Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Stórsveit FHUE á vortónleikum 2019 í Brekkuskóla á Akureyri.
Stórsveit FHUE á vortónleikum 2019 í Brekkuskóla á Akureyri.
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Höfundur: MHH

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem komu til að vinna við hvalstöðvar víða um land um miðja 19. öld. Harmonikkan er skemmtilegt hljóðfæri, sem margir hafa gaman af, ekki síst eldri kynslóðin.


Enn eru haldin harmonikkuböll hér og þar og það færist í vöxt að börn og unglingar læri á harmonikku í tónlistarskólum. Þá eru fjölmörg harmonikkufélög starfandi víðs vegar um landið. Agnes Harpa Jósavinsdóttir á Akureyri hefur brennandi áhuga á harmonikku og harmonikkutónlist og hefur vakið athygli fyrir skemmtilega spilamennsku.

Það skemmtilegasta, sem Agnes Harpa gerir er að spila á harmonikuna sína enda er hún að standa sig frábærlega á þeim vettvangi eins og í öðrum verkefnum, sem hún tekur að sér.
Caption

Hún var meira en til í að svara nokkrum spurningum blaðsins um sjálfa sig, harmonikkutónlistina, sögu harmonikkunnar og fleira. En byrjum á byrjuninni, hver er Agnes Harpa?

Vinnur hjá bókhalds- og endurskoðunarskrifstofu

„Ég fæddist á Akureyri og ólst upp í sveitinni þar rétt hjá, foreldrar mínir búa í Arnarnesi, sem er í Hörgársveit í Eyjafirði. Lengst af voru þau kúabændur en í dag reka þau ferðaþjónustu á staðnum. Ég flutti síðan til Akureyrar þegar ég kynntist manninum mínum tvítug að aldri og hef búið með honum þar síðan. Ég er gift Sigvalda Má Guðmundssyni, húsasmíðameistara og iðnfræðingi, og eigum við saman tvo drengi, Guðmund Jóvin og Jóakim Elvin, sem verða tólf og níu ára á árinu.


Hörður Smári, sonur mannsins míns, býr einnig hjá okkur ásamt eiginkonu sinni, Aimee McDermott. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri yfir bókhaldssviði Enor, sem er bókhalds- og endurskoðunarskrifstofa hér á Akureyri, norðlenskt fyrirtæki í húð og hár sem telur 26 frábæra starfsmenn á þremur stöðum á landinu, Akureyri, Húsavík og Reykjavík. Þar áður var ég í ellefu ár skrifstofustjóri hjá Lostæti, sem er veislu- og veitingaþjónusta. Þegar mest var var það fyrirtæki starfandi bæði á Akureyri og á Reyðarfirði með nærri 80 starfsmenn. Ég hef alltaf verið virk í hinum ýmsu félagasamtökum tengdum tónlist en ég hef verið meðlimur í Félagi harmonikkuunnenda við Eyjafjörð, FHUE, síðan 2014 og hef verið formaður félagsins síðan haustið 2018.


Hlustaði á Gretti og Örvar

— Hvenær fórst þú að fá áhuga á harmonikkutónlist og hvað kom til?


„Í bæði móður- og föðurfjölskyldunni minni er mikið um tónlist og var oft sungið og spilað saman þegar fjölskyldurnar hittust. Foreldrar mínir hlusta líka mikið á tónlist, þau áttu ágætt plötusafn með alls kyns tónlist, allt frá klassík yfir í nýjustu íslensku popptónlistina. Ég hlustaði á þetta allt saman og þar á meðal voru plötur með Gretti Björnssyni og Örvari Kristjánssyni og ég hafði mjög gaman af þeim, sérstaklega lögunum hans Örvars á plötunni Heyr mitt ljúfasta lag. Hún var í uppáhaldi þegar ég var krakki og strax þá fannst mér hljómurinn frá harmonikkunni heillandi.“


Hljómurinn heillar

— Hvað er það við harmonikkuna sem er svona heillandi í þínum augum og er erfitt að spila á harmonikku eða er það auðvelt?


