Mánaðarleg upplýsingagjöf
Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjölda sláturgripa og framleiðslumagn úr hrossaslátrun.
Verða þær upplýsingar birtar samhliða öðrum kjötframleiðsluupplýsingum sem Hagstofan hefur birt með reglubundnum hætti. Að sögn Jóns Guðmundar Guðmundssonar, sérfræðings hjá Hagstofunni, er ástæðan fyrir birtingunum sú að á næsta ári þarf að skila tölum um hrossaslátrun til alþjóðastofnana. Jón segir að fram til þessa hafi Hagstofan einungis birt tölur árlega yfir framleiðsluna. Á Mælaborði landbúnaðarins hafi hins vegar verið hægt að nálgast upplýsingar um framleiðslumagn úr hrossaslátrun.
„Nýjungin núna verður sú að tölur yfir fjölda dýra verður einnig að finna í okkar yfirliti, en ekki bara framleidd kíló,“ segir Jón. Samkvæmt upplýsingum á Mælaborði landbúnaðarins, varð 5,3 prósenta framleiðsluaukning á milli 12 rúllandi mánaða, þannig að framleiðsla síðustu 12 mánaða var rúm 961 þúsund kíló en rúm 912 þúsund kíló sé litið til þeirra 12 mánaða sem eru þar á undan.