Tækifæri í kolefnisjöfnun
Undanfarin ár hefur verið nokkur umræða um kolefnisjöfnun sem loftslagsaðgerð. Bundnar hafa verið miklar vonir við þessa aðferð og hún aukist mikið að umfangi.

Á sama tíma hefur hún fengið á sig harða gagnrýni fyrir að afvegaleiða loftslagsumræðuna með því að færa athyglina frá samdrætti í losun yfir á kolefnisjöfnun, sem í besta falli væri aukaatriði í loftslagsbaráttunni en í versta falli grænþvottur. Umræðan einkennist oft af óreiðu þar sem mikið ber í milli í skoðunum og hugtakanotkun er óljós. Þá er laga- og regluverk varla til staðar og lukkuriddarar virðast ríða feitum hestum inn og út af vellinum eftir hentugleika.
Ríkisstofnanir og sveitarfélög eru skylduð til að kolefnisjafna á hinum valkvæða kolefnismarkaði. Þeim ber að setja sér loftslagsstefnu sem inniheldur áætlun um aðgerðir til kolefnisjöfnunar og ef þau eru þátttakendur í Grænu skrefunum eiga þau að kolefnisjafna flugferðir. Spurningin er þá með hvaða hætti sveitarfélögin ættu að kolefnisjafna?
Á Vestfjörðum eru sveitarfélögin að vinna að gerð loftslagsstefna og vegna þessarar ríku kröfu um kolefnisjöfnun var ákveðið að Vestfjarðastofa myndi vinna skýrslu um málið með tillögum um aðgerðir. Verkís var fengið til liðs við Vestfjarðastofu. Skýrslan kom út í desember 2024 undir nafninu Kolefnisjöfnun á Vestfjörðum og má auðveldlega finna hana á heimasíðu Vestfjarðastofu, vestfirdir. is. Í eftirfarandi grein er að finna helstu niðurstöður hennar. Jafnframt kom nýverið út skýrsla starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Kolefnismarkaðir - Áskoranir og tækifæri í íslensku samhengi, og talar þessi grein að hluta til inn í niðurstöður hennar.
Kanínuholan „valkvæði kolefnismarkaðurinn“
Við fyrstu skoðun á valkvæða kolefnismarkaðinn er það kannski svipuð reynsla og hjá Lísu í Undralandi sem elti kanínu niður í holu og endaði í veruleika Undralands sem er fullkomlega óskiljanlegur þeim sem þangað kemur.
Framleiðsla og viðskipti með kolefniseiningar (e. carbon credit) er hinn efnislegi kjarni kolefnisjöfnunar á valkvæða kolefnismarkaðnum og utan um það er lítið sem ekkert regluverk. Þó hefur kolefnisjöfnun verið skilgreind í lögum um loftslagsmál sem eftirfarandi:
„Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti.“
„Hlutast til“ á við um þegar aðili kaupir kolefniseiningar sem að hluta til fjármagna verkefni sem draga úr losun og/eða binda kolefni. Á heimsvísu eru ótrúlega fjölbreytt verkefni sem uppfylla þessa skilgreiningu: vatnsaflsorkuver í Kína, bætt einangrun húsa í Slóvakíu, uppsetning orkunýtinna eldunarhellna í Afríku og uppsetning bílarafhleðslustöðva á Íslandi. Íslendingar þekkja flestir kolefniseiningaframleiðslu af verkefnum í skógrækt, endurheimt votlendis og bindingu í jarðlög. Verðið á þessum einingum er afar misjafnt, allt frá örfáum hundraðköllum upp í rúmar sjö þúsund krónur. Verðmyndun á grunneiningunni er ekki gagnsæ og sýnir það í raun veikleika valkvæða kolefnisjöfnunarmarkaðarins. Á yfirborðinu eru allar kolefniseiningar eins. Þær fela í sér sönnun á að eitt tonn af kolefni hafi verið sparað. Eininguna má þá færa í kolefnisbókhald á móti losun, tonn á móti tonni. Það er því freistandi að ætla að það ætti að vera eitt heimsmarkaðsverð á kolefniseiningum, rétt eins og á gulli og olíu. Það er þó ekki raunin og eru forsendur flóknari en svo að þær ráðist einvörðungu af framboði og eftirspurn. Til dæmis virðast áreiðanleiki vottana og annað samfélaglegt gildi verkefna í kolefniseiningaframleiðslu hafa veruleg áhrif á verð eininga.
Í fyrrnefndri skýrslu Stjórnaráðsins er kolefniseining skilgreind með þeim hætti að hún sanni að eitt tonn af koldioxíði hafi verið sparað andrúmsloftinu. Sönnunin á gjörningnum er aðalmálið og skýrir að einhverju leyti þann mikla verðmun sem áður var rætt, því sannanirnar eru misgóðar.
Einingar sem keyptar eru geta verið bæði vottaðar og óvottaðar. Vottunarferli er í raun sönnunar- og staðfestingarferli og ef vottunaraðferðir og óháði vottunaraðilinn eru fagleg og góð þá getur það aukið gæði sönnuninnar og þar með aukið verðgildi hennar. Óvottuð eining er tæplega réttnefnd kolefniseining vegna þess að allt sönnunarferli vantar og í skýrslu Vestfjarðastofu er ráðlagt gegn kaupum á slíkum einingum og ávallt skyldi kaupa vottaðar einingar í hæsta gæðaflokki. Að sama skapi mælir Umhverfisstofnun einungis með kaupum á einingum af kolefnisvettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem allar eru vottaðar.
Annað flækjustig þegar kemur að kolefniseiningum eru svokallaðar einingar í bið. Það er algengt að í skógræktarverkefnum séu seldar einingar í bið, þar sem skógurinn á enn eftir að vaxa og árangurinn ekki staðfestur. Það er í sjálfu sér í lagi, en það má ekki færa þessar einingar í kolefnisbókhald fyrir en þær eru komnar úr bið. Enn eru nokkur ár í það að fyrstu vottuðu skógræktarverkefnin á Íslandi verði tekin út og einingarnar verði virkar og hægt sé að færa þær í kolefnisbókhald.
Endurheimt votlendis
Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar er að endurheimt votlendis sé einn vænlegasti kosturinn til þess að standa að framleiðslu kolefniseininga og kolefnisjafna.
Í nafni framfara voru íslenskir bændur áður styrktir til að ræsa fram votlendi út um allar koppagrundir. Það er svo ekki fyrr en áratugum seinna sem menn gerðu sér grein fyrir neikvæðu afleiðingunum: framræstu mýrarnar losa gróðurhúsalofttegundir í stórum stíl, yfirleitt um 19,5 tonn á hektara á ári. Það sem verra er, er að þær halda áfram að losa þetta magn í árhundruð – um 6 milljón tonn á ári – sem er næstum því helmingurinn af allri losun á Íslandi. Allir bílarnir, öll skipin og bátarnir, öll samfélagslega losunin er 2,8 milljón tonn.
Þetta er ekki bara hræðileg staðreynd heldur líka stórt tækifæri.
Undanfarin ár hefur lítið gerst í endurheimt votlendis á Íslandi, meðal annars vegna þess að ekki var til aðferðafræði til að mæla árangur endurheimtarinnar sem er forsenda vottunar. Það stendur til bóta og má búast við að verkefni á þessu sviði geti hafist á ný.
Tvennt gerir endurheimt votlendis í stórum stíl að góðum kosti. Annars vegar er talsvert af þessu framræsta votlendi ekki í notkun sem landbúnaðarland og því litlir sem engir hagsmunir í að halda því óbreyttu. Hins vegar virðist fjárhagslega hagkvæmt að stofna til verkefna sem gefa af sér kolefniseiningar, þar sem kostnaður per hektara er lágur, bindingin er mikil og önnur áhrif jákvæð.
Óháð jákvæðum loftslagsáhrifum er endurheimt votlendis afar jákvæð fyrir fugla, fiska og líffræðilega fjölbreytni. Votlendi er eins og svampur sem miðlar vatni í þurrkum og dregur úr flóðum og er því mikilvæg aðgerð fyrir loftslagsaðlögun.
Í ár fer hiti á jarðarvísu í fyrsta sinn yfir 1,5 gráður miðað við fyrir iðnbyltingu. Það er fulljóst að loftslagsbreytingum munu fylgja gríðarlegar áskoranir fyrir samfélag manna. Endurheimt votlendis virðist vera aðgerð sem hefur raunverlegan loftslagsávinning auk þess sem hún getur verið hagkvæm fjárhagslega.