Af virðingu við landið
Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfélagsins snúast um listina að finna jafnvægispunkta.
Jafnvægi á milli þess að brjóta land undir orkuframleiðslu eða nýta það fyrir landbúnað. Jafnvægi á milli þess að vinna auðlindir úr landinu eða að vernda náttúruna. Jafnvægi til að byggja upp samfélag án þess að ganga of nærri vistkerfum Jarðar.
Undanfarin misseri hefur jafnvægið aftur á móti verið skekkt og loftslagsmál notuð sem trompspil til að ýta á ýmiss konar nýtingarsjónarmið. Engum dylst að baráttan við loftslagsvána er eitt mikilvægasta verkefni samtímans. En þar þarf líka að gæta jafnvægis svo lausn á loftslagsvandanum valdi ekki nýjum og óafturkræfum vanda. Ef okkur tekst vel upp, þá hefur Ísland allt að bera til að vera til fyrirmyndar sem grænt, sjálfbært samfélag.
Mikil ásókn í landsvæði
Hefðbundinn landbúnaður hefur lengi átt í vök að verjast, en undanfarið höfum við orðið vör við miklu meiri ásókn í landsvæði víðs vegar um landið fyrir óhefðbundin not. Oft eru þar sterk fjármálaöfl að baki, hvort sem það snýst um að mylja niður heilu fjöllin eða grafa upp sand til útflutnings, dæla upp ógrynni grunnvatns, plægja upp mólendi til að planta skógi á iðnaðarskala eða raða vindorkuverum á heiðar og hálsa.
Upplýsingar um ýmsar auðlindir Íslands eru jafnframt af allt of skornum skammti. Hvort sem um ræðir stöðu grunnvatns í hverju héraði til að tryggja að vatnstaka rýri ekki gæði auðlindarinnar eða farleiðir fugla svo heilu stofnunum sé ekki stefnt í voða með vindorkuverum, þá hefur ekki verið hlúð nóg að grunnrannsóknum. Það sem við vitum, vitum við oft vegna þess að framkvæmdaaðili hefur fjármagnað rannsóknir í aðdraganda framkvæmda.
Enn vantar reglur um vindorku
Um land allt hafa sprottið upp hugmyndir að vindorkuverum, án þess að ríkisvaldið hafi lokið því sem ætti að vera fyrsta verkefni: Setja skýran lagaramma þar sem saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Við Píratar höfum talað fyrir varfærnum skrefum þegar nýir orkukostir eru þróaðir, skýru regluverki og að staðið sé með samfélögum í að vinna úr álitaefnum. Þau vindorkufrumvörp sem fráfarandi ríkisstjórn lagði fram náðu ekki því jafnvægi. Þvert á móti, þá lagði síðasta útfærsla af vindorkufrumvarpinu til hjáleið sem í orði kveðnu átti að einfalda leyfisveitingaferli en hefði sennilega bæði gert það flóknara og látið það leggjast af fullum þunga á sveitarfélög sem oft eiga fullt í fangi með flókin og umfangsmikil skipulagsmál.
Píratar svara ákalli um langtímahugsun
Ísland þarf að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum og það getum við svo sannarlega. Lítið land með gnótt endurnýjanlegrar orku á að geta stokkið hratt í átt að fullum orkuskiptum. Undanfarin ár hefur hins vegar lítil áhersla verið lögð á slíkar aðgerðir en fráfarandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt meiri áherslu á að stökkva á vagninn með fjármagnsöflum sem nota loftslagsvána sem réttlætingu fyrir hefðbundnum áróðri fyrir virkjunum, námagreftri og hvers kyns ágengri umgengni við auðlindir landsins okkar. Á sama tíma beitir ráðherrann sér fyrir undanþágum frá evrópskum reglum um orkunýtni, sem er bara eitt lítið dæmi um þann skort á heildarhugsun sem hefur ríkt í stjórnarráðinu undanfarin ár.
Píratar hafa lengi talað fyrir skýrum leikreglum þegar kemur að auðlindanýtingu og mikilvægi þess að standa með almenningi og náttúru Íslands. Atkvæði greitt Pírötum er stuðningur við langtímahugsun í umhverfis- og loftslagsmálum svo Ísland geti verið þetta leiðandi afl – grænt samfélag sem tekur mið af hagsmunum okkar allra, komandi kynslóða og umhverfis.