Eins og undanfarin ár var danska fagþingið vel sótt bæði af dönsku og erlendu fagfólki í nautgriparækt.
Eins og undanfarin ár var danska fagþingið vel sótt bæði af dönsku og erlendu fagfólki í nautgriparækt.
Á faglegum nótum 4. apríl 2025

Ótrúlegt ár að baki hjá dönskum nautgripabændum

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hið árlega danska fagþing danskrar nautgriparæktar, Kvægkongres, var haldið í lok febrúar og eins og venja er var fagþingið einkar áhugavert enda dönsk nautgriparækt með þeirri fremstu í heiminum og endurspegluðu erindi fagþingsins þá stöðu í raun vel.

Fagþingið, sem stóð eins og áður yfir í tvo daga, var sem fyrr bæði aðalfundur þarlendra nautgripabænda og fagleg ráðstefna með tugum fróðlegra erinda. Í þessari grein verður gripið niður í fyrri dag fagþingsins, þegar aðalfundurinn sjálfur fór fram.

Ótrúlegt ár að baki

Aðalfundinn settu þau Christian Lund, formaður danskra nautgripabænda, og Ida Storm, sem er framkvæmdastjóri félagsskaparins. Þau komu inn á hreint ótrúlega góðan árangur danskra nautgripabænda í mjólkurframleiðslu árið 2024, en afkoma danskra kúabúa hefur aldrei verið eins mikil og síðasta ár. Sagði Christian að hann hefði ekki upplifað annað eins þau 25 ár sem hann hefur verið starfandi í greininni. Meðalhagnaður kúabúanna, sem vel að merkja eru nú að slá í 280 árskýr, hafi verið hátt í 40 milljónir íslenskra króna og útlitið fyrir 2025 sé að árið verði jafnvel enn betra! Hann lagði áherslu á að bændur þyrftu að nota núverandi meðbyr og búa sig vel undir framtíðina. Það umhverfi sem búgreininni hafi verið skapað nú um stundir gefi núverandi bændum, og komandi kynslóðum, tækifæri til að tryggja öfluga framtíð danskrar mjólkurframleiðslu.

Christian Lund, formaður danskra nautgripabænda, hafði ástæðu til að gleðjast yfir einstökum árangri danskrar mjólkurframleiðslu árið 2024

Hátt afurðastöðvaverð lykillinn

Hinn einstaki árangur byggir fyrst og fremst á afar háu afurðastöðvaverði til bænda en þess má geta að nú í mars er afurðastöðvaverð Arla, stærsta samvinnufélags kúabænda í Danmörku, um 83 íslenskar krónur fyrir lítrann. Þetta er hæsta verð sem félagið hefur nokkurn tímann haft og á sama tíma eru dönsku kúabúin með mjög mikla mjólkurframleiðslu hvert þeirra, sem svo skilar sér beint í stóraukinni veltu vegna hins háa afurðastöðvaverðs. Samkvæmt ársuppgjöri þarlenda skýrsluhaldsins voru dönsku kúabúin með 275 árskýr reikningsárið 2024 og hafa búin stækkað jafnt og þétt ár eftir ár, nú í marga áratugi. Ekkert land Evrópusambandsins er með viðlíka bústærð þegar horft er til mjólkurframleiðslu auk þess sem meðalafurðir danskra kúabúa eru líklega einnig hæstar þegar horft er til annarra landa í Evrópu, en hún var að jafnaði 11.496 kg í fyrra á árskúna og þá eru talin með öll kúakynin. Af einstökum kúakynjum er Holstein auðvitað afurðahæsta kúakynið í Danmörku með 12.190 kg að meðaltali og 913 kg verðmætaefna (fitu- og prótein kíló) í fyrra.

