Fuglaverndarfélag Íslands (Fuglavernd) hefur óskað eftir opinberri rannsókn vegna ætlaðra brota Yggdrasils Carbon ehf., og eftir atvikum verktaka á vegum fyrirtækisins, á lögum, með því að rista upp svæði mófugla innan jarðarinnar Saltvíkur í Norðurþingi á varptíma.
Fuglaverndarfélag Íslands (Fuglavernd) hefur óskað eftir opinberri rannsókn vegna ætlaðra brota Yggdrasils Carbon ehf., og eftir atvikum verktaka á vegum fyrirtækisins, á lögum, með því að rista upp svæði mófugla innan jarðarinnar Saltvíkur í Norðurþingi á varptíma.
Mynd / Bbl
Fréttir 15. apríl 2025

Fuglavernd í hart við Yggdrasil

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Fuglavernd hefur kært Yggdrasil Carbon ehf. til lögreglu fyrir að rista upp landsvæði í landi Saltvíkur við Húsavík á varptíma fugla sumarið 2024.

Fuglaverndarfélag Íslands (Fuglavernd) hefur óskað eftir opinberri rannsókn vegna ætlaðra brota Yggdrasils Carbon ehf., og eftir atvikum verktaka á vegum fyrirtækisins, á náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og villidýralögum nr. 64/1994 en mögulega hafi lög nr. 55/2013 um velferð dýra einnig verið brotin, með því að rista upp svæði mófugla innan jarðarinnar Saltvíkur í Norðurþingi. Yggdrasill hefur sérhæft sig í kolefnisbindingu með skógrækt og selur vottaðar kolefniseiningar til fyrirtækja.

Vorið 2024 lét fyrirtækið, að fengnu framkvæmdaleyfi frá Norðurþingi, herfa rásir í mólendi á jörðinni Saltvík við Húsavík á varptíma fugla. Fuglavernd leitaði þá eftir upplýsingum frá Norðurþingi og sendi í framhaldi þess erindi til Skipulagsstofnunar í byrjun árs, vegna þess sem félagið telur vera brot gegn skipulagslöggjöf. Er mál Yggdrasils og fleiri aðila vegna framkvæmda á þremur svæðum á tveimur jörðum í sveitarfélaginu nú til meðferðar hjá þeirri stofnun, og aðkoma sveitarfélagsins í því sambandi, segir m.a. í kæru Fuglaverndar til Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 25. mars sl.

Ábyrgðartegundir Íslands

Í greinargerð um málsatvik er farið yfir að Yggdrasill, eða verktaki á vegum félagsins, hafi rist upp um 160 ha landsvæði. Sú framkvæmd hafi farið fram á varptíma fugla sumarið 2024 (lok júní og byrjun júlí). Sé þetta hin kærða háttsemi. Um sé að ræða vel gróið og mikilvægt búsvæði mófugla, s.s. rjúpu, heiðlóu og spóa sem teljist til ábyrgðartegunda Íslands. Heiðlóa sé auk þess skráð í 1. viðauka Bernarsamningsins sem listar þær tegundir sem aðildarþjóðir skuldbindi sig til að vernda með sértækri búsvæðavernd. Þá sé rjúpa í yfirvofandi hættu skv. válista Náttúrufræðistofnunar og fálki, sem byggi afkomu sína á rjúpu, í nokkurri hættu.

Hafði Fuglavernd áður bent á að samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar séu vistgerðir á svæðinu þess eðlis að þar finnist ríkulegt fuglalíf og algengt að t.d. þúfutittlingur, hrossagaukur, spói, heiðlóa, lóuþræll, rjúpa, jaðrakan, stelkur, skógarþröstur og grágæs verpi þar. Allar þessar tegundir nema rjúpa og grágæs séu alfriðaðar, en rjúpa og grágæs veiðitegundir sem þó séu friðaðar á varptíma.

Hvorki rýrt mólendi né fábreytt fuglalíf

Náttúrustofa Norðurausturlands ritaði sveitarstjórn Norðurþings bréf í árslok 2023 þar sem lagst var gegn úthlutun sveitarfélagsins á landi þess til Yggdrasils, til skógræktaráforma í landi Saltvíkur, vegna fuglaverndunarsjónarmiða. Var óskað eftir að sveitarfélagið fyndi áformum um fyrirhugaða skógrækt í Saltvík annan stað. Tók Náttúrufræðistofnun Íslands undir þau sjónarmið í bréf til sveitarfélagsins í febrúar 2024.

Í afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings í ársbyrjun 2024 kom fram að skógur í Saltvík yrði ræktaður á rýru mólendi og fuglalíf þar væri fábreytt. Vísaði Náttúrustofa Norðausturlands því á bug. Upplýsingar bentu eindregið til að fyrirhuguð skógræktarsvæði í Saltvík og að Þverá hefðu þvert á móti hátt verndargildi, bæði hvað varðaði vistgerðir og fugla á héraðs-, lands- og heimsvísu. Alröng væri sú staðhæfing Norðurþings að á skógræktarsvæðinu í Saltvík væri einungis „rýrt mólendi“ og „fábreytt“ fuglalíf, sem lögð hefði verið til grundvallar ákvarðanatöku.

Frumkvæði sveitarfélagsins

Snemma árs 2024 veitti sveitarstjórn Norðurþings Yggdrasil Carbon framkvæmdaleyfi á grundvelli tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs sveitarfélagsins fyrir skógrækt á 160 ha svæði í landi Saltvíkur. Hófst herfing landsins til undirbúnings plöntunar 290 þúsund trjáa til kolefnisbindingar í framhaldinu. Markmiðið er að binda um 45 þúsund tonn af koltvísýringi á um 50 ára löngum verkefnistíma. Hefur núverandi framkvæmdastjóri og einn eigenda Yggdrasils, Hilmar Gunnlaugsson, áður bent á að frumkvæði að skógrækt við Saltvík hafi komið frá sveitarfélaginu og landeigandi Saltvíkur viljað búa til útivistarskóg fyrir íbúa sveitarfélagsins. Fá hreiður hafi verið á landinu þegar jarðvinnsla hófst, væntanlega vegna fugladauða af völdum hrets í sumarbyrjun.

Kæru náttúruverndarsamtakanna Náttúrugriða vegna framkvæmdanna var vísað frá seint á árinu 2024, á grundvelli þess að framkvæmdin hefði ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum og almannahagsmunasamtök hefðu því ekki kærurétt. Samtökin kærðu sveitarstjórn Norðurþings fyrir að veita Yggdrasil leyfi til framkvæmdanna, þrátt fyrir að Náttúrustofa Norðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands hefðu lagst gegn þeim.

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.