Slæm staða á Reykjum
Soffía Sveinsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu), hefur sent mennta- og barnamálaráðherra minnisblað vegna bágrar stöðu garðyrkjunámsins á Reykjum sem hefur verið rekið undir FSu frá árinu 2022.
Þar óskar hún eftir skýrri stefnumótun af hálfu ráðherra og ráðuneytisins hvað varðar garðyrkjunám á Íslandi.
Þörf á verulegu fjármagni

Að sögn Soffíu voru tveir starfshópar skipaðir sem áttu að skila tillögum til úrbóta. „Sá fyrri skilaði skýrslu í lok árs 2022, með metnaðarfullum tillögum, og síðan tók seinni starfshópurinn til starfa í ágúst 2023. Hann átti að fylgja fyrri niðurstöðum eftir og var gert ráð fyrir að hópurinn myndi skila drögum í október sama ár. Síðan er liðið eitt og hálft ár. Ásmundur Einar Daðason, þáverandi ráðherra, óskaði eftir að ég tæki saman minnisblað um stöðu mála þegar ég hafði nýlega tekið við skólameistarastöðunni. Þetta minnisblað sendi ég í ráðuneytið 13. febrúar en síðan hefur nýr ráðherra tekið við. Skólinn hefur átt gott samstarf við ráðuneytið en alþingiskosningar og mannabreytingar hafa tafið fyrir þessum málum.
Nú bíð ég átekta en það er alveg ljóst að það þarf að koma inn verulegt fjármagn inn í reksturinn á Garðyrkjuskólanum, bara svo hægt sé að halda við eðlilegri starfsemi og sinna viðhaldi. Svo þarf að efla námið og uppfæra námskrá, en hún var síðast uppfærð árið 2018.
Ég kalla í minnisblaðinu eftir pólitískri stefnu, hvað eigi að gera við garðyrkjunám á Íslandi. Mín skoðun, eftir þennan stutta tíma í starfi sem skólameistari, er sú að það eigi að gera garðyrkjunámið aftur að sjálfstæðri einingu og það legg ég til í minnisblaðinu sem fyrsta kost,“ segir Soffía og vísar þar til þess að skólinn starfaði sjálfstætt frá stofnun hans 1939 og þar til hann var sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands í byrjun árs 2005.
Til vara leggi hún til að starfsemin verði áfram undir FSu. Þá þurfi að koma til aukið fjármagn til að endurnýja húsakost en einnig til að hreinsa til á svæðinu eftir margra ára niðurníðslu, auk fjármagns til að endurskoða námsbrautir, efla starfsmenntanámið og fara í markaðsátak til að laða að yngri nemendur.

Hús á Reykjum verið dæmd ónýt
Soffía segir að Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir eigi húsbyggingarnar á lóð Garðyrkjuskólans, en þær séu margar í mjög slæmu ástandi. „Það er að vísu verið að sinna endurbótum á aðalbyggingunni sem er mjög jákvætt, en svo eru önnur hús á svæðinu sem hafa hreinlega verið dæmd ónýt. Mér er sagt af þeim sem vinna á Reykjum og þekkja þar best til að eitt af því brýnasta sé að laga aðstöðuna til kennslu, sem er að mörgu leyti orðin löngu úrelt.“
Sóknarfæri fyrir garðyrkjunámið á Reykjum
Soffía segir að með yfirfærslunni til Fjölbrautaskóla Suðurlands hafi verið talið að meiri samlegðaráhrif myndu nást með því að hafa námið undir skóla á framhaldsskólastigi frekar en á háskólastiginu.
„Raunin er hins vegar önnur enn sem komið er. Reykir eru í Ölfusi við Hveragerði en FSu á Selfossi og því áskorun að ná fram samlegð í rekstri á starfsstöðvum í sitthvoru bæjarfélaginu. Hér á Selfossi er staðnám, en í Garðyrkjuskólanum eru flestir í fjarnámi. Að auki eru nemendahóparnir mjög ólíkir, meðalaldur nemenda við FSu er um 18 ár en um 42 ár við Garðyrkjuskólann.“
Hún segir að fjármagnið sem skólinn fái í dag dugi varla til að standa undir lágmarksrekstri einingarinnar. Staðsetningin á Reykjum sé einstök og það séu heilmörg sóknarfæri fyrir garðyrkjunámið þar. Tillögur starfshópsins frá 2022 séu metnaðarfullar og vonandi verður hægt að tryggja fjármagn og hrinda þeim í framkvæmd sem fyrst.
Allt of fámennur starfsmannahópur

Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum og sviðsstjóri garðyrkjubrauta Fjölbrautaskóla Suðurlands, segir brýnast fyrir Garðyrkjuskólann núna að fjármagn verði tryggt í rekstur námsins.
„Staðan er ansi þröng og þessir fáu starfsmenn sem sjá um námið þurfa að hlaupa verulega hratt til að láta dæmið ganga upp. Fyrir flutninginn til FSu höfðu þó nokkrir starfsmenn hætt og ekki var ráðið inn fólk í þeirra stað þannig að það var allt of fámennur hópur sem fluttist yfir og ekki hefur fjölgað í hópnum aftur. Svo er ástandið á verknámsaðstöðu fyrir skrúðgarðyrkjunámið orðið ansi bágborið og algerlega nauðsynlegt að ráðast í að koma upp nýrri og nútímalegri aðstöðu í staðin