Landamærum lokað í Austurríki
Vegna útbreiðslu gin- og klaufaveiki hafa stjórnvöld í Austurríki ákveðið að loka landamærunum að Slóvakíu og Ungverjalandi.
Sjúkdómurinn breiðist helst út meðal svína og nautgripa, en hann berst ekki eingöngu beint milli dýra, heldur getur mannfólk flutt sóttina í klæðum sínum. Í þeim héröðum Slóvakíu og Ungverjalands sem liggja að Austurríki hafa fjölmörg tilfelli greinst. Frá þessu er greint í Kronen Zeitung.
Um helgina var samtals 23 landamærastöðvum lokað fyrir allri umferð og mun lokunin standa til 20. apríl. Er það gert til að vernda austurrískt búfé, en sóttin hefur ekki greinst í landinu síðan 1981. Bændum er bent á að vera sérstaklega á verði, bæði með því að gæta að hreinlæti og klæðast hlífðarfatnaði, ásamt því að skrásetja allar heimsóknir á bæinn og flutning dýra. Austurrísk stjórnvöld munu skima fyrir veikinni í landamærahéröðum á næstu vikum, en bændum er bent á að fylgjast vel með einkennum sem eru blöðrur, slappleiki og hiti. Ginog klaufaveiki smitast ekki í menn.