Boðar nýtt frumvarp um samruna afurðastöðva
Atvinnuvegaráðherra segist munu leggja fram eigið frumvarp sem leyfi samruna kjötafurðastöðva innan marka Samkeppniseftirlits.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði á fundi með bændum á Austurlandi að hún muni í haust leggja fram nýtt frumvarp um samruna kjötafurðastöðva. Frumvarp hennar um að afnema samráðsheimild afurðastöðva væri ekki afturvirkt.
Á fundi sem haldinn var á Eiðum, í fundaferð BÍ og atvinnuvegaráðherra, urðu talsverðar umræður um samruna afurðastöðva, kaup KS á Kjarnafæði Norðlenska og undanþágulög síðustu ríkisstjórnar sem heimiluðu sameiningu kjötafurðastöðva. Kom fram í svörum Hönnu Katrínar að frumvarpið um brottfall undanþágulaga yrði hvorki afturvirkt né myndi það stöðva samrunann. Hæstiréttur muni í maí skera úr um hvort hann standi.
Hún sagði undanþágulögin hafa gengið of langt í að girða fyrir aðkomu Samkeppniseftirlitsins. Löggjafinn gæti ekki leyft sér slíkt. Hagræðing afurðastöðva væri mikilvæg en ekki sama hvernig slíkt væri gert. Ná yrði til baka að samkeppnislöggjöfinni og eftirlitinu væri kippt úr gildi. Ekki stæði til að bregða fæti fyrir afurðastöðvarnar en gera yrði hlutina rétt og það myndi sýna sig að bændur og landbúnaðurinn yrðu ekki verr staddir eftir.
„Ég mun síðan leggja fram í haust mál sem miðar að því að leyfa samruna, eðlilegan samruna án þess að kippa þessu mikilvæga eftirliti Samkeppniseftirlitsins úr sambandi,“ sagði Hanna Katrín og útilokaði þannig ekki að samruni í hagræðingarskyni yrði mögulegur.
Fram kom í máli Aðalsteins Jónssonar, bónda í Klausturseli á Jökuldal, að honum væri óskiljanlegt af hverju stjórnvöld ætluðu að fella samráðsheimild afurðastöðvanna úr gildi. Ekki væri um samkeppni milli fátækra afurðastöðva hér innanlands að ræða heldur væri samkeppnin við innflutt matvæli.