Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um nýjan verðlagsgrundvöll kúabús. Grundvöllurinn hafði þá þegar verið birtur í fundargerð verðlagsnefndar búvara, nánar tiltekið 385. fundar sem haldinn var 29. október sl.
Eldri verðlagsgrundvöllur kúabús tók gildi 1. janúar 2001 og miðaðist hann við 40 kúa bú með 188.000 ltr innlegg á ári. Undirritaður þekkir þann grunn og forsendur hans ágætlega, þar sem hann hafði það að hlutastarfi á bútæknideild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins árið 1998 að gera vinnumælingar hjá bændum vegna þeirrar endurskoðunar sem þá stóð yfir. Nokkur fjós sem mælingarnar fóru fram í eru enn í notkun, en ég hygg að þeim hafi öllum verið breytt í grundvallaratriðum síðan þá, yfirleitt í lausagöngu með mjaltaþjóna. Ástæða er til að þakka fráfarandi verðlagsnefnd fyrir það frumkvæði að ráðast í endurskoðun grundvallarins, þó ég hafi ýmislegt við niðurstöðurnar að athuga.
Hagkvæm stærð og rekstur?
Um verðlagsgrundvöll kúabús segir í 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993: „Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum.“ Nýjasta verðlagsuppfærsla grundvallarins frá 2001 er frá í september 2024 og er heildarkostnaður við framleiðsluna samkvæmt honum 305 kr/ltr. Hinn nýi grundvöllur miðast við að þar sé 61 kú í 1.100 fermetra fjósi með mjaltaþjóni og ársinnlegg sé 377.901 ltr. Samkvæmt nýjustu verðlagsuppfærslu nýja grundvallarins frá 2024, er heildarkostnaður við framleiðsluna reiknaður 306 kr/ltr, eða jafnmikið og á grundvallarbúi með aldarfjórðungs gamlar forsendur. Samkvæmt forsíðufrétt Bbl. 5. desember sl. eru heildartekjur kúabænda nú um stundir að jafnaði 198,4 kr/ltr. Þegar ég sá þessa niðurstöðu komu í huga mér ljóðlínur Jónasar Hallgrímssonar, úr ljóði hans Ísland: „Hvað er orðið okkar starf í sex hundruð sumur? Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?“ Á þeim tíma sem liðinn er frá því að núverandi grundvöllur var tekinn í notkun hefur búum fækkað úr um 1.000 niður í rúmlega 450, meðalbúið hefur þrefaldast að stærð; farið úr rúmlega 100 þúsund lítra ársframleiðslu upp í um 330 þúsund lítra og meðalnyt kúnna hefur aukist um 30%. Í upphafi aldarinnar voru örfá mjaltaþjónabú, í dag fer 85% mjólkurinnar um slíkan búnað og allt tæknistig greinarinnar er mun hærra nú en þá. Er það virkilega þannig að þessi þróun hafi ekki skilað neinni hagræðingu? Hvað þýðir það fyrir íslenska mjólkurframleiðslu?
Ríflegur breytilegur kostnaður
Í áðurnefndri fundargerð verðlagsnefndar eru helstu forsendur grundvallarins tíundaðar. Þar kemur fram að vægi kostnaðarliða komu úr rekstrarverkefni RML sem byggir á gögnum frá 176 kúabúum árið 2022. Mitt bú er eitt af þeim, og þegar ég ber saman breytilegan kostnað á nýja grundvallarbúinu og mínu eigin, er hann 16% lægri hjá mér. Þetta tiltekna ár var þó rekstur búvéla verulega mikið hærri en bæði árin á undan og eftir, vegna mjög umfangsmikils viðhaldsverkefnis. Mitt bú hefur einnig nýtt verktöku í miklum mæli um langt árabil og einnig kaupir það mikla þjónustu á formi vélaleigu af búnaðarfélagi. Ég tel mig engan sérstakan rekstrarsnilling, en mér sýnist þó að þarna sé smurt heldur þykkt; að mínu mati er ekki eðlilegt að miða við meðaltal á breytilegum kostnaði heldur ætti að miða við besta þriðjung eða þar um bil, slíkt getur talist vera hagkvæmir framleiðsluhættir, í samræmi við lagabókstafinn.
