Birgir Steinn Birgisson keypti garðyrkjustöðina Ficus í Hveragerði fyrir um fjörutíu árum og hefur staðið vaktina í pottaplönturæktun öll þau ár. Nú er tími páskablómanna og um 40 þúsund fagurgular plöntur frá Birgi streyma í stórmarkaðina.
Birgir Steinn Birgisson keypti garðyrkjustöðina Ficus í Hveragerði fyrir um fjörutíu árum og hefur staðið vaktina í pottaplönturæktun öll þau ár. Nú er tími páskablómanna og um 40 þúsund fagurgular plöntur frá Birgi streyma í stórmarkaðina.
Mynd / sá
Viðtal 11. apríl 2025

Grænar plöntur ná yfirhöndinni en páskagult er þó næst á dagskrá

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Gróðrarstöðin Ficus í Hveragerði er áratugagömul stöð sem ræktar um 250 þúsund pottablóm á ári og selur fjölbreytt úrval þeirra m.a. í stórmörkuðum.

Birgir Steinn Birgisson, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Ficus við Bröttuhlíð í Hveragerði, hefur rekið stöðina í um fjóra áratugi og segir fyrstu árin hafa verið sérlega strembin. Hann keypti stöðina rétt áður en óðaverðbólga brast á og þurfti að hafa sig allan við til að halda rekstrinum á floti. Ólafur Steinsson hafði áður rekið stöðina um árabil undir nafninu Garðyrkjustöð Óla Steins.

Hugur Birgis hneigðist snemma til gróðurs og hann fór upphaflega í nám í Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Hann nam svo rekstrarhagfræði garðyrkju í Danmörku og vann í garðyrkjustöðvum þar og í Noregi í fimm ár áður en hann keypti Ficus.

Þegar Birgir tók við Ficus voru rósir í allri stöðinni en þar sem hann hafði alltaf unnið með pottaplöntur breytti hann henni smám saman og fór alveg yfir í pottaplöntuframleiðslu. „Við erum með ca 100 þúsund sumarblóm á ári og ætli við ræktum ekki eitthvað um 150 þúsund pottaplöntur,“ upplýsir Birgir. Reksturinn hafi gengið ágætlega undanfarið.

„Fyrir hrun kom tímabil þar sem tískan bauð að hvergi skyldu vera pottaplöntur. Tískustraumar gerðu ekki ráð fyrir plöntum innandyra og veggir áttu að vera gráir. Fólk fylgdi þessu, eins og gengur, og allt varð dálítið sterílt. Þetta var erfitt tíu ára tímabil og einna helst ömmur sem voru að versla sér pottablóm hjá mér. Svo kom hrunið og unga fólkið keypti innanhússplöntur unnvörpum. Það sá allt í einu hvað plantan gerir fyrir híbýlin. Salan jókst hraðbyri og þá fór ég að stækka stöðina. Síðan kom Covid og þá jókst eftirspurnin enn meira. Þá vildu allir hafa huggulegt heima hjá sér,“ segir hann kankvís. Enn sé vöxtur í eftirspurn en hægst hafi verulega á honum.

Hann rifjar upp að í byrjun hafi eingöngu verið unnt að selja blómstrandi pottaplöntur. Grænar plöntur hafi alls ekki selst. Í dag séu þær grænu hins vegar búnar að ná yfirhöndinni. Tegundir þeirra séu mjög fjölbreytilegar.

Eitthvað nýtt árið um kring

Ræktunin er mánaðabundin. „Í janúarbyrjun er stöðin full af grænum plöntum sem seljast í janúar og febrúar. Á meðan þær eru að seljast er maður að rækta upp fyrir páskana sem eru stórir hjá mér. Þá eru ræktaðar 25 þúsund Tetea-Tete (narcissus-dvergpáskaliljur) og aðrar 17 þúsund gular plöntur af ýmsum gerðum. Síðan koma sumarblómin, svo aftur grænar plöntur. Í júní fæ ég það sem við köllum Októberstjörnu, í júlí koma jólastjörnur og þegar sala á þeim er búin byrjar árshringrásin aftur. Þetta er svona hringurinn en alltaf grænar plöntur á öllum árstímum,“ segir Birgir. Hann hefur framleitt hina fagurbleiku Októberstjörnu J ́Adore Pink ́ sl. fjögur ár og látið hluta ágóða af sölu hennar renna til Krabbameinsfélagsins.

Stöðugildi Ficus eru 2,5 árið um kring. „Aðalsölustaðirnir hjá mér eru súpermarkaðirnir. Grænn markaður dreifir fyrir mig og það fer alltaf eitthvað út frá stöðinni í hverri viku.“

Garðyrkjustöðin Ficus hefur verið starfrækt í áratugi og selur mikið blóm í stórmarkaði. Ræktuð eru um 100 þúsund sumarblóm og 150 þúsund pottaplöntur árlega. Ficus framleiðir líka hina vinsælu skærbleiku Októberstjörnu.

Framleiðendum hefur fækkað

Pottaplöntuframleiðendum hefur fækkað verulega frá því sem var, að sögn Birgis. „Við náum þó engan veginn að framleiða upp í eftirspurn.“ Hann segir að hin síðari ár hafi innflutningur á pottaplöntum stóraukist hjá söluaðilum á höfuðborgarsvæðinu. „Því varð ég að finna mér annan sölufarveg og byggði með Grænum markaði upp pottaplöntusölu til stórverslana.“ Hann flytur líka inn svolítið af tilbúnum og hálftilbúnum plöntum sjálfur, til að auka fjölbreytileikann í úrvalinu hverju sinni.

Hann er spurður út í meindýravarnir, enda skipta þær ræktandann afar miklu máli. „Hér áður fyrr var maður með eitur og þau efni voru ansi slæm. Maður las greinar um að hæsta tíðni krabbameins væri hjá garðyrkjumönnum. Í dag er ég alveg kominn í lífrænar varnir og það hefur gefist vel eftir að ég náði tökum á þeim.“ Hann flytur inn um 20 tonn af jarðvegi á ári, sphagnummómosamold, en búið er að drepa öll fræ úr honum með hita. Svo er blandað áburði í moldina fyrir pökkun, enda velur Birgir sér jarðveg með réttu áburðarinnihaldi fyrir sín blóm. „Þetta hefur gengið vel en Evrópusambandið er að setja skorður við sphagnum-töku sem gæti valdið okkur vandræðum. Væntanlega verður útfösun þó hæg og eitthvað annað kemur í staðinn,“ útskýrir hann.

Kynslóðaskiptastuðningur

Hann segir Ficus-stöðina á sinn hátt tæknilega, hitakerfi, loftun og vökvun allt sjálfvirkt. Hann ræktar á 2.000 m2 , sumarblómin á 3–4 hæðum og húsin eru þrjú og samtengd.

Auk raforku- og tollamála eru honum, líkt og fleiri garðyrkjubændum, málefni Garðyrkjuskólans ofarlega í huga. „Það verður að leysa vandræði skólans fyrir fullt og allt. Fólk vill hafa skólann en þetta snýst allt um fjármagn og það verður að veita til hans meiri peningum,“ segir hann.

Birgir telur bráðum koma að því að hann setji Ficus á sölu. Hann leggur áherslu á að bæta þurfi og ýta undir kynslóðaskipti í búskap, algert lykilatriði sé að ríkið komi þar að málum svo að ungt fólk geti tekið við í landbúnaði og leyst gamla bændur af hólmi, hvort sem um sé að ræða ylrækt eða aðrar búgreinar. „Það er þó erfitt að hætta. Ég ætla nú að klára að gera ýmislegt hér áður en ég sel og þá þurfa menn ekki að gera neitt hér næstu þrjátíu árin annað en að rækta plöntur – bara taka fögnuðinum,“ segir hann glaðhlakkalegur að endingu.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt