Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Beikonsuða og egg á mismunandi stigum tilverunnar. Með og án sterkju.
Beikonsuða og egg á mismunandi stigum tilverunnar. Með og án sterkju.
Mynd / Hari
Líf og starf 19. mars 2025

Kjörbúðarbeikon og tvenns konar egg

Höfundur: Haraldur Jónasson

Beikon kemur í mörgum útgáfum; misþykkt, missalt, misdýrt og stundum mislukkað. Sér í lagi ef það er ekki hanterað rétt þegar heim er komið.

Til að elda beikon, sérstaklega þunnt beikon, þarf að ná að elda kjötið á sirka sama tíma og fitan bráðnar. Svo er það bandvefurinn sem þarf líka að trosna. Vandinn er að allt þrennt gerist við mismunandi hita og tekur mislangan tíma. Við þurran hita í ofni þornar þunnt beikon og á pönnu brennur kjötið gjarnan áður en fitan nær bræðslumarki.

Þá kemur efnafræðin inn og blessað blávatnið. Vatn við suðu er 100 gráður og svínafita byrjar að bráðna við rúmlega 80 gráður og kjötið meyrnar við svipað hitastig. En töfrar vatnsins felast líka í því að draga svolítið salt úr beikoninu. Bæði matarsaltinu og nitratsaltinu sem notað er til að gera beikon að því undri sem það er.

Beikonsuða

Kjörbúðarbeikon, þetta sérmerkta hverri búð, er svo þunnt að það er enginn séns að halda því sléttu. Tekur því ekki að reyna. Þannig er hægt að elda heilt bréf í einu. Taka sneiðarnar í sundur, dreifa um pönnuna og hella svo köldu vatni yfir. Þarf ekki að fljóta alveg yfir en svona næstum því. Hita að suðu og halda þar í nokkrar mínútur. Þegar beikonið byrjar aðeins að krullast þarf að taka ákvörðun. Þau ykkar sem elskið salt haldið áfram að sjóða. Hinn helmingurinn, þessi með háa blóðþrýstinginn en óþrjótandi beikonþrá, hellir sirka 70% af vatninu af. Með því fer salt og alls konar jukk en eftir verður alveg mátulegt beikon sem veitir meiri sælu en brjóstsviða.

Gott að hræra stöku sinnum í pönnunni þangað til vatnið hefur allt gufað upp. Þegar vatnið er farið byrjar beikonið að steikjast. Þá er gott að lækka hitann svolítið til að ekkert brenni. Það er hægt að steikja beikon í hvaða íláti sem er en best er að nota óhúðaða pönnu. Pottjárn, karbonstál eða ryðfrítt eru allt ljómandi beikonáhöld. Teflon er betra í eggjahræruna sem kemur á eftir.

Þegar beikonið hefur náð hárréttri áferð; stökkt en ekki hart og auðvelt að tyggja en þó með smá áferð er það tekið úr pönnunni og sett á disk. Beint á disk eða grind. Ekki setja beikon á bréfþurrkur. Það tekur vissulega umfram olíu en sogar líka úr lífsviljann. Næst er það önnur stór ákvörðun þennan sunnudagsmorguninn. Hvernig á að elda eggin?!

Að hræra eða ekki hræra

Tæknilega eru tveir möguleikar; spælt egg eða eggjahræra. Ommiletta kemur ekki til greina. Það er staðfest! Þau sem fara spældu leiðina létthreinsa óhúðuðu pönnuna, taka fituna frá fyrst, við notum hana. Blanda til helminga með smjöri og spæla eggið við miðlungs háan hita þangað til endarnir brúnast. Passa að skafa af eggjahvítusleikjuna í kringum rauðuna eða setja á lok, þannig eldast slikjan í gufunni.

Kosturinn við spælt egg er að drekkja beikoni og ristuðu súrdeigsbrauði í fljótandi eggjarauðu. Ef pönnukökur eru á matseðlinum þarf að hræra. Amerískar pönnukökur vilja ekkert með fljótandi eggjarauður að gera. Þær vilja síróp.

Það eru margar leiðir til að hræra egg. T.d. Gordon Ramsey-aðferðin; Þar sem við kemur sýrður rjómi og graslaukur. En okkur leiðist Goggi og eggin hans draga athygli frá beikoninu. Ef við viljum fara í fræga kokka þá er betra að fara í bækur Meistara Gordons, Marco Pierre hins hvíta, en við ætlum samt ekki að gera það hér. Við förum í einfaldleikann enda er hann yfirleitt bestur.

Eggjahræra á við svipað vandamál að stríða og beikonið. Hvítan og rauðan eldast mismunandi. Aðal vesenið er þó áferðarmunurinn. Flest þenkjandi fólk kýs harða hvítu og mjúka rauðu, ekki ósvipað spæleggi. Þessi áferð næst í eggjahræru með því að elda við vægan hita og hér er best að taka fram teflonið.

Smjör, teskeið eða svo fyrir hvert egg, er brætt á pönnu eða í þykkbotna potti við miðlungs hita. Eggin fara heil á pönnuna rétt eins og þegar verið er að spæla. Hræra í hvítunni en skilja rauðurnar eftir eins og eyjur. Salt eftir smekk. Engan pipar eða annað krydd. Þegar allt eggjahvítuefnið hefur tekið hvítan lit eru rauðurnar sprengdar og hrærðar létt saman við. Passa að ofelda ekki rauðurnar.

Beikon og egg parast auðvitað best með góðri sterkju. Minnst var á súrdeigsbrauð og amerískar pönsur hér að ofan en stundum er bara til heimilisbrauð eða afgangs kartöflur. Gamlar, soðnar kartöflur steiktar upp úr beikonfitu eru ljúfmeti – já og beyglur, ekki gleyma þeim. Bara prófa sig áfram. Það eru rúmlega 40 sunnudagar eftir af árinu.

Uppskipun á áburði
Líf og starf 15. apríl 2025

Uppskipun á áburði

Einn af vorboðunum er innflutningur á tilbúnum áburði til túnræktar.

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan
Líf og starf 15. apríl 2025

Samspil ljóss og hljóðs veitir vellíðan

Bryndís Bolladóttir vakti fyrst athygli vegna hönnunar sinnar á Kúlunni, hljóðde...

Glæsileg vörn
Líf og starf 15. apríl 2025

Glæsileg vörn

Við sögðum í síðasta briddsþætti frá snjallri sagnvenju á Norðurlandamóti bridds...

Í lok vertíðar
Líf og starf 14. apríl 2025

Í lok vertíðar

Eftir því sem líða fer að sumri ljúka áhugaleikhús landsins sýningum sínum, en a...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 14. apríl 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gengur nú inn í tímabil þar sem gott er að vinna að nýjum hugmyndum ...

Bæjarnöfn á ská og skjön
Líf og starf 11. apríl 2025

Bæjarnöfn á ská og skjön

Nöfn íslenskra bæja og býla til sveita eru fjölskrúðug, svo ekki sé dýpra í árin...

Prjónavetri lýkur
Líf og starf 10. apríl 2025

Prjónavetri lýkur

Íslenskur prjónaiðnaður hættir aldrei að vera móðins enda hefur Listasafn Sigurj...

Falleg sumarpeysa
Líf og starf 9. apríl 2025

Falleg sumarpeysa

Falleg peysa fyrir sumarið, prjónuð úr DROPS Muskat eða DROPS Belle sem er á 30%...