Kornax búið að loka
Hveitimylla Kornax að Korngörðum í Reykjavík hefur malað sitt síðasta korn og eru korngeymslurnar tómar. Þar með lýkur næstum fjögurra áratuga sögu.
Lífland ehf. á og rekur Kornax, sem var eina kornmylla landsins sem malaði hveiti og rúgmjöl til manneldis. Fyrirtækið starfrækir jafnframt fóðurverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði þar sem eru stórar korngeymslur.
Byggingar Kornax við Korngarða eru í eigu Faxaflóahafna sem hafa ekki endurnýjað leigusamning við Lífland. Fyrirtækið hafði hug á að byggja nýja hveitimyllu við hlið fóðurverksmiðjunnar á Grundartanga, en fékk ekki starfsleyfi vegna nálægðar við mengandi stóriðju. Lífland sá sér því þess einan kost að leggja niður innlenda hveitimölun og hefja innflutning á möluðu hveiti frá Danmörku undir merkjum Kornax.

Fylgst með síðustu kornunum
Bændablaðið fékk að líta inn í kornmylluna þegar eingöngu áttatíu tonn voru eftir af ómöluðu hveiti. Afkastageta Kornax var 50 tonn á sólarhring, sem þýðir að á fullum afköstum hefði verksmiðjan klárað þær birgðir á einum og hálfum sólarhring. „Við eigum ekki meira korn til þess að mala,“ sagði Rannveig Hrólfsdóttir, gæðastjóri Líflands og starfandi stjórnandi Kornax, í samtali við blaðamann á síðustu dögum myllunnar. „Akkúrat núna er ég að spara þessar restar þannig að ég slekk á næturnar.“ Að jafnaði var hveiti malað allan sólarhringinn til þess að anna eftirspurn, en verksmiðjan gat gengið á nóttinni án viðveru starfsfólks.
Neytendur ættu að þekkja Kornax hveiti í tveggja kílóa bréfpokum, sem hefur verið ráðandi á íslenskum markaði undanfarna áratugi. „Hjá okkur eru þrjár tegundir af hveiti til manneldis, en það eru til fleiri. Munurinn felst aðallega í próteininnihaldi, en við köllum það sterkara hveiti sem er með meira prótein. Langsterkasta hveitið er svokallað Manitobahveiti sem kemur frá Ameríku,“ sagði Rannveig, en það er notað í súrdeigsbakstur.

Sama vara frá Danmörku
Hinar tegundirnar af hveiti sem neytendur þekkja eru rautt eða blátt Kornax ásamt heilhveiti í grænum pokum. Hveitið í rauðu pakkningunum er veikasta hveitið og hentar best í kökur, á meðan bláa hveitið er sterkara og hugsað fyrir allan almennan brauðbakstur. Stærsti hluti framleiðslunnar er brauðhveiti sem er selt í lausu til bakaría og matvælafyrirtækja sem geyma mjölið í sílóum.
Lífland hefur fjárfest í aðstöðu og útbúnaði til að halda áfram að selja hveiti á sama hátt og hingað til, bæði í neytendapakkningum og í lausu. „Við sendum sýnishorn af öllum okkar vörum út til Danmerkur,“ sagði Rannveig. Lífland muni því kaupa nákvæmlega sömu vöru sem er pakkað í sömu umbúðir og neytendur þekkja. Helsta breytingin verður sú að birgðir af hveiti í landinu á hverjum tíma verða eingöngu til nokkurra vikna, á meðan korngeymslurnar gátu gátu geymt hátt í tveggja mánaða birgðir af ómöluðu hveiti.
Samkvæmt upplýsingum frá Líflandi munu neytendur ekki finna fyrir neinum mun á framboði þar sem innflutningurinn verður stöðugur. Víða hefur hins vegar verið bent á að fæðuöryggi landsins minnki þar sem aðfangakeðjur þurfa ekki að rofna í langan tíma áður en birgðirnar tæmast.
Buðust til að stækka korngeymslurnar
Í myllunni í Korngörðum voru átta síló sem geymdu korn sem dugði til mölunar í nokkra daga, ásamt því að geyma malað hveiti áður en það var flutt til viðskiptavina eða pakkað. Þar sem geymsluplássið var takmarkað í Korngörðum fór vörubíll tvær ferðir hvern virkan dag með ómalað korn frá Grundartanga og flutti hveitiklíð til baka í korngeymslurnar sem var síðan notað í fóðurframleiðslu.
Lífland sóttist eftir því að byggja hveitimyllu við hlið fóðurverksmiðjunnar á Grundartanga og var komið langt á veg með hönnun bygginganna. „Við buðumst til þess að stækka korngeymslurnar til þess að fá meira fæðuöryggi í landinu,“ sagði Rannveig. Fyrirtækið gat alla jafna geymt 2.500 tonn af hveiti til manneldis í einu á Grundartanga.

