Ræktað kjöt í hundamat
Gæludýraverslun í Bretlandi hefur sett á markað hundanammi með kjúklingakjöti sem er ræktað upp frá frumum úr einu eggi.
Verslunarkeðjan Pets at Home heldur því fram að þetta sé í fyrsta skipti á heimsvísu sem afurðir úr vistkjöti (e. cultivated meat), sem er ræktað upp frá stofnfrumum dýra, eru settar á markað. Takmarkað magn hefur verið sett í eina verslun fyrirtækisins í vesturhluta Lundúna. Frá þessu greinir Guardian.
Hundamaturinn, sem nefnist Chick Bites, er að mestu úr jurtaafurðum sem er blandað við vistkjötið. Samkvæmt framleiðandanum Meatly er vistkjötið jafn bragðgott og næringarríkt og hefðbundnar kjúklingabringur. Lítil takmörk eru fyrir því hversu mikið er hægt að rækta upp frá frumum úr einu eggi.
Í júlí á síðasta ári varð Bretland fyrsta landið í Evrópu til að heimila notkun vistkjöts í gæludýramat eftir að vörur frá Meatly fengu grænt ljós hjá ólíkum eftirlitsstofnunum. Fyrirtækið vonast til þess að á næstu þremur til fimm árum muni aukin framleiðsla gera vörurnar fáanlegar víða. Stjórnendur Meatly eru bjartsýnir á að það takist miðað við hversu stór stökk hafa verið tekin í þróun vistkjöts á allra síðustu árum.