Jafnvægisverð 250 krónur
Markaður með greiðslumark í mjólk var haldinn þann 1. apríl og náðu viðskiptin yfir 839.986 lítra.
Greiðslumark sem boðið var til sölu voru alls 1.132.969 lítrar frá 23 aðilum, á meðan 27 bændur gerðu kauptilboð í 928.000 lítra. Við opnun tilboða er reiknað út svokallað jafnvægisverð sem öll viðskiptin fara fram á. Að þessu sinni var það 250 krónur á lítra, sem er sama upphæð og á síðasta tilboðsmarkaði í nóvember, og voru viðskiptin að andvirði 209.996.500 króna. Í gildi er ákvörðun ráðherra um að hámarksverð skuli vera þrefalt afurðastöðvaverð, sem við lok tilboðsfrests var 411 krónur fyrir hvern lítra.
Kaupendur með tilboð á jafnvægisverði eða hærra voru 24 á meðan þrír bændur buðu of lágt og gátu ekki keypt. Seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra voru 18 talsins á meðan fimm kúabændur buðu sitt greiðslumark yfir jafnvægisverði og gátu ekki selt. Nánar er greint frá málinu á vef atvinnuvegaráðuneytisins.