Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni. Greinin sigldi í gegnum heimsfaraldur og hækkanir á aðfangaverði án þess að hökt kæmi á framleiðsluna.

Erna Bjarnadóttir

Sérstakur stuðningur sem rann til landbúnaðarins á þessum tíma var ekki nema lítið brot af öllum þeim stuðningi sem rann til fólks og fyrirtækja vegna Covid-19 faraldursins.

Fæðuöryggi og matvælafullveldi

Landbúnaður er ríkur þáttur í sjálfsmynd flestra þjóða. Hann mótar landslag, matarmenningu og samfélög í dreifbýli. Fæðuöryggi skiptir þar grundvallarmáli. Fyrir heimili merkir fæðuöryggi að allt heimilisfólk hefur alltaf aðgang að nægum mat til að lifa virku, heilsusamlegu lífi.

Fyrir tæpum 30 árum, eða 1996, kom svo fram hugtakið „matvælafullveldi“ (food sovereignty) og var það fyrst sett fram af alþjóðlegu bændahreyfingunni La Via Campesina á World Food Summit (Matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna). Hugmyndafræðin að baki matvælafullveldi á rætur að rekja til alþjóðlegrar baráttu um yfirráð yfir mat, landi, vatni og lífsviðurværi. Í yfirlýsingu frá „Nyéléni“, fyrsta alþjóðlega vettvangsins um matvæla fullveldi, frá 2007 segir m.a.:

„Matvælafullveldi er réttur fólks til heilbrigðra og menningarlega viðeigandi matvæla sem framleidd eru með vistvænum og sjálfbærum aðferðum og réttur þeirra til að skilgreina eigin matvæla- og landbúnaðarkerfi. Það setur vonir og þarfir þeirra sem framleiða, dreifa og neyta matvæla í hjarta matvælakerfa og stefnu frekar en kröfur markaða og fyrirtækja.“

Fullveldi matvæla gengur þannig miklu lengra en það eitt að tryggja að fólk hafi nægan mat til að mæta líkamlegum þörfum sínum.

Nýtt og pólitískt hugtak

Þó matvælafullveldi sé nærri 30 ára hugtak hefur lítið farið fyrir notkun þess í umræðum hér á landi. En á grundvelli þess er virkilega hægt að eiga pólitíska umræðu um stefnumótun í málaflokknum. Eiga staðbundin sjónarmið að hafa aukið vægi frá því sem nú er? Hver á að ráða yfir landi sem hentar til matvælaframleiðslu? Eigum við að sætta okkur við að þau matvæli sem við neytum séu framleidd með neikvæðum áhrifum á umhverfi fólks í fjarlægum löndum vegna lyfja- og varnarefnanotkunar þegar hægt er að framleiða sömu matvæli hér með takmarkaðri eða engri slíkri notkun? Þó ekki væri annað þá er þetta siðferðisleg spurning sem varla þarf að kenna sérstaklega undir merkjum „borgaravitundar“ eins og boðað er í nýrri námskrá.

Fyrir íslenska stjórnmálamenn framtíðarinnar er þetta hlaðborð tækifæra. Hvernig ætlum við að mæta þörf fyrir aukið framboð matvæla næstu 6 árin þar sem landsmönnum mun væntanlega fjölga um 13% og ferðamönnum hugsanlega um 50–70% ef spár ganga eftir. Það verður ekki gert með því að „auka greiðslur út á land“ eins og stundum heyrist þegar á sama tíma heyrist að stóreignamenn erlendir og jafnvel innlendir kaupi lönd og jarðir í fjölbreyttum tilgangi. Það er ekki líklegt til vinsælda að ríkisstyrkir renni á færibandi til stóreignamanna, eins og gerist í stórum stíl hjá ESB, og gagnrýnt hefur verið. Hve mikið þarf að fjölga kúm, ám, gyltum og kjúklingum til að mæta aukinni eftirspurn? Hvernig munum við aðstoða bændur við að auka framleiðni og draga úr umhverfisáhrifum framleiðslunnar á sama tíma? Svarið getur alla vega aldrei verið að leita til spænskra eða þýskra bænda, sem dæmi, um að sjá um framleiðsluna fyrir okkur.

Yfirráð yfir landi

Árið 2004 voru samþykkt jarðalög (nr. 81/2004) sem leystu af hólmi eldri lög nr. 65/1976. Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a. að nokkrar breytingar eigi „... rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA (EFTA Surveillance Authority) hefur gert ýmsar athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga, nr. 65/1976, og telur þau brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningnum [...] Hafa athugasemdirnar einkum beinst að 6. gr. laganna um að samþykki bæði sveitarstjórna og jarðanefnda þurfi til að heimilt sé að ráðstafa jörðum og öðrum fasteignum sem lögin gilda um, að sveitarstjórn geti bundið samþykki sitt tilteknum skilyrðum um búsetu, sbr. sama ákvæði, 11. gr. laganna um að aðilar sem kaupa vilja jarðir á Íslandi og nýta til landbúnaðar þurfi að hafa starfað við landbúnað í tvö ár hér á landi, nema landbúnaðarráðherra veiti sérstaka undanþágu, og 30. gr. laganna um forkaupsrétt sveitarfélaga og Jarðasjóðs ríkisins.“

Telja verður að mikla útsjónarsemi og samningalipurð þurfi til að vinda ofan af núverandi lögum á þeim nótum að takmarka rétt borgara á EES-svæðinu til jarðakaupa hér á landi. Þörf er á raunhæfum lausnum á þessu verkefni en í því sambandi þarf að horfa til veigamikilla almannahagsmuna (e. overriding public interest). Almennt hefur verið talið – m.a. af hálfu fv. forseta EFTA-dómstólsins – að slíkir hagsmunir heimili aðila að EES- samningnum að takmarka rétt erlendra aðila til að eignast fasteignir hér á landi. Rétt er að geta þess að íslensk stjórnvöld höfðu af þessu áhyggjur þegar samningaviðræður um EES- samninginn fóru fram. Því var gerður fyrirvari um þetta við gerð EES- samningsins:

„Due to the one-sided nature of its economy and the fact that its territory is sparsely populated, Iceland states its understanding that, without prejudice to the obligations arising under the Agreement, it may take safeguard measures if the application of the Agreement is to cause in particular [...] serious disturbances in the real-estate market.“

Þó ekki hafi verið vitnað í þetta við setningu jarðalaganna 2004 virðist full ástæða til að kanna hvort Alþingi getur nýtt þetta svigrúm. Þá þarf og að koma með raunhæfar tillögur um hvernig takmarka mætti rétt erlendra aðila til að kaupa jarðir í landbúnaðarnotum hér á landi þannig að það vinni raunverulega með því að tryggja fæðuöryggi.

Orð eru til alls fyrst

Matvælafullveldi, verður í deiglunni ásamt mörgu öðru, hjá samtökunum Circumpolar Agricultural Association, CAA (Landbúnaðarsamtök Norður- slóða) á næsta þingi samtakanna sem fer fram í Tromsø í Noregi 23.–25. september á næsta ári. Aðild að samtökunum eiga einstaklingar úr fræðasamfélaginu, bændur og aðrir áhuga- og hagsmunaaðilar. Greinarhöfundur á nú sæti í stjórn samtakanna fyrir Íslands hönd. Undirbúningur þingsins er í fullum gangi og verður á næstunni leitað eftir framlögum á þingið í formi erinda eða plakata. Það er von mín að sem flestir sýni þessu starfi áhuga, sjái sér fært að fara á þingið og fylgist ekki síst með umræðum þingsins um matvælafullveldi sem líka er ofarlega á baugi hjá öðrum þjóðum umhverfis Norðurpólinn.

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...