Vorskráningar í Fjárvís
Frá því að undirrituð hóf störf hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins á haustdögum 2024 hef ég komið að vinnu við þróun á skýrsluhaldsforritinu Fjárvís.is.

Að færa sig úr því að vera starfandi bóndi yfir í skrifstofuvinnu hefur verið áhugavert og skemmtilegt, en það er töluvert öðruvísi að vera komin hérna megin við borðið. Það að horfa á skýrsluhaldskerfi og þróun þess innan frá, miðað við með gleraugum notandans, hefur komið mér skemmtilega á óvart, en það er líka mun flóknara en ég sem notandi gerði mér nokkurn tímann grein fyrir. Ég hef fengið að prufa alls konar, rekið mig á og lært helling á leiðinni. Enda frábært fólk í kringum mig í þessu verkefni, bæði starfsfólk RML sem og notendur Fjárvís, sem flestir eru bændur.
Í febrúar 2023 var könnun lögð fyrir notendur Fjárvís. Könnunin var unnin í samvinnu við fagráð í sauðfjárrækt, en tilgangurinn með henni var að fá betri yfirsýn yfir notkun bænda á forritinu og fá fram hvaða atriði bændur legðu áherslu á í áframhaldandi þróun á því. Könnunin var opin 7.–21. febrúar og fengust yfir 400 svör, sem gera um 25% af notendum Fjárvís.
Niðurstöður könnunarinnar komu líklega fáum á óvart, en mest áhersla bænda var á það að gera Fjárvís þannig út garði að þægilegt væri að vinna í forritinu í gegnum farsíma eða önnur snjalltæki. Þar á eftir var áhersla á að gera gagnaflutning úr jaðartækjum eins og örmerkjabúnaði auðveldan. Þeim sem fannst Fjárvís vera flókinn og ónotendavænn nefndu helst sem ástæðu að kerfið væri hægvirkt og þungt.
Það hefur lengi verið á stefnuskránni að taka í gegn vorskráningarnar í Fjárvís. Það hefur þó þurft að sitja á hakanum, enda allt sem viðkemur arfgerðargreiningum verið gríðarlega fyrirferðarmikið í allri vinnu við Fjárvís að undanförnu.
Skráningarformið, vorbókin á Fjárvís.is, er barn síns tíma. Vorbókin er orðin gömul og hæg og ljóst að bæði bjartsýni og mikla þolinmæði þyrfti til þess að reyna að skrá í vorbókina í snjalltæki. Nú stendur yfir vinna við að búa til nýjar skráningar á vorgögnum, en samhliða þessum skráningum verður útbúinn innlestur á csv-skrám. Farin verður sú leið að búa til tvær nýjar skráningar. Annars vegar fyrir burði og hins vegar fyrir lömb. Ástæðan fyrir því að þetta er brotið upp er sú að notendur lögðu mesta áherslu á að Fjárvís yrði skalanlegt í farsíma eða önnur snjalltæki, auk þess sem mikil áhersla var lögð á að koma upplýsingum á sem auðveldastan hátt úr jaðartækjum eins og örmerkjalesurum yfir í Fjárvís. Ef skrá ætti burð og lömb samtímis myndi það passa verr á minni skjái, auk þess sem innlesturinn yrði mun flóknari og erfiðari viðfangs. Með því að brjóta þetta upp er minna magn af upplýsingum vistað í einu, sem ætti að þýða að kerfið geti unnið hraðar. Hugsunin er líka sú að þetta nýtist bændum sem best á sauðburði þar sem hægt er að skrá burði jafnóðum og þeir eiga sér stað, og lömbin þá ýmist strax í kjölfarið, eða þegar þau eru merkt og mörkuð. Einfalt verður að fara á milli skráningarmyndanna tveggja, eftir því hvort verið er að skrá burði og lömb til skiptis eða skrá marga burði í röð.
Tvö ný yfirlit verða búin til samhliða þessum nýju skráningum, en það eru Burðaryfirlit og Lambayfirlit. Þar verður hægt að eyða út færslum, gera breytingar og lagfæringar, ef mistök eiga sér stað í skráningunni.
Þessar nýju skráningar verða betur kynntar þegar nær líður vori. M.a. á fagþingi sauðfjárræktarinnar á Húsavík. Stefnt er að því að skráningarnar verði tilbúnar fyrir sauðburð, en vorbókin fær að hanga inni enn um sinn, svona til öryggis. Stefnan er engu að síður sú að vorið 2026 verði vorbókinni kippt alfarið út og eftir standi þessar nýju skráningar til að leysa hana af hólmi. Það er von okkar að þetta einfaldi skil og skráningu vorgagna til muna, fyrir sem flesta.