Voru búin að undirbúa nýja myllu
Hveitimyllan í Korngörðum var tekin í notkun haustið 1987 og var í sameiginlegri eigu Mjólkurfélags Reykjavíkur (nú Lífland) og Fóðurblöndunnar. „Upphaflega var þetta byggt til að fá hveitiklíð í fóður og hveitið var aukaafurð. Svo tók markaðurinn vel við sér og þá varð hveitið aðal,“ sagði Rannveig. „Það var komið að miklu viðhaldi og það er ástæðan fyrir því að við fórum af stað í undirbúning fyrir nýrri hveitimyllu árið 2020, áður en það var búið að segja upp leigusamningunum hér. Þá fengum við ekki starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og við söltuðum áformin aðeins. Svo kom þessi uppsögn á leigunni frá Faxaflóahöfnum og við fórum á fullt í að kanna möguleika á verksmiðju á Grundartanga. Eftir að hafa fengið endanlega neitun þurftum við að skipta um gír og fórum að undirbúa innflutning.
Við þurfum að tæma húsið og sjáum ekki fram á að geta notað vélarnar í neitt. Þær fara bara í endurvinnslu. Þetta eru bæði orðin gömul tæki og það borgar sig ekki að flytja þetta, því að verksmiðjan er innbyggð í húsið. Sílóin ná frá efstu hæð niður á neðstu og það er ekkert hægt að flytja þau. Um leið og þú fjarlægir sílóin þá tekur þú niður húsið,“ sagði Rannveig.
Síðasta kornið var malað 10. apríl og lauk pökkun á hveitimjöli daginn eftir. „Það er búið að vera líf og fjör og gaman að fá að vera hluti af þessari sögu. Ég mun sakna þessarar verksmiðju og ef við byggjum nýja þá vona ég að ég fái að taka þátt í þeirri uppbyggingu,“ sagði Rannveig að lokum.

Ferill hveitisins:
- Landað á Grundartanga og sett í korngeymslur þar.
- Flutt með tankbíl í Korngarða tvisvar á dag.
- Korninu blásið í minni geymslusíló í verksmiðjunni.
- Kornið fer í hreinsilínu þar sem aðskotaefni eins og steinar, málmar, aðrar korntegundir o.fl. er tekið frá.
- Kornið er lagt í bleyti í 10 til 24 klukkutíma til þess að það sé auðveldara í mölun.
- Hveitiklíð er skilið frá og er það bæði notað í matvæla- og fóðurframleiðslu.
- Kornið fer í gegnum átta valsa þar sem kornið verður fínna og fínna.
- Mjölið fer upp í sigti sem sendir það aftur í viðeigandi valsa ef það er of gróft. Þetta ferli er endurtekið þangað til að það er orðið að fínmöluðu hveiti.
- Möltuðu hveiti og C-vítamínum blandað við.
- Mjölið fer í geymslusíló.
- Hveitimjölið er sigtað aftur fyrir pökkun í 2 kílóa eða 25 kílóa pakkningar eða áður en því er dælt á tankbíl sem keyrir með hveitið í síló hjá matvælafyrirtækjum.
Sjá einnig:
Ráðuneytið má ekki grípa inn í