Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Höfundur: Garðar Páll Jónsson, formaður Bjarmalands, félags atvinnuveiðimanna í ref og mink.

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ekki verðugir launa sinna, á þann hátt litið að lítilfjörlega hefur verið greitt fyrir þennan málaflokk svo árum skiptir.

Garðar Páll Jónsson

Í dag er greitt samkvæmt töxtum sem eru að stofninum til síðan 1994 með litlum breytingum, vissulega hafa einhver sveitarfélög bætt í pottinn smá glaðningi en grunnurinn er ekki hár, á sama tíma hafa veiðimenn þurft að takast á við almenningsálit sem lítur sífellt meira niður á þennan hóp.

Þetta eru ekki nýjar fréttir að illa sé greitt fyrir veiðina og vitna ég hér í eldri grein

Þess vegna mun Búnaðarþing hafa óskað að hækkuð yrðu skotlaun fyrir tófur í 300 kr. En meðferð þings á þessu frumvarpi sýnir átakanlega og glórulitla fáfræði fulltrúa okkar viðvíkjandi þörfum og striti alþýðunnar, þegar þingmenn fóru að velta vöngum yfir frumvarpinu. Þótti sumum sjálfsagður „sparnaður“ að lækka framlagið um helming, öðrum þótti það fullmikið, en ásáttir urðu þeir um að skera af því tvo fimmtu. Hvað sú hagræðing hefur kostað veit ég ekki.

Með hliðsjón af grenjakostnaði, árangri þeirra sem leggja sig fram við vetrarveiði og almennt tímakaup, ætti meðalgreindum mönnum ekki að vera nein ofætlun að sjá, að ég fer ekki fram á neina fjarstæðu, Aldrei finnast öll greni, aldrei vinnast allar tófur. Þess vegna á að örva vetrarveiði refa. Þetta hafa sumar sveitarstjórnir séð og lagt fram af þröngum fjárhag sínum aukin skotlaun(auk þeirra hundsbóta sem þingskörungar okkar urðu sammála um að skammta!).

Guðmundur Þorsteinsson skrifar þetta í blaðið Tímann 14.01.1956.

Nú er staðan þannig í dag að öll aðföng hafa hækkað margfalt og ekki bara síðustu misseri. Til að geta stundað atvinnuveiðar að einhverju marki að árangur náist þarf vissan útbúnað og tæki. Vissulega er það hverjum sjálfgefið hvernig sá listi er samsettur en alltaf er viss grunnbúnaður sem þarf, svo bætist við kostnaður vegna ferða, þessi kostnaður hefur margfaldast undanfarið og eftirtekjan er minni fyrir vikið. Ég átti samtal við veiðimann í lok vertíðar síðasta haust og hann lét nokkuð vel af sér, sagði að gönguskórnir hefðu þó gengið sér til húðar í síðasta túrnum svo að trúlega yrði mínus á árinu vegna kaupa á nýjum skóm, svona tæpt getur þetta legið.

Þetta er löng saga og trúlega verður framhald á henni þótt raddir hermi að bjartara sé fram undan, nefnd sé í vinnslu um þennan málaflokk. Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvaða flokkur fer með þessi málefni eftir kosningar. Það var ekki ofarlega á listum þeirra flokka sem voru í kosningaham fyrir stuttu að fara djúpt í landsbyggðarmál og þessi málaflokkur er mjög lítill hluti af þeirri köku. Þó verður það að segjast að atvinnuveiðimenn hafa verið bjartsýnir um bættan hag í tæplega sjötíu ár og jafnvel lengur.

Að vera veiðimaður

Það eru ekki margir sem þekkja það að stunda veiðar í dag, ef við horfum á heildarmyndina. Veiðimenn eru minnihlutahópur sem á undir högg að sækja, byggðaþróun og búsetusamsetning gerir það að verkum að veiðar eru talin tímakekkja og fornaldargjörningur, nútímaþjóðfélag hafi ekkert með þetta að gera. Háværir minnihlutahópar ráðast á veiðimenn úr öllum áttum með misgáfulegum málflutningi.

