Bændur í sólarselluverkefni
Fyrirtækið Alor sérhæfir sig í orkulausnum, meðal annars innleiðingu á framleiðslu rafmagns með sólarsellum og geymslu þess á rafhlöðum hér á Íslandi. Í undirbúningi er verkefni með þátttöku bænda, þar sem markmiðið er að skoða nýtingu slíkrar orkuöflunar í mismunandi búrekstri.
Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor, segir að verkefnið sé samstarfsverkefni með Bændasamtökum Íslands og muni felast í að setja upp jafnstór kerfi af sólarsellum og rafhlöðum nú í haust á fjórum bæjum; kúabúi með mjaltaþjóni, svínabúi, garðyrkjubýli og aflögðu loðdýrabúi. Hún segir að búið sé að ganga frá samningum um þátttöku við alla nema garðyrkjubændur og óskar eftir því að áhugasamir gefi sig fram við hana. Vonir standa til þess að stærstur hluti kostnaðar verkefnisins verði fjármagnaður með styrkjum úr samkeppnissjóðum og séu styrkvilyrði þegar farin að berast.
Birtuorka fremur en sólarorka
Að sögn Lindu felst hlutverk Bænda- samtakanna í að opna samtal við aðra bændur, halda þeim upplýstum um framgang verkefnisins og aðstoða við að kynna niðurstöður þess. Hún segir að margir haldi að sólarsellur þurfi sól til að safna orku, en það sé ekki rétt. Einungis þurfi tiltekin birtuskilyrði og því sé réttara að kalla ferlið birtuorkuframleiðslu.
„Verkefnið leggur grunn að því að slík framleiðsla geti orðið ný aukabúgrein bænda hér á landi, þar sem rafmagnið er selt inn á raforkukerfið, líkt og í fjölmörgum öðrum ríkjum,“ segir Linda.
Fjölþættir kostir
Linda segir að í raun sé græn orka uppseld á Íslandi miðað við núverandi forsendur. Því sé raforkuöryggi heimila og fyrirtækja ógnað. Óeining sé um nýtingu á vindorku og frekari vatnsaflsvirkjunum auk þess sem nokkur ár séu í að slíkir orkukostir skili raforku inn í kerfið.
„Sólarsellur og rafhlöður eru tæknilausnir sem nýttar hafa verið með góðum árangri um allan heim og stærri uppsetningar á Íslandi hafi sýnt jákvæðar niðurstöður, svo sem í Grímsey. Sólarsellur eru yfirleitt festar á húsþök eða jarðfastar og eru slíkar framkvæmdir algjörlega afturkræfar. Með því að nýta þennan orkukost, sem lítil áhersla hefur verið á hér á landi hingað til, er unnt að lækka rafmagnskostnað, auka afhendingaröryggi í rafmagnstruflunum, draga úr olíunotkun vegna minni notkunar olíuknúinna rafstöðva og draga úr álagi á raforkukerfið,“ segir hún.
Jafn sjálfsagt og að virkja bæjarlækinn
Eðlilegt sé að horfa einnig til þessarar nýtingar í því skyni að aðstoða við að standa undir skuldbindingum í loftslagsmálum. Bent hafi verið á mikilvægi birtuorkuframleiðslu til framtíðar í skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um bætta orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar sem kom út í apríl síðastliðnum. Íslensk stjórnvöld átti sig á mikilvægi þessa orkukosts og vinni að því að gera sölu birtuorku inn á kerfið einfalda og aðgengilega.
„Við hjá Alor munum leggja metnað í að styðja við vinnuna og vonumst til þess að innan tíðar verði jafn sjálfsagt að virkja birtuna og bæjarlækinn,“ segir Linda.
Þekkir áskoranir bænda
Linda segir að gríðarleg aukning hafi orðið í nýuppsettu birtuafli á heimsvísu á árunum frá 2021 til 2023 – eða um 40 prósent. Norðurlöndin séu komin langt á undan okkur í þeirri þróun. „Það er jákvætt fyrir Ísland, meðal annars vegna þess að við getum byggt á áralangri reynslu nágrannaþjóða okkar. Alor er í samstarfi við rótgróið, danskt fyrirtæki og munu fulltrúar þess veita dýrmæta tækniráðgjöf í verkefnum félagsins. Við Íslendingar erum þó sjálf bestu sérfræðingarnir þegar kemur að því að tryggja að búnaður standist veðurágang hér á landi og við vinnum nú að sérhönnuðum festingum í samstarfi við öfluga aðila hér á landi.
Spurð af hverju Alor velji að fara í samstarfsverkefni með bændum, segir Linda að sjálf sé hún fædd og uppalin á sauðfjárbúi í Skagafirði og hafi starfað sem sérfræðingur í ráðuneyti sem fór með málefni landbúnaðar og matvæla. Hún þekki því þær áskoranir sem bændur standa frammi fyrir. „Þeir glíma við afkomuvanda þar sem rafmagnskostnaður er sístækkandi kostnaðarliður – og hamlar í raun vexti til dæmis í ylrækt. Þarna geti verið tækifæri með birtuorkuframleiðslu. Auk þess er rafmagnskostnaður hærri á landsbyggðinni og endurgreiðslutími búnaðarins því styttri en á höfuðborgarsvæðinu.“
Hagstæðari búnaður en áður
Kostnaður við kaup og uppsetningu á kerfunum er mismunandi eftir aðstæðum hvers og eins, en búnaðurinn hefur lækkað töluvert í verði á síðustu árum. Alor setur upp áætlun við kostnað og greinir fýsileikann á nýtingunni á kerfunum. Linda segir að Alor aðstoði einnig við styrkumsóknir og bendir á að opið sé fyrir umsóknir fyrir Sólarsellustyrki Orkuseturs Orkustofnunar til 31. ágúst næstkomandi.
„Áætlað meðaltal af birtuorkuframleiðslu á fermetra á Íslandi er 985 kílóvattstundir (kWst) á ári. Þannig má gefa sér að á 100 fermetra þaki komist fyrir um 50 sellur sem framleiða um 19.000 kWst á ári. Til samanburðar má nefna að meðalheimili notar um 4.000 kWst árlega. Þar sem raforkuverð auk flutnings er í kringum 23 krónur á kWst er áætlað að sparnaður af slíku kerfi geti verið tæplega 450 þúsund krónur á ári, þegar kostnaður við kerfið hefur verið greiddur. Að því gefnu að birtuorkuframleiðslan og notkun haldist í hendur eða orkan sé geymd á rafhlöðum. Birtuorkusellur endast í 25–30 ár með litlu viðhaldi og má þannig áætla að heildarframleiðsla yfir líftíma framangreinds kerfis sé í kringum 580.000 kWst,“ segir Linda.