Þjóðbúningur að gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi
Íslenskur hópur kvenna sameinast nú um stórbrotna gjöf sem mun gleðja og styrkja tengslin milli tveggja landa.

Á 150 ára afmæli Íslendinga- byggðar í Kanada árið 2025 mun nýr kyrtill – þjóðbúningur fjallkonunnar – verða afhentur í Gimli, þar sem þessi gjöf mun verða tákn um vináttu og samstöðu milli íslenskra kvenna í bæði gamla og nýja heiminum.
Hugmyndin um nýjan kyrtil
Hugmyndin um að endurnýja kyrtilinn sem klæðir fjallkonuna í Gimli kviknaði í heimsókn sem nemendur Annríkis fóru til Íslendingabyggðanna í Kanada árið 2023. Fjallkonan í Gimli hefur verið klædd í kyrtil og höfuðbúnað í áratugi, sem er mikilvægur hluti af þjóðhátíðarhöldunum og er þjóðlegt tákn fyrir Íslendinga í Vesturheimi. Þegar búningurinn var skoðaður nánar kom í ljós að hann þurfti á endurbótum að halda. Kyrtillinn er slitinn og höfuðbúnaðurinn þarfnast lagfæringar. Í kjölfarið kom upp sú hugmynd að sauma nýjan kyrtil og gefa.
Nýr kyrtill – tákn nýrrar tengingar
Í lok árs 2023 var ákveðið að nýi kyrtillinn yrði ljós eins og upprunalegi kyrtillinn, en með útsaumuðu mynstri sem endurspeglar íslenska náttúru og menningu. Hildur Rosenkjær og Ásmundur Kristjánsson, eigendur Annríkis, fengu til liðs við sig nemendur frá Annríki ásamt hluta kvenna sem voru með í Kanadaferðinni 2023. Góður starfshópur hefur myndast sem stýrir verkefninu undir handleiðslu Hildar, og hefur tekið að sér útsaum á kyrtlinum, sem mun prýða fjallkonuna við hátíðarhöldin í Gimli árið 2025.
Mynstrið sem valið var fyrir kyrtilinn er Liljumynstur, sem teiknað var af Sigurði málara. Þetta mynstur á rætur sínar að rekja til fornra altarisklæða og er saumað með lykkjuspori og flatsaumi, sem gefur því bæði klassískt og nýtt útlit.

Skagafjarðarhópurinn – sköpun og samverustundir
Þó að Skagafjarðarhópurinn sé aðeins einn af mörgum hópum og ótal frábærum konum um allt land sem eru að sinna útsaumi og öðrum handverkum, þá viljum við deila þessum fréttum frá þeim til að byrja með, og vonumst til að geta deilt fleiri fréttum frá öðrum hópum þegar við komumst nær lokum.
Skagafjarðarhópurinn samanstendur af fjórum konum: Ástu Ólöfu Jónsdóttur, Jóhönnu Björnsdóttur, Rósu Róarsdóttur og Sigríði Ingólfsdóttur. Hópurinn hefur tekið að sér verkefni sem snýr að útsaumi á pilsið, og þrátt fyrir að byrjunin hafi verið róleg, með mikilli umhugsun og vangaveltum um hvernig best væri að framkvæma verkið, þá hafa þær nú komist á fullt skrið og stefna að því að ljúka verkefninu í febrúar eða mars. Pilsaþytur, sem hefur aðstöðu við Aðalgötu 2 á Sauðárkróki, er staðurinn þar sem hópurinn hefur hist og sameinað krafta sína við saumavélarnar. Samverustundirnar eru bæði gefandi og gleðjandi, og þær skapa minningar sem munu örugglega ylja þeim þegar þær rifja þær upp á elliheimilinu síðar meir.
Samstarf milli kvenna
Verkefnið er einstaklega sérstakt fyrir þann mikla hóp kvenna sem tekur þátt sem viðkemur skipulagi, kynningu, útsaumi sem og viðgerð á höfuðbúnaði og möttli. Almar Grímsson er tengiliður við Kanada, og Sigrún Ásmundsdóttir er tengiliður hópsins til Íslendingafélagsins í Kanada.
Gjöf sem byggir brýr
Gjöf frá konum á Íslandi til kvenna á Nýja Íslandi er ekki bara um varðveislu kyrtils fjallkonunnar, hún er líka tákn fyrir vináttu og samstöðu. Þar sem konur frá báðum löndum vinna saman til að varðveita og endurnýja þjóðlega arfleifð.
Hugmyndin um nýjan kyrtil í Gimli er því ekki aðeins sögð táknræn, heldur er hún líka nýr kafli í þeirri samstöðu og menningarlegu tengingu sem hefur verið mikilvæg fyrir Íslendinga í Kanada í yfir 150 ár. Grundvallaratriði er að viðhalda þessum góðu menningartengslum.
Áframhaldandi ferðalag
Það er með mikilli gleði sem við sjáum þessa gjöf verða að veruleika. Við vitum að hún mun bæta sýn okkar á því hvernig þjóðbúningar eru varðveittir og þróaðir. Við hlökkum til að sjá hvernig kyrtillinn mun prýða fjallkonuna í Gimli og hvernig þetta verkefni mun viðhalda tengslum milli Íslands og skyldfólks okkar í Vesturheimi. Þetta er saga sem flestir þekkja og má ekki gleymast.
Enginn slítur þau bönd, sem hann er bundinn heimahögum sínum. Móðir þín fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í heiminn, en þorpið fer með þér alla leið.
(Jón úr Vör, 1946)