Að mínu mati má hver sem er hafa skoðun á þessu, hvort sem viðkomandi er fylgjandi veiðum eða ekki. Ég ólst upp við veiðar frá unga aldri og margir hafa notið þess í gegnum tíðina, það var nefnilega þannig að ég ólst upp við að deila út veiðinni án hagnaðar og mér finnst það góð hugsun, ásamt því að veiðar á vargi hvers konar stuðluðu að fjölbreyttari og sterkari stofnum. Þetta er hugsun sem er fjarri nútímamanninum, því miður.

Ég lærði snemma á lífsleiðinni að það er ekki einhlítt að fylgja hópnum, leiðin að áfangastað getur þýtt það að þú verðir að segja skilið við hópinn og trúa eigin sannfæringu. Sameiginleg trú skapar réttinn segir einhvers staðar en það er mikilvægt fyrir okkur sem einstaklinga að trúa og fylgja eigin sannfæringu, sérstaklega núna á tímum falsfrétta og órökstuddra upphrópana.

Að ná einhverjum tökum á því að vera veiðimaður þýðir að þú verðir að kunna að lesa náttúruna og veðurfarið, jafnvel sjávar- og tunglstöðu. Þetta er ekki eitthvað sem er kennt í skóla, þetta kemur með leiðsögn reyndari manna og endurteknum mistökum, við verðum að geta notað mistökin til að læra af þeim, byrja aftur og skilja betur samhengið, þroskast sem veiðimenn. Veiðimenn eru náttúruunnendur, náttúruverndarar, þeim er ekki sama hvernig hlutunum er skipt í náttúrunni. Að mínu mati á ég ekki að þurfa að réttlæta sífellt að ég sé atvinnuveiðimaður, ég veit ekki um neina stétt sem þarf slíka réttlætingu, ekki iðnaðarmenn, lögfræðingar, hagfræðingar svo eitthvað sé nefnt. Þótt við lifum í borgríki, sem hefur takmarkaðan skilning á því hvað er að gerast í náttúrunni, verðum við, litla röddin, að tala okkar máli, þora að leggja ein á brekkuna.

Landneminn

Sú rödd hefur verið hávær hjá tiltölulega litlum en mjög svo háværum hóp að ref eigi að friða vegna þess að hann sé landnemi og eigi tilkall til þess að fá að vera í friði. Þessi hópur á nokkuð til síns máls, það er talið að refir hafi komið með ís um það leyti sem dýralíf fór að þróast hér. En það eru fáir sem muna hvernig þetta var og allir þeir refir sem fetuðu ósnertar grundir hér í denn eru löngu dauðir. Til að búa í því samfélagi sem við búum í dag verðum við að taka ábyrgð, ábyrgð á því hvernig náttúran er og hvernig við ætlum að skila henni, við erum jú hér bara örstutta stund. Hvernig ætla þessar raddir til dæmis að réttlæta frumbyggjarétt veiðimanna svo dæmi sé tekið, eiga frumbyggjar að leggja af sína ævafornu siði og flykkjast í kaupstaðinn? Þó að það séu ekki frumbyggjar hér, eða var það svoleiðis við landnám?

Það hefur jú verið þannig alveg frá landnámi, að háværum röddum sem flytja órökstuddar fullyrðingar er trúað af þeim sem ekki vita betur, þá kemur til kasta þeirra sem hafa trú og þrek að fylgja rökum og rannsóknum, fylgja rökstuddri sannfæringu, að tala til almúgans og tryggja sanngjarnan málflutning. Það er nefnilega þannig að nánast öllu í okkar náttúru í dag er stýrt einhvern veginn.

Það er mín trú og von að ég geti farið með börnum og afabörnum mínum á veiðar og kennt þeim sömu hluti og ég lærði, kennt þeim að virða náttúruna og læra á hana, umgangast af virðingu, skila henni aftur á sömu vegferð. Tryggjum þessa framtíð!

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...