Axel Sæland, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar í Reykholti, ræktar um 20% afskorinna blóma á innlendum markaði. Hann telur að auka megi framleiðslu á landsvísu um allt að 30%. Nærfellt öll framleiðsla Espiflatar selst jafnharðan enda blóm vinsæl vara.
Axel Sæland, eigandi garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar í Reykholti, ræktar um 20% afskorinna blóma á innlendum markaði. Hann telur að auka megi framleiðslu á landsvísu um allt að 30%. Nærfellt öll framleiðsla Espiflatar selst jafnharðan enda blóm vinsæl vara.
Mynd / sá
Viðtal 10. apríl 2025

Tíu milljónir afskorinna blóma ræktuð á Íslandi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Íslensk blóm eru ræktuð með vistvænum hætti allt árið með hjálp jarðvarma, vaxtarlýsingar og lífrænna varna.

Íslenskir blómabændur rækta fjölmargar tegundir afskorinna blóma, pottaplantna, sumarblóma og garðplantna. Allt er þetta gert sitt með hverju laginu þegar kemur að ræktunaraðferðum og vinnuumhverfi. Um tíu garðyrkjubændur sinna blómamarkaðinum í afskornum- og pottablómum. Sumarblómaframleiðendur eru svo enn annar geirinn innan blómaframleiðenda og eru þeir fjölmargir og víða um land.

Svigrúm fyrir aukningu

Axel Sæland rekur, ásamt konu sinni, Heiðu Pálrúnu Leifsdóttur, garðyrkjustöðina Espiflöt í hjarta Reykholtsþorpsins í Bláskógabyggð. Hann er jafnframt formaður deildar garðyrkjubænda Bændasamtaka Íslands.

Espiflöt sérhæfir sig í afskornum blómum. Aðspurður um hver heildarframleiðsla afskorinna blóma sé árlega á Íslandi segir Axel að tölur séu nokkuð á reiki þar sem talnagögnum sé ekki safnað sérstaklega í innlendri blómarækt. Hann giskar þó á að á Íslandi séu framleiddar um tíu milljónir afskorinna blóma.

„Fyrir hrun töldum við innlendir framleiðendur afskorinna blóma okkur vera með um 80% af markaðinum, á móti 20% innflutningi. Í hruninu fórum við í 100% hlutdeild af því að blóm urðu gríðarlega dýr í innflutningi. Eftir hrun, og eftir því sem krónan styrktist, hneig þetta aftur í 80% / 20% og ég held að við séum frekar að gefa eftir í dag á þessum markaði af því að aðgangur að vöru erlendis er orðinn auðveldari og fólk leitar í meiri fjölbreytni, sem er skiljanlegt. Það verður alltaf erfitt fyrir innlenda framleiðendur að keppa í fjölbreytninni en við getum keppt í magninu. Ég gæti trúað að innanlandsframleiðslan sé á bilinu 70–75% í dag,“ segir hann. Espiflöt framleiði um tvær milljónir blóma árlega. „Tilfinning hjá okkur hefur verið að við séum með um 20% af markaðinum,“ bætir hann við.

Ræktendur afskorinna blóma halda ekki í við aukningu á eftirspurn. Axel kveður söluaukningu mikla. „Ef við segjum að framleiðslan á ári séu tíu milljónir blóma þá held ég að við ættum að geta farið í tólf til þrettán milljónir hér innanlands. Það væri vel gerlegt og væru um 4.000–6.000 m2 af gróðurhúsum í viðbót inn á markaðinn.“

Markviss umhverfisvæn skref

Garðyrkjustöðin er 7.700 m2 og af því eru 7.000 m2 undir gleri en 700 m2 í aðstöðuhúsi og starfsmannaaðstöðu. 18 eru á launaskrá og að jafnaði 16 ársverk. Espiflöt er innleggjandi hjá Grænum markaði og blómabíll þaðan sækir blóm til dreifingar og sölu fimm sinnum í viku.

