Öflug innlend matvælaframleiðsla
Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþingi næstu fjögur ár.
Þá mun verða dregin lína í sandinn í mörgum skilningi, hvort takist að ná tökum á ríkisfjármálunum án skattahækkana, hvort tekst að ná forræði yfir og verja landamærin og hvort öflugur landbúnaður fáist þrifist hérlendis. Frambjóðendur og flokkar, sumir hverjir, hafa fyrir kosningarnar tekið upp nýja ásýnd og lofa breyttri hegðan. Hversu trúverðugt er slíkt?
Miðflokkurinn hefur um árabil lagt fram þingsályktunartillögu um stóreflingu íslensks landbúnaðar. Tillagan er í 24 liðum og tekur á fjölmörgum þáttum sem snúa að byggðum landsins og treysta rekstrargrundvöll landbúnaðar með margvíslegum hætti. Margt úr þessum tillögum eru orðin að loforðum annarra flokka. Enn aðrir flokkar tala fyrir stórauknum innflutningi á landbúnaðarafurðum frá verksmiðjubúum í Evrópu og skiptir þá litlu þótt bent sé á að Evrópusambandið styrkir sinn landbúnað af krafti með niðurgreiðslum. Sýklalyfjanotkun og hormónagjöf er engin fyrirstaða í hugum þessara, að sögn talsmanna neytenda. Þá er vinna við framleiðslu landbúnaðarafurða víða í Evrópu láglaunastörf.
Brýn þörf er á að við framleiðum sem mest af innlendri neyslu matvæla. Þannig tryggjum við fæðuöryggi í landinu og séum í stakk búin ef ytri atburðir verða til þess að hingað sé ekki unnt að flytja slíkar vörur. Slíkir atburðir hafa stundum verið nálægt því að gerast, t.d. í hruninu. Málefnið heyrir að þessu leytinu undir almannaöryggi.
Með því að kjósa Miðflokkinn í komandi kosningum leggur þú lóð þitt á vogarskálar þess að íslenskur landbúnaður geti dafnað og bændur geti haldið áfram að framleiða holla og góða vöru. Miðflokkurinn mun leitast við að hrinda í framkvæmd þeim þáttum sem fallnir eru til að efla og styrkja íslenskan landbúnað.