Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Höfundur: Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi, alþingismaður og skipar annað sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu og samfélag. Íslendingar hafa síðustu aldirnar þróað búskaparhætti sína til að aðlagast krefjandi náttúrulegum aðstæðum landsins.

Þórarinn Ingi Pétursson

Úr þessu hefur skapast djúp tenging milli náttúrunnar og þjóðarinnar – tenging sem er rótgróin í sjálfsmynd okkar.

Íslenskur landbúnaður hefur síðustu misseri staðið frammi fyrir áskorunum sem krefjast skýrra lausna. Til þess að tryggja að íslenskur landbúnaður haldi velli og þróist áfram þarf að hugsa í lausnum og varast gylliboð.

Betri lán í gegnum Byggðastofnun

Landbúnaður í dag krefst gríðarlegra fjárfestinga sem eru oft úr takti við efnahagslega getu bændanna. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag, þar sem bændur þurfa að greiða niður miklar fjárfestingar á aðeins 20 árum, er ósjálfbært. Lausnin gæti falist í því að bjóða bændum langtímalán á lágum vöxtum í gegnum Byggðastofnun, líkt og gert var með gömlu stofnlánadeildinni. Þetta myndi tryggja efnahagslegan stöðugleika og stuðla að fæðuöryggi landsins.

Svo það sé mögulegt þarf að stórauka fjármagn til Byggðastofnunar. Það er aðgerð sem myndi skila sér aftur til þjóðarinnar, ekki bara fyrir bændur heldur einnig sem liður í fæðuöryggi þjóðar. Markmiðið með þessum aðgerðum væri ekki að hækka vöruverð til neytenda heldur að tryggja að hér verði öflug matvælaframleiðsla í framtíðinni.

Hlutdeildarlán fyrir nýliðun

Þá er nýliðun í bændastéttinni nauðsynleg til að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar en það verkefni er oft óyfirstíganlegt fyrir ungt fólk vegna mikils kostnaðar við jarðarkaup og fjárfestingar. Hlutdeildarlán gætu verið lykillinn að þessu verkefni. Með því að stjórnvöld leggi fram 25–30% af kaupverði jarða, sem endurgreiðist við sölu eða lánstíma loknum, væri ungu fólki gert kleift að hasla sér völl í landbúnaði án þess að taka á sig óraunhæfar fjárhagslegar byrðar.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru hlutdeildarlán úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga og er ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Í þeim tilvikum veitir HMS kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs. Að mínu mati mætti útfæra lán til bænda með þeim hætti að stjórnvöld legðu til 25–30% af kaupverði jarða líkt og er með hlutdeildarlán til fasteignakaupa endurgreiði stjórnvöld sinn hlut að lánstíma loknum eða ef kæmi til sölu. Í rauninni er þetta eina leiðin sem er fær ef við viljum í alvöru tryggja nýliðun innan bændastéttarinnar.

Evrópusambandsdraugurinn

Í aðdraganda kosninga birtast oft margs konar ályktanir og hugmyndir, sumar íklæddar skrúðmælgi til að auka áhrifamátt sinn. Meðal þeirra eru skilaboð sem fela í sér þá hugmynd að Evrópusambandsaðild geti verið töfralausn á öllum áskorunum landsins, flokkarnir virðast þó vera í felulitum með þetta þessa dagana. Það er ljóst að meirihluti þjóðarinnar virðist ekki hlynntur þeirri vegferð, sérstaklega ef hún er talin ógna íslenskum landbúnaði, lífsviðurværi bænda og hagsmunum landsbyggðarinnar. Margir telja slíka nálgun einkum þjóna þröngum viðskiptahagsmunum, fremur en breiðari hagsmunum þjóðarinnar. Við í Framsókn erum skýr, aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá á okkar vakt.

Tölum um tolla

Umræða um tolla á matvæli og tolla almennt skýtur reglulega upp kollinum í umræðunni hér á landi. Lítið hefur þó farið fyrir umræðunni í aðdraganda þessara kosninga þótt áhugavert hafi verið að nokkrir flokkar hafi tekið afdregna afstöðu gegn því að fella niður tolla á innflutning á matvælum. Staðreyndin er sú að tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki. Tollar á vörum þekkjast út um allan heim. Þjóðir setja á tolla til að vernda framleiðslu sína, þjóðartekjur og jafna þannig aðstöðumuninn sem snertir framleiðslu. Það væri glapræði fyrir íslenska matvælaframleiðslu ef tollar yrðu felldir niður.

Við viljum hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum hafa hana til þess að við getum keypt hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður og skapa á sama tíma vinnu fyrir fólkið í landinu. Í umræðunni gleymist oft að það eru þúsundir sem vinna við matvælaframleiðslu hér á landi. Þetta fólk borgar hér skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda sína framleiðslu. Það gera verkamennirnir sem vinna á svínabúunum á Spáni ekki. Erlend fyrirtæki borga ekki skatta og skyldur hér á landi og þau skapa ekki störf fyrir fólkið á landsbyggðinni.

Stöndum vörð

Við þurfum að ræða um framtíð íslensks landbúnaðar í þessum kosningum. Sem þingmaður hef ég talað fyrir að efla stuðning við íslenska bændur með skynsamlegum aðgerðum sem stuðla bæði að hagkvæmni og sjálfbærni, ég hef trú á því verkefni.

Með því að byggja upp og styrkja íslenskan landbúnað höfum við tækifæri til að auka verðmætasköpun, efla menningarlega sérstöðu okkar og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Við megum ekki láta það sem hefur verið byggt upp frá landnámi glatast. Við þurfum að standa vörð um innlenda framleiðslu og tryggja að íslenskur landbúnaður haldi áfram að vera burðarás í menningu, samfélagi og efnahagslífi þjóðarinnar.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...