Launaliðurinn
Forsendur launaliðar hins nýja grundvallar miðast við 2,4 ársverk, þar sem 80% launa eru miðuð við launaflokkinn „störf iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks (ÍSTARF95: 7) sbr. launarannsókn Hagstofunnar og 20% við störf yfirmanna framleiðslu- og rekstrardeilda í iðnaði (ÍSTARF95: 1222). Samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar 2023 voru heildarlaun fullvinnandi iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnverkafólks 947 þús. kr á mánuði og heildarlaun yfirmanna framleiðslu- og rekstrardeilda í iðnaði 1.407 þús. kr á mánuði. Í framangreindri lagagrein búvörulaganna segir um laun bænda að „áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni“. Nú er það auðvitað svo, að fáar ef nokkrar starfsstéttir standa kúabændum á sporði varðandi kröfur um viðveru og Klettafjallaskáldið Stephan G. lýsti kröfum til þeirra um færni betur en flestir aðrir fyrir einni og hálfri öld í stuttu kvæði. Þó ég sé að mestu leyti sammála þeirri nálgun varðandi launaliðinn sem gert er ráð fyrir, er hún alls ekki hafin yfir gagnrýni. Nú er það svo að við mjólkurframleiðsluna vinnur einnig talsverður fjöldi af ófaglærðu verkafólki sem nýtur ekki þeirra launakjara sem að framan er lýst. Bændasamtök Íslands gera kjarasamning við Starfsgreinasambandið um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Að mínu mati væri eðlilegt að starfsfólk á þeim kjörum sem þar er samið um hefði 10–15% vægi í launalið grundvallarins, á kostnað iðnaðarmanna og sérhæfðs verkafólks. Þá má einnig nefna sem dæmi að árið 2022 voru laun og launatengd gjöld hjá Hvanneyrarbúinu ehf. 32,5 milljónir kr við ca 540 þús. lítra mjólkurframleiðslu en í stofni nýja grundvallarins fyrir sama ár er gert ráð fyrir launakostnaði upp á 38,6 m.kr. vegna 377 þús. ltr. framleiðslu. Á kynningarfundinum sem nefndur var í upphafi komu fram ábendingar um að ástæða væri til að endurtaka vinnumælingar í mjólkurframleiðslu, á borð við þær sem gerðar voru fyrir rúmlega aldarfjórðungi. Undir þau sjónarmið skal tekið hér.
Mikil fjárfesting – lítil framleiðsla
Nefndin metur fjárfestingu við nýtt fjós vera tæplega 260 m.kr. og geri ég ekki ágreining um það, þó að afskriftatíminn sé að mínu mati lengri en eðlilegt er, það gildir einnig um vélar. Forvitnilegt væri að fá nánari útlistun á vélaeign grundvallarbúsins, en það virðist ekki eiga félagsaðild að öflugu hreppabúnaðarfélagi sem starfrækt eru víða um land og eiga mörg hver öflugan tækjaflota, sérstaklega til jarðvinnslu og dreifingu búfjáráburðar. Fljótt á litið sýnist mér að mitt bú hafi aðgang að tækjum í gegnum búnaðarfélag sveitarinnar sem eru að stofnvirði um þriðjungur af tækjaeign grundvallarbúsins, en nýtingin margfalt betri og kostnaðurinn við notkunina þ.a.l. miklu lægri. Í heild eru verðmæti fastafjármuna grundvallarbúsins 382,9 milljónir, eða rúmlega 1.000 kr á hvern framleiddan lítra á ári. Þá er ótalin fjárbinding í jörð og ræktun, bústofni og síðast en ekki síst, blessuðu greiðslumarkinu. Að þessi mikla fjárfesting í aðstöðu og tæknibúnaði, auk árlegs launakostnaðar upp á tæpar 40 milljónir kr., skili síðan ekki nema 377 þúsund lítra innleggi er að mínu viti algerlega óásættanleg niðurstaða og má heita furðulegt hvernig nefndin getur komist að henni. Svo enn sé tekið nærtækt dæmi, þá er innlegg grundvallarbúsins eftir árskúna lægra en mitt bú hefur skilað undanfarna mánuði, úr rúmlega 50 ára gömlu fjósi með frekar lágu tæknistigi. Þessi niðurstaða leiðir fram til þeirrar afdrifaríku, og að mínu mati háskalegu niðurstöðu að á verðlagi dagsins í dag er framleiðslukostnaður nýja verðlagsgrundvallarbúsins á hverjum mjólkurlítra HÆRRI en hann mælist í dag á gamla grundvallarbúinu, með forsendum frá síðustu öld. Að mínu mati fær það ekki staðist og það eru ótæk skilaboð út í samfélagið að greinin hafi engum árangri náð í baráttunni við framleiðslukostnaðinn í aldarfjórðung.
