Auðgandi landbúnaður til umræðu
Málþing um „auðgandi landbúnað“ var haldið á Hilton Reykjavík Nordica 2. apríl, þar sem íslenskir og bandarískir fræðimenn og bændur deildu reynslu sinni af þessari nálgun í landbúnað. Þar er markmiðið að rækta jarðveginn og gera hann sjálfbæran fyrir búfjárrækt eða annan landbúnað.
Segja má að á Íslandi sé þessi nálgun rétt að skjóta rótum meðal bænda. Þeir eru fáir íslenskir bændurnir sem beinlínis gefa sig út fyrir að stunda auðgandi landbúnað, en hugmyndafræðin er þó náskyld lífrænum landbúnaði.
Bændur á þremur bæjum sem aðhyllast hugmyndafræðina og vilja breiða hana út, stóðu að skipulagningu málþingsins.
Hugtakið þekkist á ensku sem „Regenerative Agriculture“ en íslenska aðlögunin, „auðgandi landbúnaður“, mun vera ættuð frá Kristínu Völu Ragnarsdóttur, prófessor emerita í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, sem var í hópi framsögufólks á málþinginu. Þar útskýrði hún einmitt í sínu erindi um hvað málið snýst.