„Það er eitthvað við hljóminn, sem ég upplifi sem svo hlýlegt, kannski af því að góðar æskuminningar tengjast henni. En harmonikkan er margslungið hljóðfæri og býður upp á svo marga skemmtilega möguleika, þar af leiðir að þetta getur verið krefjandi hljóðfæri og tæknilega ögrar það manni í hvert sinn sem spilað er á það.
Það er hægt að spila allar tegundir tónlistar á hana, það er hægt að velja um margar mismunandi stillingar á tóni og það þarf að huga að því hvernig belgurinn er dreginn en fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig. Það getur verið bæði auðvelt og erfitt að spila á harmonikku. Hefðbundinn bassi er snilldarlega úthugsaður í fimmundum og því er fljótt hægt að ná lagi á nikkuna fyrir óvanan spilara svo frambærilegt sé og að því leytinu auðvelt að spila á en um leið er tæknin lúmsk og endalaust hægt að bæta sig á því sviðinu sem gerir hana erfiða á köflum, en alltaf skemmtilega.“

Þjóðdansafélagið Vefarinn á Akureyri

— Þú spilar mikið sjálf, ertu búin að læra lengi á harmonikku og spilar þú eftir nótum eða eyranu?


„Sem krakki og unglingur lærði ég á píanó, svo ég er vel læs á nótur en gerði lítið af því að spila eftir eyranu, ég hef gert meira af því síðustu ár á harmonikkuna. Þegar ég var 24 ára gömul voru foreldrar mínir meðlimir í dansfélaginu Vefaranum, sem er þjóðdansafélag á Akureyri. Það vantaði harmonikkuleikara til að spila undir hjá þeim á sýningum svo pabbi mætti heim einn daginn með harmonikku, kenndi mér undirstöðuatriðin í bassanum þar sem hann hafði sjálfur spilað eitthvað
á harmonikku þegar hann var ungur, áður en ég kom til, og þar með voru fyrstu skrefin tekin á harmonikkuna.“

Spilar með stórsveit harmonikkuleikara

— Þú gerir töluvert af því að spila opinberlega, bæði ein og í hópi. Er það ekki rétt og hvað getur þú sagt mér um það?


Ég kom fram víða með þjóðdansafélaginu en haustið 2013 rakst ég á gamlan píanókennara, Roar Kvam, á förnum vegi og bað hann mig að koma inn í Stórsveit harmonikkuleikara FHUE. Þar vantaði fleiri harmonikkuleikara þar sem félagið stóð fyrir landsmóti harmonikkufélaga á Laugum sumarið 2014. Fram að því hafði ég verið að mestu ein að spila. Ég hef spilað með stórsveitinni síðan haustið 2013 undir stjórn Roars Kvam og erum við tíu harmonikkuleikarar og helmingurinn konur.


Svo kynntist ég Elsu Auði Sigfús­dóttur, garðyrkjufræðingi og harmonikkuleikara, en hún hafði svipaðan bakgrunn og ég, hafði lært sem krakki og unglingur á píanó og harmonikku, en hafði verið í pásu frá spilamennsku þegar ég fékk hana til að ganga til liðs við FHUE. Við vorum búnar að spila saman í hálfan vetur í kvintett á vegum FHUE þegar við ákváðum að fara saman í nám hjá Roari Kvam í Tónskóla Roars á Akureyri. Þetta voru áramótin 2016-2017, við ætluðum að vera hálfan vetur og læra betri tækni á bassanum, en heilluðumst alveg af náminu og erum enn að læra. Við Elsa höfum síðan verið að koma meira fram saman, á uppákomum og dansleikjum á vegum FHUE, í einkasamkvæmum, á jólaböllum og fleira. Maria Slavkova er síðan þriðja konan sem ég fékk til að ganga til liðs við FHUE eftir að ég komst að því að hún hafði spilað á harmonikku í heimalandi sínu, Búlgaríu. Til að byrja með lánaði ég henni gamla nikku sem ég átti en í dag er hún með sitt eigið hljóðfæri og er í Tónskóla Roars og höfum við þrjár myndað tríó sem spilar kammertónlist undir handleiðslu Roars.“

Handsmíðaðar nikkur frá Ítalíu

— Hvað finnst þér skemmtilegast að spila á nikkuna?


