Gestir á málþinginu á dögunum.
Gestir á málþinginu á dögunum.
Mynd / smh
Viðtal 15. apríl 2025

Að rækta jarðveginn sinn

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson stunda „auðgandi landbúnað“ í sínum blandaða búskap í Lækjartúni í Ásahreppi.

Þau voru í litlum bændahópi sem stóð að skipulagningu á málþingi um þessa nálgun í landbúnaði sem haldið var 2. apríl, en þrír bandarískir sérfræðingar á þessu sviði voru fengnir til að halda fyrirlestra.

Markmiðið með auðgandi landbúnaði er fyrst og fremst að rækta jarðveg ræktarlanda og gera þau sjálfbær.

Höfðað til bænda og neytenda
Hulda Brynjólfsdóttir, bóndi í Lækjartúni í Ásahreppi.

Hulda Brynjólfsdóttir segir að gott samstarf sé á milli bændanna sem stóðu að skipulagningunni. En auk þeirra Tyrfings Sveinssonar eru í hópnum Haraldur Guðjónsson og Þórunn Ólafsdóttir frá Dalahvítlauk og þau Ævar Austfjörð og Ása Tryggvadóttir frá Litla búgarðinum. Hún segir að nokkur nöfn á mögulegum gestafyrirlesurum hafi fljótlega komið upp í samtölum þeirra og eftir fundi með fulltrúum bandaríska sendiráðsins á Íslandi fékkst stuðningur til að koma þremur bandarískum fyrirlesurum til landsins.

Hugmyndin hafi verið að ná til bænda en einnig neytenda og vekja til umhugsunar um ábyrga meðferð jarðvegs til matvælaframleiðslu.

Auðgandi áhrif á jarðveginn

Erin Sawyer, starfandi sendiherra sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík, var fyrst til að ávarpa gesti málþingsins og Hanna Katrín Friðriksson atvinnu- vegaráðherra gerði það í kjölfarið.

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor emirita í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, útskýrði hugmyndafræði auðgandi landbúnaðar og bar auðgandi áhrifin af honum á ástand jarðvegs saman við mögulegar hnignandi afleiðingar hefðbundins landbúnaðar.

Fyrsta eiginlega erindið flutti svo Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor emirita í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, sem útskýrði hugmyndafræði auðgandi landbúnaðar og bar auðgandi áhrifin af honum á ástand jarðvegs saman við mögulegar hnignandi afleiðingar hefðbundins landbúnaðar.

Jarðvegurinn og þarmaflóran

Þá var komið að bandarísku vísindakonunni dr. Kris Nichols, en hún leggur áherslu á að kanna líkindi milli lífvera í jarðveginum og örvera í þörmum með því að skoða kolefnislykilinn (e. carbon key), lykilbreytur eða mikilvæga þætti sem ráða því hvernig kolefni binst eða losnar úr jarðvegi. Í nálgun sinni byggir hún á grunni heilbrigðis jarðvegs, til að greina mismunandi aðferðir við landbúnaðarframleiðslu og með hvaða aðferðum megi fækka meindýrum, draga úr jarðvegseyðingu, minnka notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda frá landi.

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Byck sagði frá rannsóknum sem voru gerðar á sex árum með bændum og vísindamönnum og gerði heimildamynd um á meðan rannsóknin stóð yfir.

Afraksturinn af þeirri vinnu má sjá í þáttaröðinni „Roots So Deep (you can see the devil down there)“. Þá leikstýrði hann og framleiddi heimildarmyndina Carbon Nation, sem fjallar um hvernig sporna megi við loftslagsbreytingum með tæknilegum og samfélagslegum aðgerðum sem miða að því að draga úr kolefnislosun á heimsvísu.

Þriðji bandaríski gesturinn var dr. Allen Williams. Hann er sjötti ættliður bænda á fjölskyldubúi, en hann er doktor í erfðafræði búfjár og með meistaragráðu í dýrafræðum. Hann hefur leiðbeint meira en fjögur þúsund bændum á búgörðum í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Suður-Ameríku og fleiri löndum, um bætta búskaparhætti á allt frá nokkrum hekturum upp í meira en milljón hektara.

Allen og samstarfsmenn hans sérhæfa sig í skipulagningu heilla búgarða út frá hugmyndafræði auðgandi landbúnaðar, með það að markmiði meðal annars að bæta afkomu og efla tekjuleiðir búanna.

Markviss hólfaskipt beitarstýring

Þá sagði Hulda sjálf frá reynslu þeirra Tyrfings, en þau byrjuðu að nálgast auðgandi landbúnað í gegnum nautgriparækt sína, aðallega með markvissri hólfaskiptri beitarstýringu. Síðar hafa þau einnig beitt aðferðunum á sauðfé, hænur og svín, með mjög góðum árangri á jarðveginn, afurðir og afurðasöluna – en þau selja sínar afurðir beint frá býli.

Loks flutti dr. Susanne Möckel, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, erindi þar sem hún fór yfir eiginleika og möguleika íslensks jarðvegs í jarðsögulegu ljósi.

Mikill áhugi gesta

„Ég og við öll, erum gríðarlega ánægð með hvernig málþingið tókst. Það kom hellingur af fólki til að hlusta og það var svo frábært að sjá hversu áhugasamir áheyrendur voru. Þeir voru á staðnum allan tímann, allan daginn, og hlustuður af athygli. Það var spurt áhugaverðra spurninga og margra spurninga eftir hvern fyrirlestur og ekki nóg með það, gestirnir stöldruðu við eftir að málþingið var búið. Reyndu að sitja fyrir fyrirlesurunum og spyrja fleiri spurninga og ná spjalli sem er líka svo dýrmætt,“ segir Hulda.

„Ég verð líka að segja að erlendu fyrirlesararnir sem komu voru frábært tríó, hver á sínu sviði útskýrði svo vel það sem þeir höfðu fram að færa og á máli sem maður skilur. Það skiptir miklu máli. Stundum eru fræðimenn of tæknilegir í sínu máli, en þarna komst allt svo skýrt til skila. Og efnið sem þau fjölluðu um skaraðist og studdi hvert annars fyrirlestur, bara frábært. Við erum óendanlega þakklát fyrir stuðninginn sem við fengum, bæði frá bandaríska sendiráðinu og atvinnuvegaráðuneytinu, sem varð til þess að við gátum haldið málþingið án þess að rukka aðgangseyri. Það skiptir mjög miklu máli að mínu mati, sérstaklega þar sem þetta var í fyrsta skipti sem svona er haldið.“

Langar að hjálpa öðrum áhugasömum bændum

Varðandi næstu skref segir Hulda að það séu mörg fyrirhuguð. „Í búskapnum viljum við halda áfram að bæta jarðveginn og vinna með náttúrunni til að ná uppskeru og afurðum án þess að vera með himinháan tilkostnað alls staðar. Náttúran getur séð um þetta allt saman ef við hjálpum henni til þess og það er það sem okkur langar að halda áfram að gera.

En okkur langar líka að hjálpa öðrum ef þeir hafa áhuga á að skoða þetta betur – hvort sem það er í heild eða bara einhverja þætti auðgandi landbúnaðar. Því það eru svo mörg atriði og aðferðir sem rýmast innan þessarar hugmyndafræði. Þannig að næstu skref í því að upplýsa og fræða er mögulega að bjóða fólki í verklega fræðslu. Fá einhverja til að leiðbeina og fræða. Við getum gert það að einhverju leyti líka, en það er svo gott að fá fleiri en eitt sjónarhorn þegar verið er að skoða eitthvað sem er öðruvísi.“

Ætlar að framleiða eigin fræ til framræktunar

Hulda segir að eitt af meginmarkmiðum sínum sé að sem mest af þeim mat sem þau neyti heima sé framleiddur á bænum. „Þá er ég líka að hugsa um að geta mögulega framleitt og átt okkar eigin fræ að einhverju leyti til framræktunar.

Svo stefnum við bara á að endurtaka leikinn á næsta ári, fá fleiri fræðimenn til að segja frá og skilgreina fræðin á bak við þetta. Það væri alveg frábært.“

Málþingið var haldið með stuðningi frá sendiráði Bandaríkjanna, Landbúnaðarháskóla Íslands og atvinnuvegaráðuneytinu.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt