Hringrásargarðar á Íslandi
Hugmyndin um hringrásargarða hefur rutt sér til rúms sem leið að vistvænni iðnþróun í sátt við umhverfi og samfélag og er beintengd heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SÞ), sérstaklega markmiðum 9 og 12 um uppbyggingu á umhverfisvænum iðnaði og ábyrgari framleiðsluferlum.

Metnaður hringrásargarða er að lágmarka ágang í auðlindir jarðar og nýupptöku hráefnis með því að nýta þá efnisog orkustrauma sem ganga frá og milli fyrirtækja sem starfa innan iðngarðsins. Lykilhugtök eru samlífi (e. symbiosis) og víxlverkun (e. interaction), t.d. þannig að úrgangur frá starfsemi eins eða fleiri fyrirtækja sé efniviður í starfsemi annarra fyrirtækja sem starfa innan garðsins og þau eigi sameiginlega hagsmuni í samvinnu og samþættingu, t.d. með því að deila kostnaði tengt þjónustu, viðhaldi og innviðum og að þau njóti ávinnings af markaðssetningu á iðngarðinum sem umhverfisvænni og samfélagslega ábyrgri starfsemi. Þannig er hugmyndin að baki hringrásargörðum náskyld hugmyndum um iðnaðar- og nýsköpunarklasa sem í útfærslu um hringrásargarða hefur umhverfissjónarmið og endurnýtingu auðlinda að leiðarljósi.
Á Íslandi hefur hugtakið um „græna“ iðngarða verið nokkuð áberandi í stefnumótun sveitarfélaga og hafa þróunarfélög verið stofnuð í kringum uppbyggingu þeirra t.d. á Grundartanga og á Bakka við Húsavík. Þá eru taldar til auðlindir í þeim tilgangi að laða að fyrirtæki sem gætu nýtt og notið nálægðar við þá efnis- og orkustrauma og haft afnot af innviðum garðsins. Yfirleitt er einhvers konar hringrás höfð til hliðsjónar en oftast er þó ekki sérstaklega tekið á mögulegri sérstöðu iðngarðsins (e. specialisation).
Auðlindagarður HS Orku á Reykjanesi og jarðhitagarður ON á Hellisheiði eru dæmi um sérstöðu íslenskra iðngarða sem hafa hringrás, samlífi og sjálfbærni að leiðarljósi. Sérstaða þeirra felst í hagnýtingu jarðvarma til orkuframleiðslu og framboði hliðarafurða sem verða til í jarðvarmavirkjunum. Verðmæt hliðarafurð er t.d. í formi koltvísýrings sem nýta má til framleiðslu á rafeldsneyti eða til ylræktar þar sem koltvísýringur er nauðsynlegur í ljóstillífunarferli plantna. Varmi frá orkuverunum er einnig verðmæt hliðarafurð sem nýta má á ýmsa vegu. Báðir þessir iðngarðar hafa skýra og verktæka sýn á fullnýtingu auðlindarinnar og mikilvægi hringrásar.
Önnur útfærsla hringrásargarða eru svokallaðir landbúnaðargarðar (e. agriindustrial parks). Ekki hefur verið fjallað sérstaklega um slíka iðngarða á Íslandi en markmið þeirra er ræktun og framleiðsla á matvælum og að hagnýta það sem til fellur frá þeirri starfsemi t.d. til framleiðslu á lífgasi og lífmetani, rafmagni, hita, lífkoltvísýringi, fóðri og lífrænum áburði. Þessar afurðir eru eftirsótt markaðsvara en ætti fyrst að nýtast fyrirtækjum innan landbúnaðargarðsins með sjálfbærni og markvissa hagnýtingu að leiðarljósi. Þannig gegna landbúnaðargarðar lykilhlutverki í hugmyndum um lífhagkerfi sem byggir á hringrás, grænum virðiskeðjum og tækifærum til verðmætasköpunar milli fyrirtækja innan landbúnaðargarðsins og við fyrirtæki í nágrenni hans.