„Mér finnst engin ein tegund tónlistar skemmtilegust, mér finnst alltaf skemmtilegast það sem ég er að spila hverju sinni, ég hef spilað fyrir dansi, spilað klassíska tónlist, kammertónlist, þjóðlagatónlist og dægurtónlist. Ég hef jafnvel spilað lög úr tölvuleikjum og teiknimyndum til að skemmta sonum mínum og vinum þeirra. Ég hef gaman af því öllu. Ég og Elsa fengum okkur Fisitalia harmonikkur haustið 2018 í gegnum Einar Guðmundsson hjá EG tónum, þær eru handsmíðaðar á Ítalíu og eru með tvöföldu bassakerfi, þessum hefðbundna sem flestir þekkja og svo tónbassa, sem gerir okkur kleift að spila laglínu með vinstri hendi til jafns á við þá hægri. Þegar við fengum þær nikkur, þá opnaðist nýr og heillandi heimur fyrir okkur og möguleikarnir margfölduðust á hvað er hægt að spila á hljóðfærið.“

Fyrsta harmonikkan smíðuð 1822

— Þú hefur kynnt þér sögu harmo­nikk­unnar og átt ýmsa fróðlega punkta um þetta magnaða hljóðfæri. Hver er saga þess án þess að þurfa að fara með mjög langt mál?


„Harmonikkan á sér forföður í Kína 2-3000 árum fyrir Krist, Sheng, sem innihélt tónfjaðrir sem eru svipaðar þeim sem mynda hljóminn í harmonikkunni. Seinnipart 18. aldar fóru Evrópubúar að nýta tónfjaðrirnar í önnur hljóðfæri eins og orgel og prófa sig áfram með möguleika þeirra. Portative var annar forfaðir en það var lítið ferðaorgel þar sem hljóðfæraleikarinn lék á hljómborð með annarri hendinni en stýrði belg með þeirri vinstri. Þjóðverjinn Christian Friedrich Buschmann var síðan frumkvöðullinn sem smíðaði fyrstu harmonikkuna árið 1822 og kallaði hana Handaoline, hafði engan bassa en hafði belg og hnappa fyrir hægri hönd. Í framhaldinu útfærði Austurríkismaður að nafni Cyrillus Damian Handaoline hljóðfærið og bætti við bassa fyrir vinstri hendi og kallaði þetta hljóðfæri sitt Accordion.


Í kringum 1850 kom fyrsta krómatíska harmonikkan fram á sjónar­sviðið í Vín, 48 hnappa með 8 nótur í grunnbassa og tveimur hljómum. Um svipað leyti kemur fyrsta píanóharmonikkan fram í París. Fyrir aldamótin 1900 kom síðan tónbassi til sögunnar. Með tíð og tíma varð smíði harmonikkunnar nákvæmari, tæknilegri og flóknari að gerð um leið og tónsviðið jókst. Við það jókst hróður harmonikkunnar og varð hljóðfærið fljótt útbreitt og vinsælt á meðal almennings. Þegar farið var að fjöldaframleiða hljóðfærið í verksmiðjum varð það ódýrara og aðgengilegra fyrir almenning sem loks hafði tök á að eignast hljóðfæri sem, ólíkt mörgum öðrum, var tiltölulega auðvelt að finna út hvernig virkaði, þurfti ekki að stilla og var alltaf reiðubúið til notkunar.“

Franskir sjómenn

— Hvenær kom harmonikkan til Íslands og hvernig hefur þróun hljóðfærisins verið hér á landi?


„Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem komu til að vinna við hvalstöðvar víða um land um miðja 19. öld. Þetta voru í fyrstu einfaldar og tvöfaldar harmonikkur, en fljótlega upp úr aldamótum fara krómatískar harmonikkur að bætast í hópinn. Íslendingar voru lítið farnir að semja eigin dægurlög á þessum tíma og voru því flest lögin komin frá farandverkamönnum sem komu hingað til lands að vinna við hval- eða síldveiðar. Á þessum árum festist það viðhorf í sessi að harmonikkan væri fyrst og fremst danshljóðfæri. Þeir sem spiluðu á harmonikkur voru í fyrstu sjálfmenntaðir og er Bragi Hlíðberg fyrstur Íslendinga til að nema harmonikkuleik erlendis en hann hélt til Bandaríkjanna á fimmta áratug síðustu aldar til náms og fylgdu fleiri í kjölfarið.“

Fjölhæfni hljóðfærisins

— Vinsældir harmonikkunnar virðast alltaf vera að aukast og aukast, er það ekki rétt og áttu einhverja skýringu á því?


