Strandirnar standa sterkari eftir
Strandamenn hafa staðið í átaki til að stöðva fólksfækkun og efla innviði og atvinnulíf.
Lokið er sérstöku átaksverkefni á Ströndum, Sterkar Strandir, en það hófst árið 2020 og hafði að markmiði að stöðva áframhaldandi fólksfækkun, styrkja innviði, efla atvinnulíf og byggja upp stolt og sjálfbært samfélag á Ströndum. Var verkefnið hluti af Brothættum byggðum, áætlun Byggðastofnunar til að styðja við byggðarlög sem standa höllum fæti.
Í lokaskýrslu segir að verkefnið hafi lagt „grunn að mikilvægum breytingum og stuðlað að varnarsigrum á svæði sem hefur lengi glímt við fólksfækkun og veikingu innviða. Þátttaka íbúa og frumkvæði heimamanna voru lykilatriði í þeim árangri sem náðist. Það er þó ljóst að meginmarkmiðið – að sporna við fólksfækkun – náðist ekki, en verkefnið náði að hægja á fækkuninni og skapa forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu.“
Bætt lífsgæði á svæðinu Íbúar
Strandabyggðar voru 421 í lok árs 2024, samanborið við 436 í upphafi verkefnisins árið 2020. Þrátt fyrir fækkun eru tölurnar sagðar sýna ákveðinn stöðugleika miðað við þróun undanfarinna ára.
Mikil vinna var lögð í að reyna að styrkja innviði. Þó að ekki hafi náðst að ljúka sumum verkefnum er tekið fram í skýrslunni að grunnur hafi verið lagður að áframhaldandi þróun. Alls voru veittir 73 styrkir til frumkvæðisverkefna úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda á verkefnistímabilinu og heildarupphæðin nam 73.020.000 krónum. Vinnu við þessi verkefni mun að mestu lokið.
Íbúaþing var haldið í upphafi verkefnisins og skoðanakönnun gerð í lok þess. Þykir verkefnið hafa valdeflt íbúa. Verkefni eins og nýsköpun í matvælavinnslu, uppbygging menningarverkefna og efling ferðaþjónustu eru sögð hafa leitt til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífi og bættra lífsgæða á svæðinu.
Áfram verður haldið
„Lokun Hólmadrangs árið 2023 var reiðarslag sem reyndi á þol og úthald samfélagsins, en aðgerðir til að mæta því, eins og stofnun Vilja – nýrrar fiskvinnslu, sýna hvernig samstaða og útsjónarsemi íbúa getur umbreytt áskorunum í tækifæri. Verkefnið náði miklum árangri gegnum sitt framlag til að sækja byggðakvóta, koma á Strandanefndinni, aðstoð við frumkvöðla, og koma á jarðhitaleit, svo eitthvað sé nefnt,“ segir enn fremur í lokaskýrslu.
Strandabyggð hefur nú tekið við keflinu og mun leiða verkefnið áfram, þrátt fyrir að því sé lokið af hálfu Byggðastofnunar.