7.000 lítrar eftir árskú
Í ágætri skýrslu Snorra Sigurðssonar um fjósgerðir og mjaltatækni á Íslandi frá því í maí sl. kemur fram að meðalnyt úr mjaltaþjónafjósum árin 2021–23 sé 6.635 kg á árskú, miðað við 97% mjólkurnýtingu eru það 6.260 ltr til innleggs, ívið meira en gert er ráð fyrir á grundvallarbúinu. Þegar litið er yfir niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar má sjá að um þessar mundir eru rúmlega 130 bú, eða um 30% allra búa, sem ná meðalnyt yfir 7.000 kg eftir árskúa. Á búum með einn mjaltaþjón eru árskýrnar að jafnaði 60–70. Af þessu má draga þá ályktun að vel upp byggt bú í dag með einn mjaltaþjón haldi 65 kýr sem hver og ein nái með góðri bústjórn að skila 7.000 lítrum til innleggs.
250 kr/ltr – ekki 306
Í ljósi alls þessa er það niðurstaða mín að stofn nýja grundvallarbúsins eins og hann er reiknaður 2022 ofmeti framleiðslukostnað um nálægt 50 kr/ltr. Að mínu mati er breytilegur kostnaður ofmetinn um 10% (miða á við besta þriðjung búanna), fastur kostnaður er vanmetinn um 10% (afskriftir of hægar) og launakostnaður ofmetinn um 5% (ófaglært verkafólk er hluti af vinnuaflinu). Miðað við þetta er heildarkostnaður við rekstur grundvallarbúsins 2022 rúmar 102 milljónir en ekki 105 milljónir eins og gert er ráð fyrir. Mestu munar þó um að innleggið er að mínu mati vanmetið um a.m.k. 20% frá því sem eðlilegt má teljast; mjaltaþjónninn annar 65 kúm sem skila 7.000 ltr innleggi hver. Grundvallarbúið skilar því að lágmarki 455.000 lítrum í stað 377.000. Samkvæmt þessu er kostnaðurinn 226 kr/ltr. á stofndegi grundvallarins, sem er all jarri þeim 278 kr. sem verðlagsnefndin komst að niðurstöðu um. Á verðlagi dagsins gæti kostnaðurinn því verið nálægt 250 kr/ltr en ekki 306 kr/ltr. Munar þar mestu um að stýrivextir SÍeruídag8,5%envoru6%á stofndegi nýja grundvallarbúsins 1.12.2022, einnig hefur launavísitala hækkað um 12,6% frá þessum degi þar til nú. Bilið sem þarf að brúa frá núverandi afurðaverði yfir í kostnað grundvallarins er því nær því að vera 50 kr/ltr heldur en 106. Lækkandi vextir skipta þar höfuðmáli og er brýnt að þeir lækki mikið og hratt. Það sem útaf stendur og hægt er að ná fram í næstu búvörusamningum er best varið til að stórauka fjárfestingarstuðning í greininni. Svigrúm á markaði held ég að sé lítið sem ekkert og það sem kann að vera þarf mjólkuriðnaðurinn nauðsynlega á að halda sjálfur til að sinna eigin endurnýjun sem rædd hefur verið svo árum skiptir. Mestu skiptir þó að bændur sjálfir grípi til þeirra aðgerða sem þarf til að ná fram nauðsynlegri framleiðniaukningu í greininni til að standa undir þeirri dýru framleiðsluaðstöðu og þeim háa launakostnaði sem hér er og mun verða í fyrirsjáanlegri framtíð.