Danir vinna nú hörðum höndum að því að breyta landnotkun sinni verulega, draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr útskolun köfnunarefnis frá landbúnaði.
Danir vinna nú hörðum höndum að því að breyta landnotkun sinni verulega, draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr útskolun köfnunarefnis frá landbúnaði.
Mynd / femo
Utan úr heimi 8. apríl 2025

Stórátak í breyttri landnotkun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Dönsk stjórnvöld áætla að breyta ríflega 15% af ræktuðu landi Danmerkur í m.a. skóg og náttúruleg búsvæði, í þeirri viðleitni að draga úr áburðarnotkun.

Pólitískt samkomulag um innleiðingu grænnar Danmerkur, eða „Græni þríhliða samningurinn“, var samþykktur síðla árs í fyrra og miðar að því að breyta landnotkun í Danmörku verulega, draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr útskolun köfnunarefnis frá landbúnaði. Áburðarnotkun í landbúnaði er talin hafa leitt til alvarlegrar súrefnisþurrðar í fjörðum og í sjó umhverfis Danmörku, sem og taps á sjávarlífi.

Danska ríkið hyggst taka frá 43 milljarða danskra króna, einkum til uppkaupa lands af bændum næstu tvo áratugi, skv. opinberum upplýsingum um Grøn trepart-samninginn. Hann er sagður leggja línurnar fyrir matvælaframleiðslu til framtíðar, draga úr loftslagsfótspori, styrkja vistkerfi, vernda drykkjarvatn og ýta undir lífræna ræktun. Jafnframt er reynt að tryggja að danskur landbúnaður verði áfram öflugur og samkeppnishæfur.

Danmörk er eitt mest ræktaða land heimsins og er ræktunarland þar talið nema um 2,5 milljónum hektara, eða um helmingi landsins en það er alls 42.952 ferkílómetrar að stærð.

Framkvæmd fjölmargra þátta samningsins er talin verða flókin, en mun að mestu byggjast á frjálsri þátttöku og bótagreiðslum.

Helstu atriði samningsins

Helstu atriði Græna þríhliða samningsins eru innleiðing CO2e-skatts (koltvísýringsjafngildis-skatts) í áföngum (frá 2028 til 2035), sem miðar að losun frá búfé, mólendi, kölkun og F-lofttegundum (fluorine), allt frá 5 evrum/tonn CO2e fyrir mýrlendi, upp í 40 evrur/tonn CO2e á losun búfjár, þegar skatturinn verður að fullu innleiddur 2030. Bændur munu njóta 60% grunnfrádráttar á losun og geta mögulega komist hjá kolefnisgjaldi með því að lækka losun niður í grunnfrádrátt. Tekjur af kolefnisgjaldi eiga að renna aftur til landbúnaðarins, í grænar fjárfestingar.

Komið verður á fót „grænum sjóði“ í þeim tilgangi að að taka frá ríflega 15% af landbúnaðarlandi Danmerkur til skógræktar, hnitmiðaðs landbúnaðar, endurheimtar mólendis og eflingar líffræðilegrar fjölbreytni. Rækta á um 250 þúsund hektara af nýjum skógum og endurvæta um 140 þúsund hektara af kolefnisríku mólendi.

Þá er sett á ný reglugerð til að styrkja regluverk um losun köfnunarefnis og komið á fót stuðningi við bindingu kolefnis, með notkun lífkolefnis í jarðveg. Einnig á að samræma framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðarstefnu Evrópu (CAP) til að styðja við minnkun á losun köfnunarefnis.

Kolefnisgjaldið verður endurskoðað árið 2032.

Dregið mjög hratt úr losun

Loftslagslög frá árinu 2020 skuldbinda Danmörku til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70% fyrir árið 2030 og að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

Landbúnaður er stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda í Danmörku og landbúnaðargeirinn gegnir því lykilhlutverki í hinu græna átaki, með markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaðargeiranum (LU) um 55–65% fyrir árið 2030 og að draga úr afrennsli köfnunarefnis um 13.780 tonn fyrir árið 2027, í samræmi við vatnatilskipun ESB.

Sem land með mikla losun frá landbúnaði, en um leið mjög hagkvæma matvælaframleiðslu, er Danmörk sögð standa frammi fyrir þeirri tvíþættu áskorun að draga úr losun á sama tíma og landið haldi hlutverki sínu í matvælaframleiðslu á alþjóðavísu. Græni samningurinn var staðfestur af fulltrúum frá stjórnvöldum, samtökum landbúnaðarfyrirtækja, umhverfisverndarsamtökum, verkalýðsfélögum og hagsmunaaðilum iðnaðarins. Samkomulagið var svo lagt fyrir danska þingið og samþykkt þar 18. nóvember 2024 með breiðum meirihluta.

Ræðst af skilvirkni og eftirliti

Samningurinn er sagður geta orðið birtingarmynd þess hvernig verðlagningaraðferðir fyrir losun landbúnaðar geti dregið úr gróðurhúsalofttegundum og á sama tíma stutt græn umskipti greinarinnar ef aðgerðir eru vel og nákvæmlega útfærðar.

Græni þríhliða rammasamningurinn er talinn vera fordæmisgefandi um hvernig draga megi úr umhverfisáhrifum landbúnaðar, en raunveruleg áhrif hann muni þó ráðast af mjög skilvirkri framkvæmd og ströngu eftirliti. Gangi það eftir geti hann knúið fram umbreytingar til góðs, bæði í dönskum og alþjóðlegum matvælakerfum.

Skylt efni: Danmörk

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...