Rósir taka mesta plássið í húsunum, í 2.600 m2 , krýsi er í 1.200 m2 , gerberur í 800 m2 , sóllilja í 500 m2 , aðrar liljur í 1.200 m2 og önnur ræktun þar fyrir utan.

Því hefur verið fleygt að Axel lifi fyrir rósirnar sínar og að grúska í lífrænum vörnum fyrir alla ræktunina. Hann segir uppáhaldsrósayrkið vera Red Eagle enda sé það mjög gjöfult. Rauði rósaliturinn sé alltaf vinsælastur. Sólliljan sé hins vegar það blóm sem gefi mest og best af sér, geti orðið 20 ára gömul, sé öflug, meindýr sæki lítt í hana, hún sé þægileg í ræktun og standi tvær til þrjár vikur í vasa.

Garðyrkjustöðin Espiflöt er 7.700 m2 að stærð og af því eru 7.000 m2 undir gleri en 700 m2 í aðstöðuhúsi og starfsmannaaðstöðu. 18 eru á launaskrá og að jafnaði 16 ársverk í stöðinni.

Blómaframleiðendur fá ráðgjöf, m.a. gegnum Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Haldnir eru ræktunar- og fagfundir þar sem bornar eru saman bækur t.d. í loftslagsstýringum, vökvun eða meðhöndlun plantna. Þá eru gjarnan fengnir erlendir ráðunautar inn á gólf í stöðvarnar sem fara yfir hvað gera má betur skv. bestu viðmiðum í Evrópu. Kveður Axel það hafa komið greininni mjög til góða.

Espiflöt er annáluð fyrir umhverfishugsun, þ.á m. í endurnýtingu á vatni, lífrænum vörnum og moltugerð úr affalli. „Við höldum okkar aðgerðum í þessum efnum talsvert á lofti. Ég leyfi mér að fullyrða að allir blómaræktendur í dag séu að færast í þessa átt, ef ekki meðvitað þá ósjálfrátt,“ segir hann og bætir við að þau á Espiflöt hafi tekið markviss umhverfisvæn skref:

„Fyrsta risaskrefið var í kringum árið 2000 þegar við tileinkuðum okkur af alvöru að nota lífrænar varnir í ræktuninni í staðinn fyrir varnarefni. Við höfum náð ótrúlega góðum árangri í því. Ef þú ert að vinna með fjölær blóm inni í stýrðu umhverfi þá hefurðu meiri möguleika á að nota lífrænar varnir.“ Þau flytji inn um hálfa milljón skordýra á viku. Axel segir þessa aðferð dýrari en varnarefnanotkun en miklu heilbrigðara umhverfi að vinna í, fyrir fólk, blóm og umhverfi. „Svo fórum við 2018 í að endurnýta áburðarvatnið frá plöntunum. Upp úr 2010 fórum við að huga að vistvænni umbúðum og höfum verið að skoða þau mál síðan og áskoranir verið ýmsar á þeirri leið.“ Nú er Espiflöt að kynna til sögunnar 100% endurunnar plastumbúðir sem ættu að henta víðast og vonast þau til að stíga þar enn eitt umhverfisvænt skref.

Sérhæfa sig í fjölbreytni

„Við sérhæfum okkur í fjölbreytni,“,segir Axel og hlær við. „Okkar sérhæfing er blandaðir blómvendir. Öll blómin í vöndunum ræktum við sjálf. Við flytjum svo inn grænt fylliefni til að gera vendina skemmtilegri, eftir því hvaða tíska er í gangi hverju sinni. Við erum með fimm grunntegundir; rósir, gerberur, krýsa, sóllilju og liljur og bætum svo við eftir árstímum öðrum tegundum. Statika er einnig að ryðja sér til rúms í grunntegundunum. Við horfum til þess að vera með stöðugt framboð allt árið, minna í sveiflum en auðvitað gefum við í eins og við getum fyrir t.d. konudag og mæðradag, þessa stóru blómvandadaga.“

