Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Grasið í garðinum
Á faglegum nótum 19. júní 2014

Grasið í garðinum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Gras er líklega sú planta sem fær hvað minnsta athygli. Margir standa í þeirri trú að gras vaxi af sjálfu sér og þurfi litla sem enga umhirðu en þannig er það ekki. Til að fá fallega grasflöt þarf að sinna henni af alúð. Flestar grastegundir eru ljóselskar og þrífast illa í skugga.

Helstu kostir grassins eru að það þolir nokkurt traðk, er mjúkt undir fæti og endurnýjar sig sjálft. Gras hefur góða lykt og fallegan lit en grasgræna næst illa úr fötum.

Hér eru aðallega tvær grastegundir notaðar í grasflatir, vallarsveifgras og túnvingull. Þriðja tegundin, vallarrýgresi, eða enskt rýgresi eins og það er stundum kallað, fylgir stundum með við sáningu. Í fræblöndum er þessum tegundum of blandað saman í hlutfallinu 50% vallarsveifgras, 40% túnvingull og 10% vallarrýgresi.
Eigi grasflöt að þola ágang þarf hlutfall vallarsveifgrass að vera hærra, en fyrir skuggastaði á að vera meira af túnvingli. Þeir sem eru latir við að kantskera ættu að nota meira af túnvingli, þar sem hann skríður minna. Vallarrýgresi er notað í garðflatir með öðrum grastegundum. Það er fljótt til og þekur vel og því gott til að ná þekju á fyrsta sumri. Hlutfall þess má þó ekki vera mikið, það er viðkvæmt og deyr yfirleitt á fyrsta eða öðrum vetri og skilur eftir sár hafi verið notað of mikið af því.

Undirbúningur

Til að fá góða grasflöt þarf að gæta vel að öllum undirbúningi. Hreinsa lóðina vel, fjarlægja rætur, steina, torfhnausa og hreinsa allt rusl. Ef það vantar mold verður að útvega hana og blanda með sandi. Síðan er svæðið grófjafnað og hafður vatnshalli frá húsi. Ef garðurinn er blautur þarf að setja í hann drenlögn.

Þegar búið er að grófjafna skal tæta 20 til 30 sentímetra niður í jarðveginn og hreinsa lóðina aftur. Því næst skal bæta við tveimur til þremur rúmmetrum af sandi, gjarnan blönduðum skeljasandi, á hverja 100 fermetra, og lífrænum áburði í jarðveginn og tæta enn einu sinni. Ef blanda á tilbúnum áburði í moldina á að nota sex til átta kíló á hverja 100 fermetra.

Að lokum skal jafna lóðina í rétta hæð og þjappa hana lítillega með valtara. Áður en sáð er eða þökur lagðar er gott að fara lauslega yfir flötina með grófri hrífu til að losa um efsta lagið og bæta viðloðun fræsins og þakanna við jarðveginn.

Sáning

Hægt er sá hvort sem er vor eða haust en ráðlegast er að gera það að vori. Haustsáningu á að framkvæma mánuði fyrir fyrsta frost. Jarðvegurinn þarf að vera hæfilega rakur þegar sáð er og nota skal eitt kíló af fræi á hverja 100 fermetra. Fyrsta árið eftir sáningu verður að gæta þess að umgangur um lóðina sé í lágmarki, en það tekur þrjú ár fyrir sáninguna að ná fullum þroska.

Sé sáð að vori er nauðsynlegt að vökva lóðina reglulega í þurrviðrum. Varast ber að slá grasið of snöggt til að byrja með. Gott að halda því í átta til tíu sentímetra hæð. Þegar flötin hefur náð sér að fullu má slá hana í fjögurra til fimm sentímetra hæð. Sé slegið sneggra skal vökva á eftir.

Þökur

Þeir sem vilja gras strax og helst í gær ættu frekar að þekja en sá. Undirbúningur fyrir þökur er sá sami og fyrir sáningu. Leggja má þökur frá því snemma að vori og fram á haust. Gott er að leggja eina beina röð af þökum umhverfis flötina sem á að tyrfa. Eftir það eru þökurnar lagðar eins og múrsteinar, hálf í hálft, og götum lokað með bútum í lokin. Gæta skal þess að þjappa þökunum ekki of þétt því þá getur myndast holrúm undir þeim og fletir sem ekki ná að skjóta rótum. Ef skera á boga í flötina er gott að leggja slöngu, helst með vatni í, til að móta bogann og nota slönguna sem skapalón til að skera eftir. Að þökulögn lokinni þarf að valta flötina og vökva.
Þegar þökur eru keyptar verður að skoða þær vandlega við afhendingu og gæta þess að ekki leynist í þeim illgresi, eins og snarrótarpuntur, skriðsóley, mosi eða gróf fóðurgrös.

Viðhald

Um það leyti sem grasið tekur við sér á vorin er gott að raka yfir flötina með laufhrífu og fjarlægja mosa, lauf og annað rusl sem hindrar loftstreymi að sverðinum. Bera skal alhliða garðáburð á snemma að vori, þrjú til fjögur kíló af tilbúnum áburði duga á 100 fermetra. Mánuði síðar skal bera á sama magn og í kringum verslunarmannahelgina helmingi minni skammt. Einnig er gott að bæta kalki eða skeljasandi í lóðina á nokkurra ára fresti til að hækka sýrustigið og halda niðri mosa.

Reglulegur sláttur er hluti af viðhaldi en ekki má slá of snöggt því blaðmassinn verður að vera nógur til að sjá rótunum fyrir næringu. Best er að slá oft og reglulega og það verður að raka slægjuna burt því annars rotnar hún í sverðinum og heftir vöxt. Sé nauðsynlegt að vökva flötina skal vökva lítið í einu snemma á morgnana eða seinni hluta dags, en ekki í sterku sólskini. Ef grasið er orðið þétt er hætta á að ræturnar fái ekki nóg súrefni og að flötin verði kyrkingsleg. Við þannig aðstæður er nauðsynlegt að gata svörðinn með gaffli með reglulegu millibili og raka sandi ofan í holurnar.
 

Besta mold í heimi

Góð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér og fólk ætti hiklaust að stunda jarðgerð hafi það aðstöðu til.

Ýmsar aðferðir eru þekktar þegar kemur að jarðgerð og mismunandi hver þeirra hentar á hverjum stað. Algengast er að garðeigendur komi sér upp einum eða fleiri kössum fyrir lífrænan úrgang. Hægt er að velja á milli þess að kassinn sé einfaldur að gerð eða flóknari, lokaður og einangraður. Jarðgerð í einföldum kassa kallast köld en heit í lokuðum og einangruðum kassa og gengur hún mun hraðar fyrir sig.

Hvort sem um er að ræða kalda eða heita jarðgerð skal koma kassanum fyrir á þurr­um og skjólgóðum stað þar sem auðvelt er að komast að honum. Kassinn þarf að standa á möl eða moldarjarðvegi og gott er að setja trjágreinar í botninn þannig að jarðvegsdýr eigi auðveldan aðgang upp í hann.

Hvað má fara í kassann?

Til jarðgerðar má nota flest sem fellur til úr garðinum, fyrir utan rótarillgresi eins og húsapunt, skriðsóley og túnfífil eða illgresi eins og krossfífil og dúnurtir sem hæglega geta þroskað fræ í safnhaugnum. Nýslegið gras, ekki meira en 20%, lauf, smáar greinar, barr, visnuð blóm og þurrt hey má allt fara í safnhauginn.

Úr eldhúsinu má setja salat og kál, rótargrænmeti, hýði af ávöxtum og kartöflum, eggjaskurn, brauð, te- og kaffikorg og eldhúspappír en varast skal að setja fisk- og kjötafganga í opinn safnhaug þar sem slíkt getur laðað að sér óæskileg nagdýr.

Best að blanda öllu saman

Þegar lagt er í jarðgerð er gott að setja um 15 sentímetra lag af misgrófum greinum í botninn á kassanum og mikið af þurru efni, til dæmis hey, í neðsta lagið. Best er að hafa úrganginn sem fer í kassann sem smágerðastan og hræra öllu vel saman. Ef ekki er hægt að hræra í kassanum skal fyllt á hann í þunnum lögum og gott er að setja mold eða þurran garðaúrgang milli laga. Auka má loftstreymi í kassanum með því að stinga í eða hræra í innihaldinu með stungugaffli af og til. Til að flýta fyrir jarðgerðinni er gott að sáldra gamalli fíngerðri mold eða þurrum búfjárskít á milli laga.

Þumalfingursreglan segir að ef sett sé í kassann ein fata af grænmeti skuli setja með 1/3 úr fötu af þurru efni, til dæmis þurru laufi eða heyi. Komi sterk rotnunar­lykt úr kassanum er efnið í honum of blautt. Yfirleitt er nóg að blanda þurru heyi eða sagi í innihaldið til að kippa þessu í lag og minnka fnykinn.

Við aðstæður sem þessar ætti jarðgerðin að taka átta til tíu mánuði í lokuðum einangruðum kassa en nokkrum mánuðum lengur í einföldum óeinangruðum kassa eða tunnu.

Lífið í jarðgerðinni
Til þess að jarðgerðin heppnist þarf vatn, súrefni og hita. Örverurnar sem umbreyta efninu í kassanum í jarðveg þurfa vatn svo að lífsstarfsemi þeirra gangi eðlilega. Of mikið vatn getur aftur á móti hægt á starfseminni þeirra, þar sem það dregur úr súrefni, en það er ekki síður nauðsynlegt svo að niðurbrot geti átt sér stað. Við rotnunina myndast hiti og hann örvar niðurbrotið enn frekar. Hæfilegt raka­stig í kassanum er þegar efnið er eins og blautur svampur viðkomu, eða með 50 til 60% raka. Fari rakastigið niður fyrir 30% stöðvast starfsemi örveranna og umbreytingin hættir.

Ef vel tekst til við jarðgerðina safnast í kassann ógrynni af jarðvegslífverum, ánamaðkar, járnsmiðir, þúsundfætlur og grápöddur sem aðstoða við og flýta fyrir niðurbrotinu.

Besta mold í heimi

Vel heppnuð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér. Hún iðar af lífi og er sneisafull af næringarefnum, bæði lífrænum efnum og ólífrænum. Nota má safnhaugamold til að auka frjósemi garðsins með því að dreifa henni yfir beðin eða grasflötina í þunnu lagi. Hún er einnig tilvalin í bland með annarri mold þegar settar eru niður hvers konar plöntur. 

2 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...