Skortur á eggjum
Tilfinnanlegur skortur er á eggjum í Bandaríkjunum. Ástæðuna má einkum rekja til fuglaflensu sem herjað hefur á alifuglabú.
Fuglaflensa hefur valdið uppnámi í bandarískri eggjaframleiðslu. Yfir 20 milljónir varphæna hafa drepist í Bandaríkjunum (BNA) frá síðasta hausti. Í mörgum tilfellum hefur þurft að aflífa allar varphænur eggjabúa til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar.
Heildsöluverð eggja náði, skv. Bloomberg, fyrir skemmstu sögulegu hámarki í BNA, 8,41 dollar á 10 egg, sem er rúmlega 200% hækkun frá fyrra ári. Bandaríska viðskiptatímaritið Fortune segir Bandaríkjastjórn hafa beðið Evrópulöndin, þar með talið Danmörku, um að auka við eggjasölu til BNA. Það geti orkað tvímælis um leið og Trumpstjórnin setji innflutningstolla á vörur frá Evrópuríkjunum, hóti viðskiptaþvingunum og ásælist þar að auki Grænland.
Þannig var fulltrúi bandaríska landbúnaðarráðuneytisins sendur út af örkinni í febrúar til að ræða við Samband danskra eggjaframleiðenda og liðka fyrir mjög auknum útflutningi eggja til Bandaríkjanna. Skv. Fortune tók sambandið vel í að auka við eggjaútflutning næsta hálfa árið til BNA en þó væri staðan sú að hvorki Danir, né Evrópa almennt, væru aflögufær með egg þar sem aukning væri í neyslu innan álfunnar og fuglaflensan víða komið hart niður.
Þá hefur einnig verið leitað til Tyrkja um eggjasölu.
Bandarískir eggjaframleiðendur óttast að ódýrari egg frá Evrópu verði til þess að innlendir framleiðendur þurfi að taka á sig mismuninn og lækka verð til neytenda.
Stjórnvöld BNA hafa ákveðið að fjárfesta um einum milljarði dala í að takast á við afleiðingar fuglaflensunnar og eggjaskortinn innanlands. Þá greindi Bloomberg frá að bandaríska dómsmálaráðuneytið væri að rannsaka hugsanlegt samráð þarlendra birgja um að takmarka framboð og ýta verði þannig upp