Á Espiflöt er töluvert ræktað í vikri og rauðamöl sem eru næringarsnauð steríl efni og drena vel. Plönturnar liggja því aldrei í vatni og eru alltaf í fersku umhverfi. Næring til plöntunnar kemur öll með vatninu sem hripar gegnum pottana, plantan tekur upp það sem hún þarf af vatni og næringu og skilar frá sér því sem hún er ekki að nota lengur. Vatnið fer í rennur, svo með lögnum í tanka sem grafnir hafa verið í jörð. Vatninu er síðan dælt upp, það hreinsað með síum, hitað til sótthreinsunar gegn bakteríum og er eftir það kælt og notað aftur.

Stór hluti ræktunarinnar er þó í mold, einkum plöntur sem þola þurrk betur. Þegar skipt er um plöntur er jarðvegurinn bættur með moltu sem er í stöðugri vinnslu á Espiflöt, svo sem í liljugróðurhúsi þar sem enginn úrgangur er af jarðvegi heldur er hann stöðugt moltaður aftur. Yfir árin safnast sá jarðvegur upp og þá er notað af honum til að jarðvegsbæta önnur hús.

T.h. Helga Kristinsdóttir, starfsmaður Espiflatar, ásamt viðskiptavini í blómakaupum.

Hugleiða stækkun

Espiflöt er ein elsta garðyrkjustöð landsins, stofnuð fyrir 76 árum. Axel og Heiða hafa rekið hana sl. 13 ár. „Maður er náttúrlega alltaf með einhverja drauma,“ segir Axel. „Pabbi var mjög ýtinn við mig, þegar við Heiða komum inn í fyrirtækið, um að vera með framtíðarsýn. Ekki staðna, ekki vera bara ánægður þar sem þú ert, heldur taka alltaf virk skref áfram til að halda fyrirtækinu inni í nútímanum og sjá tækifærin á markaðinum. Ég tel afar mikilvægt að tileinka sér þessa hugsun, hún heldur manni ferskum og áhugasömum um allt sem er að gerast í bransanum.

Síðasta sumar endurbyggðum við 1.200 m2 gróðurhús til að færa það inn í nútímann. Við byggðum síðast nýtt gróðurhús árið 2020, í Covid, 1.100 m2 rósahús, til að svara markaðinum, en blómasala jókst gríðarlega um allan heim í Covid þegar fólk vantaði eitthvað hlýtt inn í híbýli sín. Við byggðum kæli- og tæknirými 2017 og núna finnum við fyrir að það er pláss á markaðinum og erum að skoða að stækka. Landið okkar er þó nánast búið og umleitanir um landkaup af m.a. nágrönnum hafa ekki borið mikinn árangur. Við erum því að skoða hvort við eigum hreinlega að rífa elstu gróðurhúsin og byggja ný. Yfirleitt er pláss í kringum gróðurhúsin sem mætti þá nýta betur til að stækka ræktunarrýmið.“

Hann segir að með nútíma gróðurhúsum sé unnt að uppskera 50–100% meira. Þau séu öðruvísi byggð en gömlu hefðbundnu A-húsin, og með það í huga að unnt sé að hafa meiri lofthæð, rými fyrir betri ljósabúnaði, auðveldari loftslagsstýringu, betri nálgun á plöntunni og vinnu- og ræktunarumhverfi. Þau séu tæknilegri og hægt að fara í miklu meiri nákvæmnisstýringu sem skili sér hratt. Öll stýring sé sjálfvirk í tölvukerfi sem láti vita af frávikum.

