Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja rækt við náttúru og samfélag í staðinn fyrir að áhrifin verði neikvæð.
Haldin var ráðstefnan Nordic Regenerative Tourism á Siglufirði og Hólum í Hjaltadal 11. til 13. mars síðastliðinn. Var hún lokahnykkurinn á norrænu verkefni um nærandi ferðaþjónustu sem Íslenski ferðaklasinn hefur leitt fyrir Íslands hönd.
Ólöf Ýrr Atladóttir stýrir verkefninu fyrir hönd ferðaklasans, en hún er fyrrverandi ferðamálastjóri og rekur nú ferðaþjónustuna Sóti Summits nyrst á Tröllaskaga.
Rætur í landbúnaði og arkitektúr
„Nærandi ferðaþjónusta er íslenskt heiti yfir „regenerative tourism“. Þetta er heildræn nálgun, þar sem ferðaþjónusta er skilgreind sem hluti af samfélagi og umhverfi og skilgreinir sig innan þess, frekar en sem utankomandi aðili. Hún hefur óhjákvæmileg áhrif á umhverfi sitt og verður fyrir áhrifum af því, bæði þessu náttúrulega og því mannlega,“ segir Ólöf.
„Fyrirtæki sem tileinka sér hugmyndir um nærandi ferðaþjónustu bjóða gjarnan upp á þjónustu sem tekur mið af viðhorfum íbúa þerra svæða sem hún starfar á, þjónustar ferðamenn í sátt við vilja heimamanna og leitast við að bæta lífsgæði og auðga tilveruna á einhvern hátt.“ Íbúarnir þurfi jafnframt að geta verið stoltir af þeirri afþreyingu sem er veitt og hún má ekki valda þeim auknu álagi. Þá geti nærandi ferðaþjónusta leitt af sér þekkingaröflun sem nýtist bæði nærsamfélaginu og ferðaþjónustuaðilum.
„Rætur nærandi ferðaþjónustu liggja í landbúnaði annars vegar og arkitektúr og hönnun hins vegar. Þessi heildræna hugsun um að allir hlutir verði fyrir áhrifum hver af öðrum er tekin upp innan ferðaþjónustunnar, en auðvitað er ferðaþjónustan allt öðruvísi atvinnugrein en arkitektúr og landbúnaður,“ segir Ólöf. Nærandi ferðaþjónusta er á margan hátt svipuð nálgun og í „regenerative agriculture“, sem væri hægt að kalla nærandi eða vistvænan landbúnað á íslensku, og „regenerative architecture“, sem gæti þá kallast nærandi arkitektúr á íslensku.
Meira en efnahagslegur ávinningur
„Þetta snýr að því að með ferðaþjónustunni sé ekki eingöngu verið að horfa á efnahagslegan ábata, heldur er ferðaþjónustan að stuðla að því að samfélag dafni og það sé gaman að búa þar,“ segir Ólöf. Hún tekur til dæmis sjálfbærnistefnu Síldarminjasafnsins á Siglufirði þar sem hún þekkir til. Stefnan hafi leitt af sér mikið starf sem lýtur að íbúunum. „Safnið býður meðal annars hópum af eldra fólki, ungum mæðrum og skólakrökkum á allskonar viðburði sem eru sérstaklega ætlaðir íbúum og leggur til sína sali þannig að hægt sé að vera með fræðslufundi og dagskrá sem er ekki endilega fyrir ferðamenn,“ segir Ólöf. Síldarminjasafnið sé með þessu ekki eingöngu að skapa störf og tekjur, heldur einnig að efla menningarlíf bæjarfélagsins.
Annað dæmi sem Ólöf nefnir er Guðmundur Jónasson ehf. sem keyrir eldri borgara í matvöruverslunir einu sinni í viku. „Svo hafa þeir frá upphafi verið áfram um að hlúa að og vera með sjálfbærnihugsun í öllum sínum störfum gagnvart náttúrunni.“ Þá nefnir hún fleiri fyrirtæki víða um land sem leitast við að gefa til baka, bæði til umhverfisins og samfélagsins.
Ólöf segir að innan verkefnisins um nærandi ferðaþjónustu á Norðurlöndum hafi á undanförnum þremur árum verið lögð áhersla á að „efla smáfyrirtæki í að taka fyrstu skrefin í átt að nærandi ferðaþjónustu, að þróa ferðir sem bjóða gestum upp á að gefa til baka til áfangastaðarins, að rýna í matsaðferðir og mælingar á áhrifum ferðaþjónustunnar og að skoða með hvaða hætti viðhorf nærandi ferðaþjónustu geta orðið þáttur í almennri stefnumótun.“
Samkvæmt henni var ráðstefnan vel sótt og héldu ýmsir sérfræðingar erindi. Þar má nefna Bill Reed, arkitekt sem hefur verið brautryðjandi í nærandi arkitektúr sem miðar að því að byggingar hafi jákvæð áhrif á vistkerfi og samfélag. Þar hélt jafnframt erindi Daniel Baertsch, sem hefur langa reynslu af nærandi landbúnaði í Sviss. „Ég held að nærandi ferðaþjónusta sé frábær nálgun hér á Íslandi. Landið okkar einkennist af viðkvæmri náttúru og litlum bæjarfélögum, og smæð okkar skapar kjöraðstæður til þess hlúa að heildinni í allri okkar vinnu,“ segir Ólöf að lokum.