Auðgandi landbúnaður til umræðu á málþingi
Málþing um auðgandi landbúnað (e. regenerative agriculture) verður haldið 2. apríl á Hótel Hilton.
Þar munu þrír bandarískir fyrirlesarar og í það minnsta tveir íslenskir tala um þessa nálgun í átt að bættum jarðvegi í ræktarlöndum bænda.
Hulda Brynjólfsdóttir, bóndi í Lækjartúni í Ásahreppi og eigandi spunaverksmiðjunnar Uppspuna, er í hópi hvatamanna málþingsins og mun flytja erindi um sína reynslu af aðferðinni sem hefur verið stunduð í Lækjartúni frá 2019. Hún segir að forsögu málþingsins megi rekja til fundar nokkurra bænda snemma á síðasta ári.
„Þá komum við saman, Haraldur Guðjónsson og Þórunn Ólafsdóttir frá Dalahvítlauk, við Tyrfingur Sveinsson, Lækjartúni og þau Ævar Austfjörð og Ása Tryggvadóttir frá Litla búgarðinum. Við ræddum möguleikann á því að halda málþing og við vorum öll mjög áhugasöm um það. Því næst funduðum við með rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og fulltrúum þaðan til að ræða hvernig mætti koma þessu til veruleika.“ Höfðu þau þá þegar nokkur nöfn þekktra aðila frá Bandaríkjunum sem gætu verið áhugasamir um að koma til Íslands og segja frá hvernig þessi aðferð virkar í þeirra landi.
„Hugmyndin er að ná til bænda og annarra sem rækta mat, hvort sem er kjöt eða grænmeti, á stórum skala eða bara í garðinum við húsið sitt. Ná til neytenda og hvetja þá til að taka upplýsta ákvörðun um hvernig mat þeir leggja sér til munns og vekja almenning til umhugsunar um ábyrga meðferð jarðvegs og meðhöndlun efna, svo sem áburðar, eiturefna og svo framvegis í ræktun matvæla,“ heldur Hulda áfram.
„Ákveðið var að leita til bandaríska sendiráðsins um stuðning til að koma fyrirlesurunum til landsins og var það gert með mjög jákvæðum árangri. Fullur styrkur var veittur til að fá fyrirlesara og þökkum við sendiráðinu kærlega fyrir stuðninginn. Þrír aðilar eru á leiðinni til landsins og munu dvelja hér í einhverja fleiri daga en einungis málþingsdaginn. Farið verður með þá í skoðunarferðir og heimsóknir til bænda,“ segir Hulda.
Ekki liggja fyrir drög að dagskrá en að sögn Huldu verður hún fljótlega kynnt.