Verum til vinstri – verndum náttúruna
Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gætt að hófsamri nýtingu hennar til orkuöflunar hafa aðrir flokkar flestir verið með stöðugan áróður um orkuskort.
Verðmæti náttúru Íslands eru gríðarleg. Okkur hefur verið falið að gæta hennar með öllum hennar víðernum, fossum, jöklum, jarðhitasvæðum og einstökum jarðmyndunum. Náttúra landsins er einstök og eftirsóknarverð. Sá mikli fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið til að upplifa náttúruna er vitnisburður þess. Eigum við að fórna henni fyrir allar hugmyndir, stórar og smáar, sem ekki miða að því að mæta loftslagsmarkmiðum okkar? Eða ætlum við að tryggja heimilum forgang að raforku, nota hana til innlendra orkuskipta, fara vel með auðlindina og halda jafnvægi þegar kemur að sambúð okkar og náttúrunnar.
Það hefur margt gerst síðasta áratug í raforkumálum. Að halda öðru fram er hjákátlegt. Sem dæmi má nefna Búðarhálsvirkjun sem gangsett var fyrir tæpum 10 árum. Þá var stækkun Búrfellsvirkjunar tekin í notkun 2018 og jók rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins. Jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum var gangsett 2017 og stækkun Reykjanesvirkjunar lauk árið 2023. Brúarvirkjun í Tungufljóti var sett af stað árið 2020 og Hellisheiðarvirkjun stækkuð sama ár. Þetta er eitthvað, ekki satt?
Á vakt VG voru lög um rammaáætlun sett og samþykkt fyrstu svæðin í nýtingar- og verndarflokk. Í júní 2022 samþykkti síðan Alþingi 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu landsvæða. Það að segja að loftslagsmál gangi eingöngu út á það að verið er að skipta bensíni, dísil, kolum og gasi út fyrir græna orku er töluverð einföldun. Aðrar aðgerðir líkt og flokkun sorps sem lög um hringrásarhagkerfi taka til eru einnig mikilvægar, og eins aðgerðir í landbúnaði, iðnaði og fleiri geirum. Við framleiðum mesta græna orku miðað við höfðatölu og árátta og gegndarlaus áróður um meiri orkuframleiðslu virðist einfaldlega vera til að setja hana á erlendan markað. Enda vissir stjórnmálamenn sífelt að sífra um möguleika á aukinni framleiðslu okkar Íslendinga á grænni orku vegna skorts á erlendum mörkuðum.
Eðlilega verður almenningur ringlaður þegar hvor höndin er svona uppi á móti annarri, ýmist er til næg orka eða ekki, í landi sem framleiðir einna mest af grænni raforku í heimi. Vantar raforku fyrir almenning eða er verið að horfa til erlends markaðar og samkeppni? Hvað er rétt og hvernig getum við staðið vörð um heimilin í landinu og séð til þess að orkan verði áfram aðgengileg á sanngjörnu verði fyrir þau öll? Kynnum okkur staðreyndir og verum samábyrg þegar kemur að verndun náttúru á kostnað virkjana og stóriðju þar sem gróðinn fer á fáar hendur. Tryggjum hófsemi í orkuöflun á grundvelli raunverulegrar þarfar og orku í samræmi við fólksfjölgun fólks á sanngjörnu verði og til innlendra orkuskipta. Það er vinstri mál og fyrir það stöndum við í VG.