„Já, ég hugsa að það sé vegna þess að fleiri og fleiri tónlistarmenn í ólíkum geirum eru farnir að nota harmonikkuna í sinni tónlistarsköpun. Eins hafa mjög góðir, ungir harmonikkuleikarar af báðum kynjum verið að snúa heim úr framhaldsnámi undanfarin ár og bera með sér ferskan andblæ inn í tónlistarheiminn. Þau hafa verið dugleg að kynna harmonikkuna og með sinni frábæru spilamennsku sýnt fram á fjölhæfni hljóðfærisins sem hafði lengi vel verið tengt við gömlu dansana og fátt annað.“

Jón Þorsteinn búsettur á Akureyri

— Er mikil harmonikkumenning á Akureyri og næsta nágrenni og hvernig fer sú starfsemi aðallega fram?


„Já, við hjá FHUE stöndum fyrir viðburðum sem eru opnir öllum og ekki bara félagsmönnum, en lítið hefur farið fyrir harmonikkumenningu á Akureyri þess utan, hún hefur legið meira hjá áhugafólki sem spilar á hljóðfærið. Við erum hins vegar svo heppin að harmonikkuleikarinn Jón Þorsteinn Reynisson sneri heim úr framhaldsnámi erlendis frá fyrir nokkrum árum og er núna búsettur á Akureyri. Hann hefur verið duglegur að koma fram og standa fyrir viðburðum þar sem harmonikkan er í öndvegi svo hann er að koma ferskur inn í atvinnutónlistina hér á svæðinu.“

Hátíð í Ýdölum í sumar

— Hvað með sumarið, hvernig verður það hjá þér þegar nikkan er annars vegar?


„Það átti að vera landsmót harmonikkufélaga í Stykkishólmi fyrstu helgina í júlí en því var frestað til næsta árs. Við í FHUE höldum árlega fyrir hátíð sem er öllum opin að Ýdölum í Aðaldal ásamt Harmonikkufélagi Þingeyinga. Þar komum við saman síðustu helgina í júlí til að spila saman og höldum tónleika og dansleiki. Við náðum því ekki síðasta sumar, en náum vonandi að halda hátíðina okkar núna í ár. Það er það helsta í sumar fyrir utan ýmsa einkaviðburði, sem við Elsa verðum að spila á.“

Bestu stundirnar með fjölskyldunni

— En að öðru, áhugamál þín, hver eru þau aðallega og hvað gerir þú þegar þú ert ekki að spila á harmonikkuna eða hlusta á harmonikkutónlist?


„Við erum svo heppin að menningar­líf hér á Akureyri er í miklum blóma, svo ég hef mjög gaman af að sækja hina ýmsu tónlistarviðburði, hvort sem það eru atvinnutónlistarmenn eða áhugafólk eins og ég sjálf, breiddin og gróskan er mikil. En allra bestu stundirnar eru alltaf þær sem gefast með fjölskyldunni. Við ferðumst mikið saman, bæði innanlands og utan og stundum útivist, hjólreiðar og göngur á sumrin og skíði og skauta á veturna með einstaka golftímum inn á milli.“

Gefandi að spila

Þegar Agnes Harpa var spurð hvort hún hefði eitthvað að segja svona í lokin þá stóð ekki á svarinu.


„Já, ég hvet alla sem áhugasamir eru, að kynna sér störf áhugamannafélaga í tónlist. Það er svo gefandi að spila á hljóðfæri, ekki bara harmonikku og hafi spilamennskan legið í dvala í einhvern tíma, þá er ótrúlega fljótt sem kunnáttan rifjast upp. Störf mín með FHUE hafa kynnt mig fyrir svo ótrúlega mörgu skemmtilegu fólki víða um land og það er alltaf gaman að vera á meðal jafningja með sama áhugamál, sama á hvaða aldri þeir eru.“

Harmonikkuvinkonurnar, frá vinstri, Elsa Auður, María og Agnes Harpa eftir tónleika annan í hvítasunnu 2021 í Lóni á Akureyri.
Caption

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt