Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Rafn Arnbjörnsson hefru starfað sem frjótæknir í hálfa öld, en hann hóf störf í þessu fagi haustið 1971. Hér er Rafn við höfuðstöðvar Búgarðs á Akureyri.
Rafn Arnbjörnsson hefru starfað sem frjótæknir í hálfa öld, en hann hóf störf í þessu fagi haustið 1971. Hér er Rafn við höfuðstöðvar Búgarðs á Akureyri.
Mynd / MÞÞ
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestrisni þess og góðra stunda, þeir eru ófáir kaffibollarnir sem bornir hafa verið að mér um tíðina og gaman að hafa kynnst gömlu íslensku gestrisninni.

Allt það bændafólk sem ég hef um árin átt samskipti við hefur sýnt mér mikil elskulegheit, boðið upp á mat og kaffi og sýnt mér mikla vináttu. Mér þykir líka vænt um að hafa verið treyst til þess að sinna störfum fyrir bændur í Eyjafirði,“ segir Rafn Arnbjörnsson, sem fyrr í haust fagnaði hálfrar aldar starfsafmæli sínu sem frjótæknir.

Hann hóf störf haustið 1971 og er enn í fullu fjöri 50 árum síðar. Rafn er einn af stofnendum Frjótæknifélagsins, sem bæði er fag- og stéttarfélag. 

Rafn Arnbjörnsson með skíðin hans Hjartar á Tjörn.

Fæddur og uppalinn á Dalvík

Rafn fæddist á Dalvík, ólst þar upp og býr þar enn. Hann segir áhuga sinn á landbúnaði hafa kviknað snemma, en í hans uppvexti tíðkaðist að halda nokkrar skepnur við nánast hvert heimili, eina kú og nokkrar kindur. Svo var einnig á hans heimili, foreldrar hans voru með kú og um 20 kindur þannig að hann fór snemma að stússast í kringum skepnur.

Fyrsta hestinn eignaðist hann 13 ára gamall og notaði í þá fjárfestingu sumarkaupið sitt í sinni fyrstu vinnu. Hann á móti öðrum strák á svipuðu reki fengu starf við að tína upp það smágrjót sem féll af vörubílunum þegar verið var að koma upp syðri grjótgarðinum við Dalvíkurhöfn.

„Ég fékk 2.500 krónur fyrir þetta sumarstarf og þær nægðu til að kaupa hest,“ segir hann.

Imba var heilmikill örlagavaldur

Rafn var mörg sumur í sveit á Jarðbrú í Svarfaðardal hjá Halldóri Jónssyni og Ingibjörgu Helgadóttur sem þar ráku myndarbú og segir hann að sú dvöl hafi aukið áhuga hans enn frekar á landbúnaði og störfum honum tengdum.

„Mér leið vel á Jarðbrú, féll vel inn í hópinn sem þar var, svo vel kannski að margir héldu að ég væri einn úr systkinahópnum. Mér þótti vænt um það,“ segir hann og bætir við að óbeint megi rekja það að hann hóf störf við sæðingar til Ingibjargar á Jarðbrú. Hún hafði á fundi nautgriparæktarfélags í Svarfaðardal stungið upp á að prófa hann í starfið þegar sá sem því sinnti lét af störfum.

„Hún var heilmikill örlagavaldur í því að ég fór í þetta.“

Rafn stundaði búfræði­nám við Bænda­skólann á Hólum á árunum 1969 til 1971. Hann sótti um nám í framhaldsdeildinni á Hvanneyri að því loknu og var á leið suður þá um haustið þegar tilboð um starf barst frá Félagi nautgriparæktenda í Eyjafirði. Velti hann málum aðeins fyrir sér og var niðurstaðan sú að fresta náminu, enda hægt að hefja það eitthvað annað haust og þiggja starfið.

„Það gerði nú útslagið í þessum vangaveltum mínum að ég var kominn með kærustu upp á arminn og við áttum von á barni. Þannig að ég ákvað að vera heima og prófa þetta nýja starf,“ segir hann.

Ljóst var að Rafn myndi í sínu starfi vera í búfjársæðingum og því byrjaði hann á að sækja námskeið syðra áður en hann hélt út á akurinn og hóf sín störf í eyfirskum sveitum.

Farið á mun færri bæi en áður

„Eðli starfsins hefur ekki breyst, það er enn hið sama, tækni og áhöldin svipuð en það sem aftur á móti hefur breyst og það mikið eru samgöngurnar hér á svæðinu, samskiptatæknin  og eins fjöldi bæja sem farið er á,“ segir Rafn en í fyrstu sinnti hann svæði kringum Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd inn að Rauðuvík auk þess að fara í Ólafsfjörð.

„Þetta var mitt starfssvæði á fyrstu árunum, og alls voru 74 bæir á mínu svæði með kýr auk þess sem kýr voru á 12 bæjum í Ólafsfirði. Það hefur aldeilis orðið breyting á hvað fjöldann varðar, bæjunum hefur snarfækkað með árunum, en kýrnar eru líklega álíka margar og var. Nú eru á þessu svæði 13 bæir með kýr þannig að yfirferðin er allt önnur en var í fyrri tíð.“

Þá nefnir hann að vegir hafi víðast hvar ekki verið upp á marga fiska og vetrarsamgöngur oft og tíðum erfiðar, enda var í þá daga ekki endilega mikið kapp lagt á að halda vegum opnum alltaf.

„Þetta var nú þannig að ef snjóaði og vegir urðu ófærir þá var það bara þannig. Og fólk var ekki að kvarta mikið yfir því, þetta var staðan og menn bara biðu þess að aftur yrði fært,“ segir Rafn sem iðulega var á ferðinni í vonskuveðri og jafnvel stórhríðum. Það var bara farið af stað þegar kallið kom.

Samskiptin voru líka með öðrum hætti, það var hægt að komast í síma heima á bæjunum og láta vita af sér og menn hringdu sín á milli til að spyrja fyrir um hvort Rafn hefði komið við og þá reynt að áætla hvenær hann hugsanlega væri á ferðinni á þessum eða hinum bænum.

„Ég var nú almennt mjög heppinn í þessum ferðum mínum þó veður og færð væri ekki alltaf upp á það besta. Yfirleitt komst ég klakklaust á milli bæja og heim en auðvitað kom það stöku sinnum fyrir að maður ók aðeins út fyrir veg eins og gengur,“ segir Rafn.

Hann rifjar upp eitt mesta norðanbál sem hann lenti í fyrir allmörgum árum. Var á heimleið og staddur á Hámundarstaðahálsi í snælduvitlausu veðri. Þegar hann kemur niður af hálsinum sést vart út úr auga. Kemst hann heim að Hálsi og reynir að fá vaska menn á Dalvík til að sækja sig á vélsleða en veður þótti ekki fýsilegt til þannig ferða. Úr varð að Rafn gekk heim til Dalvíkur, nokkurra kílómetra leið. 

Snjóflóð í Múlanum

Í annað skipti komst hann í hann krappan í Ólafsfjarðarmúla, en hann hafði farið þangað til að sinna sínu starfi. Þetta var á Þorláksmessu og var bróðir hans með í för, þeir áttu systur í Ólafsfirði sem þeir heilsuðu upp á þennan dag. Þegar þeir höfðu lokið sínum erindum var haldið heim á leið.

„Það gerist svo að við  keyrum inn í snjóflóð sem var að falla yfir veginn, ég var nokkrar sekúndur að átta mig á að þetta væri flóð, það kom mikill slinkur á bílinn og snjórinn náði upp fyrir vélarhlífina og aðeins upp á framrúðuna. Ég náði að bakka út úr þessu og komast fyrir flóðið, en var ekki kominn langt þegar annað flóð fellur og nú á afturhluta bílsins. Hann kastaðist svolítið til en ég gaf vel í og komst sem betur fer út úr þessu líka. Þegar við skoðuðum aðstæður sáum við að þetta voru tvær litlar spýjur, en við vorum fegnir að sleppa þetta vel frá þeim. Ég hugsa að þetta sé nú það mesta sem ég hef lent í á mínum starfsferli,“ segir Rafn.

Á góðri stundu með Þorsteini Ólafssyni dýralækni heima í Öldugötu á Dalvík. Mynd / Úr einkasafni

Beint inn í fjós og út aftur

Nú hin síðari ár eru tveir frjótæknar að störfum hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og skipta svæðinu á milli sín. Rafn tekur norðurhlutann, byrjar á Akureyri og heldur heim á Dalvík með viðkomu á þeim bæjum sem óskað hafa eftir honum. Hann fer einnig út með ströndinni austanmegin og byrjar gjarnan þar, en hinn sinnir Eyjafjarðarsveit þar sem flest kúabú eru. Bændur panta frjótækni í símatíma snemma á morgnana eða eftir öðrum leiðum og gefa upp númer á þeirri kú sem þarf að sæða og hvar hana sé að finna í fjósinu. Frjótæknar finna til heppilegt sæði og lesa sér til í gagnabanka frá Bændasamtökum Íslands eða velja naut í gegnum Tarf sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins heldur úti. Rafn segir að þegar sé búið að velja sæði fyrir þær kýr sem farið hafi í gengum kynbótamat.

„Við tökum okkur til og græjum okkur og höldum svo út í sveitirnar,“ segir hann. Og bætir við að nú heyri til undantekninga að rekast á bændur og búalið heima á bæjunum, „við förum bara beint inn í fjós og vinnum okkar vinnu og svo er haldið áfram,“ segir hann. Af sem áður var að staldrað var við og drukkið kaffi á hverjum bæ.“

Með góðum félögum að halda upp á 50 ára starfsamælið. Mynd / Úr einkasafni

Má ekki slaka á kröfum 

Rafn segir að þegar hann líti yfir farinn veg sé hann ánægður með að hafa valið sér þennan starfsvettvang. Hann hafi alla tíð lagt metnað í starfið og sinnt því af vandvirkni.

„Ég hef verið heppinn að starfa hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar þar sem stjórnendur hafa skilning og metnað fyrir því að sæðingastarfsemi gangi sem best. Það hefur alltaf verið vel að okkur frjótæknum búið, við höfum góða vinnuaðstöðu og þess gætt að bílakostur sé eins og best verður á kosið,“ segir hann. Einnig hafi hann átt því láni að fagna að starfa með frábæru fólki á góðum vinnustað, þar sem jákvæðni, léttleiki og gleði hafi verið í fyrirrúmi.

Rafn er enn að störfum og segir að lífinu sé langt í frá lokið þó menn nái því að verða sjötugir, að halda áfram að vinna gefi sér aukin tækifæri á samveru og samskiptum sem geri lífið enn skemmtilegra.

„Það er nauðsynlegt að mínu mati fyrir kynbótastarfið í nautgriparækt að litið sé á sæðingastarfsemina sem mikilvægan þátt og að ekki verði slakað á kröfum til að árangur verði sem bestur. Ég fann mína ástríðu í þessu starfi og hef alltaf haft að leiðarljósi að þeir bestu geti alltaf gert betur ef áhugi og metnaður er fyrir hendi til að halda merkinu á lofti.“

Rauða veifan

Rafn og Hjörtur á Tjörn komu sér upp ákveðnu merkjamáli, enda ekki alltaf gott að ná á sæðingamanni á ferð um dalinn þegar símar voru ekki í hverjum vasa. Þegar Rafn ók fram hjá heimreiðinni að Tjörn og rauð veifa blakti við úti á brúsapalli þýddi það að hann ætti að koma við. 

„Þetta var merkið sem hann gaf mér ef á sæðingamanni þurfti að halda á Tjörn þann daginn. Gárungarnir í sveitinni göntuðust með það að Hjörtur hefði notað rauðan náttkjól af Sigríði konu sinni sem veifu,“ segir hann.

Æi, það er Rabbi bara

Rafn kom einu sinni sem oftar heim að Bakka í Svarfaðardal, sat þar í eldhúsi og gæddi sér á veitingum. Móðir Helgu, Engilráð, var í herbergi sínu, heyrir umgang og spyr hver sé á ferðinni. Æi, það er Rabbi bara, svarar Helga móður sinni. Eftir drykklanga stund heyrist í þeirri gömlu: Nú varð hann ekki ónýtur í frostinu í haust?

Einhverju sinni var Rafn á ferð hjá Jónasi í Koti í Svarfaðardal að sinna vinnu sinni og fékk þá þessi skilaboð sem komið hafði verið fyrir á bréfsnepli við mjólkurtankinn:

Hún herjar víða þessi þrá,

það fer að nálgast æði,

Helga á Bakka hún vill fá,

heilan skammt af sæði.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt