Kvótinn aldrei meiri í túnfiski en enginn sótti um veiðileyfi
Bláuggatúnfiskur ratar inn í íslenska lögsögu í fæðugöngu norður á bóginn. Lengi vel var talið að hér væri aðeins um stöku flökkufiska að ræða. Í lok síðustu aldar kom í ljós að túnfiskur gengur hingað í veiðanlegu magni. Íslendingum hefur þó ekki tekist flest árin að nýta þessa auðlind svo nokkru nemi.
Fyrst er getið um túnfisk hér við land á seinni hluta 18. aldar en hann rak á Eyjafjallasandi. Eftir að botnvörpuveiðar hófust á Íslandsmiðum slæddust túnfiskar stundum í vörpuna. Einnig sáust túnfiskvöður bæði fyrir austan land og vestan á fyrri hluta 20. aldar.
Túnfiskvaðan í Ísafjarðardjúpi
Einn merkilegasti atburður af þessu tagi varð þegar túnfiskur gekk inn í Ísafjarðardjúp í ágúst 1944. Það ævintýri endaði með því að sex túnfiskar veiddust á handfæri.
Árni Friðriksson fiskifræðingur lýsir þessu atviki vel í tímaritinu Náttúrufræðingurinn. Bátar frá Ísafirði voru þá að veiða síld í reknet. Þeir urðu varir við túnfiska á sveimi kringum bátana. Fiskurinn sótti í síldina og át jafnóðum það sem losnaði úr netunum. Mikið virtist vera um túnfisk og var talið að þeir skiptu tugum eða jafnvel hundruðum.
Sjómennirnir brugðu á það ráð að reyna að veiða túnfiskinn á handfæri. Í lok ágúst náðist fyrsti fiskurinn á vélbátnum Bryndísi ÍS. Vó hann um 300 kíló. Næsta dag veiddust fjórir túnfiskar, samtals 915 kíló, á Morgunstjörnunni ÍS. Bátur úr Bolungarvík veiddi svo einn fisk. Fiskarnir veiddust á línu með stórum öngli er nefndist hneif. Beitt var með heilli síld.
„Meðan hneifin var að sökkva, beit fiskurinn á, og byrjuðu þá átökin. Veitti ýmsum betur fyrst í stað, og töpuðust fleiri fiskar, en veiddust, þótt þeir hefðu fest sig á önglinum,“ segir Árni. Fiskarnir hurfu fljótlega í september.
Þetta var í fyrsta skipti sem túnfiskur var veiddur hér við land að undanskildum þeim fiskum sem slæðst höfðu í botnvörpu.
Tilraunaveiðar Japana
Bláuggatúnfiskur er ein verðmætasta fisktegund í heimi. Þegar eftirspurn eftir túnfiski jókst seint á 20. öld fóru erlend skip, sem veiddu túnfisk í úthafinu, að elta göngur hans norður að íslensku lögsögunni.
Í framhaldi af því náðist samkomulag um að stundaðar yrðu tilraunaveiðar á túnfiski í íslenskri lögsögu í umsjón Hafrannsóknastofnunar í samvinnu við japanska útgerð. Tilraunaveiðarnar stóðu yfir að hausti til frá árinu 1996 til 2005. Þegar mest var voru fimm japönsk skip hér að veiðum. Fiskurinn var veiddur á flotlínu og aflinn frystur um borð.
Veiðin gekk vel framan af. Aflinn varð mestur 1998, eða 2.258 fiskar og samtals 244 tonn. Verulega dró úr afla um og eftir aldamótin. Svo fór að fá skip voru að veiðum árið 2005 og voru hér í stuttan tíma. Túnfiskurinn fékkst öll árin á svipuðu svæði í Suðurdjúpi, milli Reykjaneshryggjar og Færeyjahryggjar.
Túnfiskur tekinn um borð í Jóhönnu Gísladóttur GK. Mynd / Sævar Hólm
Fljótt flýgur fiskisagan
Velgengni Japana spurðist út og Íslendingar fóru að huga að túnfiskveiðum. Frumkvöðlar á því sviði voru Sveinn Rúnar Valgeirsson og Sævar Brynjólfsson sem gerðu út Byr VE. Sveinn rifjar þessa sögu upp í viðtali í jólablaði Fiskifrétta 2016.
Hann sagði að verkefni hefði vantaði fyrir Byr VE hluta úr ári og því var afráðið að láta breyta skipinu í Póllandi svo það hentaði til túnfiskveiða. Skipið var stækkað og settir í það frystiklefar sem gátu fryst túnfiskinn niður í 70 gráður. Breytingar drógust á langinn og Byr komst ekki á miðin fyrr en í nóvember 1998. Þá var brostinn á stormur og lítið varð úr veiðum. Þetta varð til þess að Byr VE leitaði á önnur á mið. Skipið var að túnfiskveiðum um tíma á Rockall-svæðinu en fór allt suður til Kanaríeyja.
Um miðjan febrúar 2000 hóf Byr veiðar í grennd við Azoreyjar og veiddi þar 14 tonn af túnfiski á fimm vikum. Samtals var túnfiskveiði Byrs þessi tvö ár um 120 tonn, að sögn Sveins Rúnars.
Annað skip frá Vestmannaeyjum, línuskipið Guðni Ólafsson VE, kom hér við sögu. Skipið kom til Eyja um miðjan febrúar árið 2002 nýsmíðað frá Kína. Það var eitt stærsta og öflugasta línuskip á Norður-Atlantshafi á þeim tíma.
Guðni Ólafsson VE var að mörgu leyti hannaður með túnfiskveiðar í huga. Skipið hélt til túnfiskveiða í íslensku lögsögunni haustið 2002 en aflinn varð ekki mikill, tæp 1,4 tonn.
Ísland fær kvóta
Stjórn á veiðum á bláuggatúnfiski í Atlantshafi heyrir undir Atlantshafstúnfiskveiðiráðið (ICCAT). Ísland gerðist aðili að ICCAT haustið 2002. Í framhaldi af því fékk Ísland kvóta í þeim bláuggatúnfiski sem heldur sig í Austur-Atlantshafi. Kvótinn árið 2003 var 30 tonn.
Þrjú skip fengu heimild til að veiða kvótann 2003 en nýttu sér ekki. Þeirra á meðal voru Byr VE og Guðni Ólafsson VE sem voru bundnir í verkefnum erlendis. Bæði þessi skip voru síðan seld til útlanda. Kvótinn brann því inni eins og raun varð mörg ár eftir það. Ýmist var það að skip sóttu ekki um veiðileyfi eða þá að skip sem höfðu leyfi fóru ekki til veiða.
Árið 2008 fékk ein íslensk útgerð heimild til að nýta kvótann í Miðjarðarhafi í samvinnu við erlenda útgerð.
Meðafli og fyrstu beinu veiðar af kvóta Íslands
Fátt segir síðan af túnfiskafla íslenskra skipa hér þar til í september 2011. Þá fékk togarinn Baldvin Njálsson GK alls 12 túnfiska í flottrollið sem meðafla við makrílveiðar. Samtals veiddust tæp 2,4 tonn sem meðafli það ár.
Fyrsta tilraunin til að veiða kvóta Íslands hér heima í beinum veiðum var gerð árið 2012 er Stafnes KE fékk leyfi til veiðanna. Skipið hafði verið leigt um sumarið fyrir tökur á myndinni „The Secret Life of Walter Mitty“ sem Ben Stiller gerði hér á landi. Tafir urðu á tökum þannig að dráttur varð á því að skipið færi af stað til veiða sem var óheppilegt.
Stafnesið náði þó að veiða 12 túnfiska, eða tæp 2,7 tonn, í tveimur veiðiferðum seint í október. Að auki veiddust um 2,4 tonn af túnfsiki sem meðafli árið 2012.
Ekkert skip stundaði túnfiskveiðar 2013 en meðaflinn var um 3,8 tonn.
Góður árangur Jóhönnu Gísladóttur GK
Til tíðinda dró árið 2014 þegar Vísir hf. í Grindavík fékk heimild til að veiða af túnfiskkvóta Íslands fyrir línuskipið Jóhönnu Gísladóttur GK. Mjög myndarlega var staðið að veiðunum og árangurinn eftir því.
Jóhanna fékk góðan afla árið 2014 eða 21,1 tonn. Árið 2015 veiddi skipið tæp 27 tonn. Bakslag varð svo árið 2016. Þá var aflinn aðeins um 3 tonn. Túnfiskurinn var unninn í Grindavík. Hann var skorinn eftir kúnstarinnar reglum og sendur ísaður í flugi á uppboðsmarkað í Japan.
Á árunum 2017 til 2020 var kvótanum úthlutað til Vísis en engar beinar veiðar urðu þá og lítill meðafli fékkst við makrílveiðar. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, að veiðarnar hefðu að mörgu leyti gengið ágætlega en gáfu ekki mikið af sér. Því hefði þeim verið hætt.
Þess má geta að Páll Jóhann Pálsson, bróðir Péturs, fór einn mánuð með Japönum á veiðar á túnfiski í íslenskri lögsögu. Hann tók upp myndband sem sýndi ítarlega veiðar og meðferð aflans og skráði niður allt sem máli skipti. Þessi vitneskja varð grunnurinn að þeirri þekkingu sem Íslendingar höfðu síðar við tilraunir sínar til túnfiskveiða.
Meðafli við makrílveiðar var töluverður árin 2014 og 2015, eða um 7,4 tonn og um 10,5 tonn. Árið 2015 var heildarveiðin um 37,4 tonn og var það í fyrsta sinn sem kvóti Íslands var fullnýttur. Heildarveiði Íslendinga á túnfiski hér á árunum 2003 til 2020 er rúm 84 tonn, þar af tæp 54 tonn í beinum veiðum.
Aldrei meiri kvóti
Túnfiskkvóti Íslands hefur aukist seinni árin. Hann var kominn í 147 tonn árið 2019 og 180 tonn árið 2020. Hlutur Íslands í veiðum á bláuggatúnfiski árið 2021 er 225 tonn. Kvóti okkar hefur því aldrei verið meiri en í ár. Áætlað var að taka frá 10 tonn vegna hugsanlegs meðafla en 215 tonnum yrði ráðstafað til tveggja skipa. Auglýst var eftir umsóknum um veiðileyfi en engin útgerð sótti um.
Þekking á veiðum, vinnslu og söluferli er til staðar en ýmislegt er okkur öndvert. Glugginn til veiðanna er þröngur, fiskurinn er ekki nógu feitur í ágúst, þegar veiðar mega hefjast, og því verðminni. Í október má búast við að veður geti hamlað veiðum. Flutningur á ferskum fiski til Japans er kostnaðarsamur og Íslendingar eiga ekki lengur sérútbúin frystiskip sem nauðsynleg eru til að vinna fiskinn um borð. Loks hefur dregið úr eftirspurn og verð lækkað vegna Covid-19 og það gerir væntanlega útslagið.