Skepnur út undan í almannavörnum
Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástandi.
Dýraverndarsambands Íslands (DÍS) telur nauðsynlegt að staða dýra í almannavarnaástandi verði styrkt og hefur leitað til dómsmálaráðuneytis þeirra erinda.
„Dýraverndarsamband Íslands átti fund með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins í byrjun febrúar. Þar lýsti Dýraverndarsambandið því sem við teljum vera óviðunandi stöðu, þar sem dýr eiga það til að gleymast í viðbrögðum við náttúruvá. Ráðuneytinu var afhent greinargerð, þar sem helstu sjónarmið koma fram. Það sem snýr að ráðuneytinu er að skoða hvort ástæða sé til að skerpa á lögum um almannavarnir, þannig að þau taki betur mið af lögum um velferð dýra sem tóku gildi seinna,“ segir Andrés Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri DÍS.
Hvað varðar framkvæmd rýminga og áætlanir þeim tengd, segir hann þau mál á könnu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og almannavarnanefnda sveitarfélaga.
Gripahús á hættusvæðum
Samtökin telja stöðu dýra á hættutímum ekki nægjanlega góða. „Dæmin úr Grindavík veturinn 2023–24 og í Neskaupstað eru það sem setti yfirstandandi vinnu Dýraverndarsambandsins af stað, en mál af þessum toga koma reglulega upp. Til dæmis má nefna samtal sem fór af stað í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010, þar sem bændur stóðu sumir ráðþrota gagnvart því hvernig væri hægt að koma dýrum í skjól,“ útskýrir Andrés.
Hann segir að þegar horft er til hættunnar af ofanflóðum sé ágætlega kortlagt hvaða sveitarfélög búi við mestu hættuna. Hins vegar sé bara nýbyrjað að horfa til atvinnuhúsnæðis þegar kemur að ofanflóðavörnum og gripahús oft skipulögð á svæðum þar sem hætta geti komið upp.
„Ef litið er á nýjustu dæmin sést að hvers konar dýr geta verið í hættu. Þegar Grindavík var upphaflega rýmd, þá urðu kindur og gæludýr eftir. Í seinni rýmingum Grindavíkur snéri vandinn mestmegnis að sauðfé. Við rýmingu í Neskaupstað var það hesthúsahverfi sem ekki var rýmt að fullu,“ segir Andrés.
Vilja sterkari ákvæði í lögum
DÍS hefur kallað eftir því að dýr séu skilgreind sérstaklega í lögum um almannavarnir og þeim bjargað strax og fólki hefur verið komið í öruggt skjól. „Þetta kallar sennilega á lagabreytingar, en við setningu dýraverndarlaga voru ekki gerðar breytingar á lögum um almannavarnir, sem mögulega þarf að gera til að þau endurspegli sterkari stöðu dýravelferðar í gildandi lögum. Dýraverndarsambandið leggur áherslu á að úr því sé bætt og hefur lagt til eftirfarandi breytingar sem mætti nota til að ná mun betur utan um vernd dýra í almannavarnarástandi:
Talað sé um dýr í markmiðsákvæði laganna í 1. gr., sem í dag fjallar aðeins um almenning, umhverfi og eignir. Lögreglustjóra sé veitt skýr heimild í 23. gr. til að fjarlægja dýr af ákveðnum svæðum á hættustundu. Bætt sé tilvísun til dýra í 24. gr. um flutning fólks af hættusvæðum, eða að ný grein bætist við lögin er fjalli sérstaklega um flutning dýra af hættusvæðum,“ segir Andrés.