Framleiðsla á hliðarafurðum heldur áfram
Hvítlauksbændurnir hjá Dalahvítlauk hafa á undanförnum mánuðum þróað tvær nýjar afurðir, hvítlauks-„confit“ og hvítlaukssalt með blóðbergi, sem eru hliðarafurðir úr ræktun þeirra.
Uppskerubrestur varð í haust hjá þeim Þórunni Ólafsdóttur og Haraldi Guðjónssyni í Neðri-Brekku í Dölum vegna óhagstæðra veðurskilyrða á síðasta ári, sem var þeim mikið áfall þar sem þau höfðu gert samning um sölu á allri uppskerunni fyrir fram en áætlað var að hún yrði um þrjú til fjögur tonn. Þau sneru sér því meira að vöruþróun úr afgangs útsæði, en áður höfðu þau þróað hvítlaukssalt í samstarfi við Matís sem hefur notið mikilla vinsælda.

Hólmgöngu-Bersir
Vöruheiti hvítlauks-confit er „Bersir“, að sögn Haraldar, eftir landnámsmanninum sem nam land í Bersatungu í Dölum og var einnig kallaður Hólmgöngu-Bersir.
„Hvítlauks-confit er hvítlauksgeiri, sem er bakaður í ofni með vandaðri ólífuolíu við ákveðið hitastig í ákveðinn tíma. Við það verður hvítlaukurinn brúnn og mjúkur og náttúrulega sætan í honum kemur fram. Varan er seld í sams konar krukkum og hvítlaukssaltið ásamt þeirri olíu sem hann var steiktur í.
Hvítlaukssaltið heitir Skjöldur, því landið okkar hefur verið nefnt það, sem örnefni. Það er eins og skjöldur í laginu.
Auður djúpúðga
„Þriðja varan sem er að koma á markað er Hvítlaukssalt með íslensku blóðbergi. Sú vara mun heita Auður, í höfuðið á Auði djúpúðgu, landnáms- konunni sem bjó í Hvammi. Fjórða varan, sem er enn í þróun er hvítlauksolía og er reiknað með henni á markað í haust,“ heldur Haraldur áfram.
Aukið umfang ræktunarinnar
Að sögn Haraldar eru þau ekki af baki dottin í ræktuninni, enda unnið mikla undirbúningsvinnu síðustu árin á ræktarlandinu, og hafa aukið umfangið. „Við höfum hins vegar eytt mestum tíma að undanförnu í eldhúsi Matís við framleiðslu á þessum hliðarafurðum og erum með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur,“ segir Haraldur.
Hann bætir því við að vörurnar séu víða fáanlegar og þau hafi sjálf kynnt þær í verslunum á undanförnum vikum.