Þau hugleiða að koma sér upp varaaflstöð, fyrst og fremst til að halda dælum og stýribúnaði gangandi í rafmagnsleysi. Heita vatnið sé grunnauðlind garðyrkjustöðvarinnar. „Það er ástæðan fyrir því að við erum einmitt hér, enda er Reykholt auðugt af heitu vatni. Við búum að gríðarlega öflugu hitaveitukerfi og sveitarfélagið stendur afar vel með okkur og sinnir okkur mjög vel. Ef rafmagn fer af þá setur sjálfvirkt kerfi dísilrafstöð í gang sem tryggir heitt vatn til okkar. Að vetri til myndi ræktunin annars bara frjósa og deyja. Garðyrkjan er grunnatvinnugrein í sveitarfélaginu og mikill velvilji í hennar garð. Við garðyrkjubændur í Reykholti styðjum hver annan vel og tölum mikið saman. Þetta er mjög nærandi og heilbrigt umhverfi að vera í,“ segir hann.

 Litskrúðugir og frísklegir blómvendir eru aðalsmerki stöðvarinnar og þeir renna út eins og heitar lummur.
Tollavitleysa og raforkuhækkanir

Tollar á innfluttum blómum hafa nokkuð verið til umræðu hin síðari ár. Ruglingi veldur að Evrópustaðallinn miðast við kíló en innflutningstölur á Íslandi við stykki. Eru dæmi um að kíló af blómum hafi orðið að stöku blómi á innflutningspappírum. Axel veltir því upp hvort ekki þurfi að hætta að telja innflutt blóm í stykkjum heldur láta tolla miðast við grömm og kíló. Þetta þurfi blómabændur að skoða ítarlega með viðkomandi ráðuneyti og tolli.

Þá hefur raforkuumhverfi garðyrkjunnar verið mjög í kastljósinu eftir 25% hækkun um áramótin og frekari hækkanir líklegar. Garðyrkjan náði samningi um fast raforkuverð til eins árs sl. haust en fyrirsjáanleikinn er lítill þar sem raforkusalar geta ekki tryggt sig lengra fram í tímann en ár í senn. „Maður veit ekki hvort komið er að sársaukamörkum þar sem innviðir fara að gefa eftir eða að ríkið sér hag sinn í að taka virkilega á málunum,“ segir Axel um þetta.

Hann er þó ánægður með viðleitni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að koma á fót fjárfestingarstuðningi til garðyrkjunnar, með það að markmiði að taka inn orkusparandi led-lýsingu í stað hefðbundins ljósabúnaðar sem notar allt að helmingi meiri raforku. Garðyrkjubændur gætu nýtt þetta tækifæri til að auka framleiðslu og spara raforkunotkun í senn. Jafnframt mætti hugsa sér að stuðningurinn næði yfir einangrun gróðurhúsa, þ.e. gluggatjöld sem endurkasta ljósi innanhúss þegar sólarljóssins nýtur ekki við, sem er stóran hluta ársins hér á landi, og auka þannig uppskeru. Led-ljós gefa ekki frá sér varma eins og hefðbundin lýsing svo þá þarf að nota meira heitt vatn og slík endurkastandi einangrun fer betur með varmann. Að sögn Axels gæti þó tekið um áratug fyrir alla garðyrkjubændur að tileinka sér lausnir slíks fjárfestingarstuðnings.

Áskoranir bara verkefni

Blómabændum virðist almennt hafa vegnað ágætlega frá miðjum síðasta áratug og eftirspurn eftir framleiðslu þeirra verið mikil. „Við seljum nánast allt af því sem við framleiðum hér og okkur hefur alla jafna gengið vel. Blóm eru frekar vinsæl í dag og því ekki yfir miklu að kvarta þar fyrir blómabændur,“ segir Axel.

Hvað hann sjálfan varði mæti hann alltaf í vinnuna spenntur fyrir deginum. „Það sem gefur mér mest í þessari vinnu er hversu áskoranir eru margar. Það heldur mér ferskum og öflugum, myndi ég segja, því áskoranir eru bara verkefni. Ef maður getur tamið sér það hugarfar að horfa á þetta sem verkefni en ekki vandamál, verða dagarnir mikið auðveldari,“ segir Axel að endingu.

- framhald á síðu 46 í nýjasta tölublaði Bændablaðsins

Skylt efni: blómabændur | Espiflöt

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt