Styttingar: prj. = prjónið, l = lykkja, umf. = umferð, cm = sentímetrar, Endurlit sl. = slétt, br. = brugðið, g = grömm.