Ólst upp í skógi
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir er nýr bæjarstjóri á Ísafirði en hún tekur við starfinu af Örnu Láru Jónsdóttur, sem er að setjast á Alþingi Íslendinga.
Sigríður er fædd á Akureyri 18. febrúar 1974 og er dóttir hjónanna Önnu Árnínu Stefánsdóttur leikskólakennara og Brynleifs Gísla Siglaugssonar ketil- og plötusmiðs. Hún er elst í fjögurra systkina hópi en systkini hennar eru Sigurlaug Rún, Guðrún Ólafía og Árni Gísli.
Fyrstu ár Sigríðar bjó fjölskyldan á Akureyri, síðar í Fnjóskadal en þegar Sigríður var 14 ára fluttu þau í Skagafjörð. Grunnskólaganga nýja bæjarstjórans var í Stórutjarnaskóla og Varmahlíðarskóla.
„Ég byrjaði á heimavist þegar ég var 10 ára. Framhaldsskólaárin voru leiðinlegur tími að mínu mati og fann ég mig ekki í því umhverfi. Þannig að ég er ekki ein af þeim sem sé það tímabil ævinnar í rósrauðum bjarma,“ segir Sigríður og hlær.
Hún er búfræðingur frá Hvanneyri og fór einnig í háskólanám þar þegar hún kláraði Bs-gráðu í landnýtingu. „Ég fór síðan í skógfræðinám til Noregs. Eftir það starfaði ég í landgræðslu- og skógræktarbransanum, lengst af með skrifstofu á Hvanneyri, síðan Ísafirði, þar til fyrir tveimur árum að ég fór að vinna í Lýðskólanum á Flateyri,“ segir Sigríður.
Ólst upp í skógi
Sigríður hefur alltaf haft mikið dálæti á skógrækt en skýringin á því er augljós. „Ég naut þeirra forréttinda að fá að alast upp í Vaglaskógi. Skógurinn er stór hluti af mér og ég held að það hafi mótað mig mikið. Ég fór fyrst að vinna hjá Skógrækt ríkisins þegar ég var fjórtán ára og þar með var teningunum kastað. Ræktun ýmiss konar heillar mig og ég fæ heilmikið út úr því að garfa í gróðri.
Ég get svo sem ekkert útskýrt það betur. Þegar ég var í háskólanámi fór ég að vinna við skógræktarráðgjöf, það fannst mér skemmtilegt og svo leiddi eitt af öðru og ég varð stjórnandi. Að vera stjórnandi í meðalstórri, dreifðri stofnun var mjög lærdómsríkt og ég tek með mér dýrmæta reynslu þaðan.
Skógrækt er ekki bara að rækta og höggva tré, skógfræði er margþætt og það sem ég lærði í Noregi er meira tengt hagfræði, auðlindanýtingu og sjálfbærni. Ég brenn fyrir því,“ segir Sigríður.
Ræktaði fólk í stað skóga
Eftir um tuttugu ára starf í skógræktargeiranum ákvað Sigríður að prófa eitthvað nýtt og réði sig til Lýðskólans á Flateyri en þar hóf hún störf í desember 2022.
„Það var stór ákvörðun að taka að skipta algjörlega um gír, og rækta fólk í stað skóga. Fyrst sinnti ég starfi kennslustjóra og síðar skólastjóra. Í litlum skóla virka hlutirnir þannig að þú þarft að grípa þá bolta sem eru á lofti, vera fljót að hugsa, redda málum ef eitthvað er, vera lausnamiðuð. Að vinna að nýjum hugmyndum, þróa verkefni, vinna með samfélaginu. Í svona aðstæðum þrífst ég vel.“
Tekur við 7. janúar
Sigríður Júlía tekur við bæjarstjórastarfinu strax á nýju ári. „Ég mun taka við starfinu þann 7. janúar og tilfinningin er góð. Þetta er ekki þannig starf að maður stökkvi fullmótaður inn í það en ég hef það með mér að hafa setið í bæjarstjórn og verið forseti bæjarstjórnar þetta kjörtímabil og er inni í flestum málum sem snúa að pólitíkinni. Einnig var ég í sveitarstjórn Borgarbyggðar áður en ég flutti vestur og öðlaðist þannig reynslu sem hefur reynst mér vel í störfum mínum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Ég held að hver og einn bæjarstjóri marki sér sitt sérsvið, engir tveir eru eins, bæði hvað varðar sýn á hluti og stjórnunarstíl.
Mér finnst gaman að stjórna og ég held ég sé alveg ágæt í því. Það verður eflaust sjaldnast þannig að „venjulegur“ dagur fari eins og ég hef gert áætlanir um. Það er nefnilega þetta mannlega í starfinu sem verður til þess að maður verður að vera sveigjanlegur en samt halda sig innan ramma. Það er mikilvægt að stjórnendur séu til staðar, vera tilbúinn til að hlusta, eiga samtal,“ segir Sigríður.
Mikil uppbygging fram undan
Sigríðar bíður fjöldi spennandi verkefna sem endurspeglast í nýsamþykktri fjárhags- og framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar. Hún segir umhverfismál fyrirferðarmikil og vinna við stórt Evrópuverkefni á sviði fráveitumála er fyrirhuguð í Skutulsfirði. Þá er unnið að hreinsistöðvarverkefnum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri og er vonast til að hreinsistöðvarnar verði komnar í fulla virkni næsta sumar. „Svo höldum við áfram með vinnu við ofanflóðavarnir á Flateyri, grunnur lagður að byggingu nýrrar slökkvistöðvar á Ísafirði, endurbætur og viðhald skólahúsnæðis. Þá verður unnið að úrbótum á leikskólalóð, fjárfest verður í leiktækjum og unnið að úrbótum á leikvöllum. Einnig verða stór verkefni á höfninni á Ísafirði en þar ber hæst hönnun og undirbúningur vegna byggingar móttökuhúss fyrir farþega skemmtiferðaskipa, nýtt gámaplan, göngustígar, stækkun skútubryggju, endurbygging innri hafnargarðs á Þingeyri, ný flotbryggja á Suðureyri svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Sigríður.
Grænbaunasúpa með harðsoðnum eggjum
Sigríður er að lokum spurð út í jólin og jólahaldið á hennar heimili. „Aðalhefðin mín á aðfangadag er að í forrétt er ég með grænbaunasúpu með harðsoðnum eggjum. Þetta er hefð sem ég ólst upp við en upphaflega kemur þetta frá föðurömmu minni. Sonum mínum finnst jólin ekki koma nema þessi súpa sé og nú er sá eldri farinn að halda sín jól og þá er þessi súpa alltaf í forrétt. Síðustu ár höfum við dundað okkur við að salta svínslæri á sænska vísu og haft í aðalrétt, alls konar meðlæti og svo dásamlega sósu, þar sem meginuppistaða eru sveppir, brúnostur, rjómi og rósmarín.
Jólin í ár verða reyndar frábrugðin því við verðum á Spáni og ætli við eldum ekki einhverja skinku. Það er ekkert planað svo sem nema við förum örugglega á ströndina eins og Spánverjar gera gjarnan á aðfangadag og svo stefnum við á að fara í miðnæturmessu.“