Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður milli Byggðastofnunar, Reykhólahrepps og Vestfjarðastofu.
Áætlað er að íbúaþing verði haldið fljótlega á nýju ári þar sem viðstöddum gefst tækifæri á að móta áherslur í verkefninu með hagsmunamál Reykhólahrepps í huga. Sú nýbreytni er að samningur um verkefnið verður til fimm ára, til loka árs 2029, en áður var grunnsamningur til fjögurra ára.
Í Reykhólahreppi eru um 240 íbúar, þar af býr helmingur íbúanna á Reykhólum, en mikið er lagt upp úr tómstunda- og félagsstarfi í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Þróunarverkefnið Brothættar byggðir hefur hlotið víðtæka sátt á landsvísu samkvæmt könnun sem gerð var meðal styrkhafa fyrir um ári síðan og birtist á vef Byggðastofnunar.
Kristján Þ. Kristjánsson og Helga Harðardóttir, fulltrúar Byggðastofnunar, segja tilhlökkunarefni að hefja verkefnið, nú hið fimmtánda í röðinni – og standi vonir til þess að íbúar hreppsins taki þátt af fullum krafti. Mikill samhljómur hafi verið hjá styrkhöfum um mikilvægi samráðs við íbúa og að unnið sé út frá verkefnisáætlun í hverju byggðarlagi. Nú sé óskað eftir verkefnastjóra sem mun hafa aðstöðu í sveitarfélaginu.