Það liggur því í augum uppi að dönsk kúabú eru að framleiða gríðarlegt magn mjólkur hvert og eitt, væntanlega að jafnaði í kringum þrjár milljónir lítra hvert. Þetta eru því í dag stórar rekstrareiningar en þó nánast undantekningarlaust fjölskyldubú, þ.e. ekki rekin af einhverjum stórum fyrirtækjum eins og þekkist í mörgum löndum víða um heim. Vegna hinnar hagstæðu bústærðar, ásamt hinni miklu meðalnyt kúnna, eru hin ytri rekstrarskilyrði búgreinarinnar nú að skila sér beint til bænda í formi tugmilljóna hagnaðar.

Hagstæðir þríhliða samningar

Undanfarin ár hafa bændur víða í Evrópu þurft að sætta sig við alls konar hertar ytri kröfur, sérstaklega þegar horft er til umhverfismála. Þannig kom t.d. fram á fundinum að í Hollandi væru kröfurnar svo stífar að þarlendir kúabændur væru sumir hverjir að bregða búi og aðrir að draga úr framleiðslu búa sinna. Væru þarlendir bændur í raun þannig að fara gegn hagræðingarmöguleikanum sem fælist í stærðarhagkvæmni svo dæmi sé tekið.

Vitandi hver staðan var í mörgum löndum í Evrópu, fóru dönsku Bændasamtökin í mjög áhugaverðar viðræður við stjórnvöld og náðu einstökum samningi í fyrra. Þessi rammasamningur, sem var gerður á milli dönsku Bændasamtakanna, stjórnvalda með breiðum stuðningi nánast allra stjórnmálaflokka og dönsku náttúruverndarsamtakanna, kallast einfaldlega „Samningur um græna Danmörk“ og er mikill tímamótasamningur. Í honum felst m.a. að settar verða kröfur um hámarks losun gróðurhúsalofttegunda og farið í leiðir til að draga úr þeim einnig m.a. með því að fækka landbúnaðarlandi um 400 þúsund hektara, eða sem svarar til eyjanna Bornholm eða Fjóns og nemur 15% af núverandi landbúnaðarlandi. Þetta land fær aðra notkun svo sem skógrækt, verður að mýrlendi eða náttúrusvæði.

Þetta hljómar e.t.v. ekki sérlega vel í eyrum íslenskra bænda en tilfellið er að nú þegar er land að fara úr ræktun, m.a. vegna fækkunar búa og þetta er samningur til langs tíma svo danskir bændur telja þetta vel ásættanlegt. Þess utan færir samningurinn þeim undanþágu frá sótsporskröfunni til ársins 2030, þ.e. næstu 5 ár geta þeir nýtt sér vel og búið sig undir veruleika þar sem sótspor skapar kostnað á hverju búi, svokallaður CO2 skattur verður lagður á danskan landbúnað 2030. Dönsk mjólkurframleiðsla þarf ekki að kvíða þess tíma, þegar sótsporsskattur verður lagður á árið 2030, enda er hún þegar með eitt allra lægsta sótspor í heimi á hvern framleiddan lítra mjólkur. Danmörk verður þá, árið 2030, fyrsta landið í heiminum þar sem settur verður sérstakur framleiðsluskattur á sótsporsmagn landbúnaðarframleiðslu og verður fróðlegt að fylgjast með framkvæmd þessarar skattheimtu sem nemur um 12.000 íslenskra króna á hvert tonn kolefnisígildis sem losnar við landbúnaðarframleiðslu.

En Christian Lund hvatti félagsmenn sína einnig til þess að skoða sitt land, meta hvort eitthvað af því megi taka úr notkun. Land sem væri ekki að gefa mikið af sér og gæti e.t.v. hentað til að endurheimta votlendi eða t.d. land sem mætti taka úr notkun sem stæði næst ám eða lækjum. Með því tækju kúabændur ábyrgð og sýndu að þeim væri alvara með því að gera langtímasamning, gegnt því að fá stöðugt starfsumhverfi.

Tryggir nýliðun

Hinn nýi rammasamningur dansks landbúnaðar gildir til margra ára og sagði Christian það gefa einstakt færi fyrir búgreinina að festa sig enn frekar í sessi án þess að eiga á hættu að starfsumhverfið breytist mikið á komandi árum. Það gerði svo það að verkum að ungt fólk getur tekið við og sér fyrir sér framtíð í mjólkurframleiðslu, það væri grundvallaratriði enda unga fólkið framtíð greinarinnar. Einmitt með það í huga kynnti hann svo búfræðinema ársins, en árlega eru nokkrir búfræðingar heiðraðir fyrir störf sín í verknámi á ársfundi dönsku nautgripasamtakanna. Í ár var það hann Lars-Emil Birkelund Stamp sem fékk heiðurstitilinn Búfræðinemi ársins 2025 og fékk vegleg peningaverðlaun að auki. Samkvæmt áliti dómnefndar fékk Lars-Emil þessa vegtyllu fyrir þær sakir að vera lausnamiðaður og að hafa sýnt frumkvæði í því að meta stöðu landbúnaðarins með bæði þarfir neytenda og bænda í huga.

Lars-Emil vann heiðurstitilinn Búfræðinemi ársins 2025.

Ástæða til bjartsýni

Thomas Carstensen, einn af varaforstjórum Arla, flutti einnig erindi á ársfundinum og sagði fulla ástæðu til bjartsýni enda væri nú um stundir mun meiri eftirspurn eftir mjólk en framboð. Heimsaukningin á mjólkurframleiðslunni í ár væri talin vera um 1,7% en eftirspurnin væri að aukast um 1,9%. Í slíku árferði væru litlar sem engar líkur á því að afurðastöðvaverð myndi lækka. Thomas sagði sérstaklega að mikil aukning í neyslu væri í Asíu og Afríku og skýrðist það af bæði auknum fólksfjölda þar en einnig hækkandi tekjum fólks sem héldi uppi eftirspurninni. Reyndar benti hann einnig á að í Asíu hafi bændum tekist að snarauka mjólkurframleiðsluna en þar væru þó enn sóknarfæri fyrir evrópskar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði, markaðurinn væri einfaldlega svo stór.

Evrópu- og Norður-Ameríkumarkaðurinn stöðugur

Í máli Thomas kom fram að markaðsaðstæður í Norður-Ameríku væru nokkuð stöðugar, Arla væri bæði með afurðavinnslu í Kanada og Bandaríkjunum svo mögulegt tollastríð hefði lítil áhrif á félagið. Báðir markaðir eru að skila vel en séu stöðugir. Þá sagði Thomas að Evrópumarkaðurinn væri einnig stöðugur, þar væri mjólkurframleiðslan aðeins að dragast saman vegna stífra umhverfiskrafa sumra landa og hás framleiðslukostnaðar í öðrum löndum. Þessi lönd væru því að gefa eftir. Sem dæmi nefndi hann að talið væri að mjólkurframleiðsla Hollands myndi dragast saman um 30% á komandi árum vegna umhverfiskrafna. Þessi staðreynd væri í raun vatn á myllu danskra kúabænda, sagði hann, og gæfi færi á sókn.

Árið 2025 stefnir í met

Þó svo að enn hafi bara verið febrúar þegar fagþingið fór fram, voru forsvarsmenn dönsku nautgriparæktarinnar bjartsýnir í ræðum sínum og sérstaklega hvað varðar mjólkurframleiðslu. Bændur gætu átt von á að árið endi ekki síðra en 2024 og jafnvel enn betra. Fátt bendi til þess að afurðastöðvaverð taki að lækka í bráð og á sama tíma sé verð á hrávörumarkaði stöðugt eða jafnvel lækkandi sem hefur bein jákvæð áhrif á rekstur kúabúa. Þessi staða væri í raun einstök og því þyrftu bændur að nota tækifærið og styrkja bú sín, gera þau enn sterkari til að geta tekist á við mögulega ágjöf í framtíðinni og gera þau þannig enn betur samkeppnishæf.

Í næsta tölublaði Bændablaðsins verður haldið áfram með umfjöllun um danska fagþingið og þá gripið niður í nokkrar málstofur og erindi sem voru flutt á ráðstefnuhluta fagþingsins.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...