Landbúnaðargarðar byggja einnig á hugmyndum um samlífi (e. symbiosis) fyrirtækja innan iðngarðsins t.d. með að framleiða lífgas úr mykju, heyfyrningum, úrgangi frá ylrækt og öðrum lífrænum úrgangi t.d. frá landeldi og til framleiðslu á áburði úr meltunni sem gengur af lífgasframleiðslunni. Lífgas er samsett að mestu úr metangasi og lífkoltvísýringi sem verður til við gerjun lífrænna efna. Ylrækt gæti nýtt metangasið til raforkuframleiðslu og varma og lífkoltvísýring til nota í gróðurhúsum sem gæfi aftur af sér úrgang til lífgasframleiðslu. Sömuleiðis getur smáþörungarækt nýtt sér afurðir garðsins. Smáþörungarækt er vaxandi atvinnugrein sem framleiðir próteinríka fæðu, litarefni, lípíð eða önnur verðmæt efnasambönd. Dæmi um slíkt fyrirtæki er VAXA sem er staðsett í jarðhitagarðinum á Hellisheiði.
Endurnýting og ummyndun lífhráefna er lykilstef í landbúnaðargörðum en slíkir garðar líkt og aðrir hringrásargarðar byggja líka á hugmyndum um iðnaðar- og nýsköpunarklasa þar sem verður til þekking, reynsla og menning bæði innan iðngarðsins og við nærsamfélag og aðra hagaðila. Tækniþróun á sviði matvælaframleiðslu er líka mikilvægur hluti iðngarðsins t.d. innleiðing gervigreindar við eftirlit og ákvarðanatöku og sjálfvirkni og notkun þjarka sem sæju um umhirðu og uppskeru. Þannig gæti, í kringum kjarnastarfsemi landbúnaðargarðsins, þróast frjótt umhverfi nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðla sem hafa ávinning af nálægð við bæði efnisstrauma og sérfræðiþekkingu iðngarðsins. Sem hliðarstef, gæti iðngarðurinn jafnvel verið áfangastaður fyrir ferðamenn. Vísir að slíku er til í Reykholti í uppsveitum Árnessýslu, í fyrirtækinu Friðheimum sem hefur samtvinnað ylrækt og ferðaþjónustu í áfangastað sem nýtur mikilla vinsælda meðal ferðalanga, innlendra og erlendra. Í Reykholti er verið að ráðgera lífgas- og áburðarvinnslu úr lífrænum straumum úr ylrækt og kúabúskap og þar með nýta lífauðlindir betur.
Á Íslandi leynast tækifæri til þróunar landbúnaðargarðs í landrými með aðgengi að háspenntri raforku t.d. á Strönd milli Hellu og Hvolsvallar í Rangárvallasýslu. Þar hefur sveitarfélagið deiliskipulagt 76 hektara sem grænan iðngarð með skýrum leiðbeiningum um hringrás efna og orku og leitar nú að rekstraraðilum. Í nágrenni iðnaðarsvæðisins er tengipunktur við dreifikerfi Landsnets og möguleiki á 15-25MW af raforku. Nægt vatn er á svæðinu og aðrir nauðsynlegir innviðir t.d. samgönguog samskiptainnviðir sem gerir svæðið fýsilegt fyrir landbúnaðargarð. Strönd er á miklu landbúnaðarsvæði sem er mikilvægt út frá þekkingaryfirfærslu, menningu þeirra sem yrkja landið og staðbundinni þekkingu og reynslu á aðstæðum og möguleikum.
Hringrásargarðar eru ein leið að sjálfbærri þróun iðnaðar og atvinnulífs á Íslandi sem er aðlagað að nýjum kröfum og strangara regluverki um að draga úr umhverfisáhrifum og stuðla að skilvirkari nýtingu auðlinda, auk þess sem Ísland þarf að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsaðgerðir og sjálfbærni. Hér hefur t.d. ekki verið tæpt á möguleikum tengt kolefnisbókhaldi iðngarða og þá á viðskiptum með kolefniseiningar sem er vaxandi markaður. Landbúnaðargarðar geta gegnt mikilvægu hlutverki m.t.t. þessa og ekki síst til fæðuöryggis þjóðarinnar og nýsköpunar almennt. Með sameiginlegri framtíðarsýn og samvinnu má útfæra hringrásargarða að sérstöðu og þörfum íslensks samfélags með ávinning fyrirtækja og verndun umhverfis að leiðarljósi.