Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Gunnar Guðmundsson og Auður Arnarsdóttir ásamt börnum sínum, Hilmari og Margréti Adele. Nýendurræktuð tún og stórbrotin fjöll í baksýn.
Gunnar Guðmundsson og Auður Arnarsdóttir ásamt börnum sínum, Hilmari og Margréti Adele. Nýendurræktuð tún og stórbrotin fjöll í baksýn.
Mynd / ghp
Á faglegum nótum 22. nóvember 2024

Fjósbygging reyndist örlagavaldur

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Þau féllu fyrir hvort öðru gegnum síma og reka nú saman afkastamikið bú. Þrátt fyrir að stutt sé í rammpólitíska brandara hjá hjónunum Gunnari Guðmundssyni og Auði Arnarsdóttur hefur árið verið bændunum þungt.

Göngustaðir í Svarfaðardal er kúa- og sauðfjárbú rekið af tiltölulega ungum bændum, þeim Gunnari og Auði, sem búa þar ásamt tveimur ungum börnum sínum og foreldrum Gunnars – sem seldu þeim reksturinn fyrir nokkrum árum. Búskapurinn er blandaður. Mjólkurframleiðsla er þar veigamest, en þar eru um 70 árskýr. Einnig eru þar um 175 vetrarfóðraðar kindur og þar að auki með nautaeldi. Einnig eru allmargar hænur á bænum sem skaffa egg fyrir heimilið.

Ræktarland Göngustaða varð illa úti vegna ótíðar í sumar. Flestöll túna kólu og þurftu Gunnar og Auður að taka 25–30 milljóna króna yfirdráttarlán (að mestu) til þess að bregðast við áfallinu, bæði til að kosta efni til endurræktunar á túnum og kaupa hey svo þau geti viðhaldið eðlilegum búrekstri í vetur. Því ekki vilja þau fella skepnur og minnka framleiðslu, sem hefur undanfarin ár verið til fyrirmyndar þannig að tekið sé eftir. Þau hlutu meðal annars nautgriparæktarverðlaun Búnaðarsambands Eyjafjarðar árið 2022 og eru tölfræðilega í fremstu röð mjólkurframleiðenda á landinu, með yfir 8.300 kíló á árskú. Þau bíða nú í von og óvon eftir niðurstöðum Bjargráðasjóðs um hvort, og þá hversu mikið, þau fái bætt vegna tjónsins.

En matvælaráðuneytið tilkynnti fyrir helgi að gert væri ráð fyrir að um 300 milljónum króna verði varið til stuðnings vegna tjóns bænda en alls bárust Bjargráðasjóði 123 umsóknir. Auður segist ekki eiga von á að fá nema hluta tjóns þeirra bætt enda sæki bændur ekki um tjónabætur nema um sannarlega mikið tjón sé að ræða, rétt eins og hjá þeim.

Þrefalt afurðatjón

„Við urðum fyrir þremur afurðatjónum í sumar. Þetta byrjaði á kalinu. Síðan kemur snjórinn í júní og allar kindurnar voru teknar inn. Við misstum í kjölfarið 25 kindur úr júgurbólgum af 175 kinda hópi. Síðan rigndi eldi og brennisteini og ekkert sprettur hjá okkur. Þannig fengum við einhverjar 6–7 rúllur á hektara, í stað 15–20 í venjulegu árferði. Við uppskárum 600 rúllur en erum venjulega með yfir 2.000. Sem betur fer heyjaðist vel í fyrra svo við áttum mikið af fyrningum svo við þurftum bara að kaupa um þúsund rúllur,“ útskýrir Gunnar.

Þar að auki hafa lömbin komið léttari af fjalli og setja þurfti á fleiri lömb til að viðhalda framleiðslufjöldanum vegna þeirra áa sem þau misstu. „Við vorum reyndar ótrúlega heppin með það að kindurnar sem fengu júgurbólgu drápust áður en þær fóru á fjall. Þannig við náðum að skilja móðurlausu lömbin eftir heima. Okkur vantaði því ekki nema tvö lömb af fjalli,“ segir Gunnar upplitsdjarfur.

„En í staðinn voru 25 lömb hlaupandi hér um og ég hef ekki þolinmæði í svona rugl. Þau voru mörg svo dyntótt, það þurfti að dedúa við sum daglega í allt sumar,“ segir Auður. Hún kann heldur að meta fjósastörfin, annast kýrnar og huga að heilsu þeirra og mjöltum.

Auður unir sér vel við aða annast kýrnar, huga að heilsu þeirra og mjöltum.

Sameiningartáknið Davíð Oddsson

Gunnar ólst upp á Göngustöðum en foreldrar hans, Guðmundur Gunnlaugsson og Margrét Berglind Gunnarsdóttir, hófu búskap þar árið 1979. „Ég var fluttur á Akureyri en pabbi lenti inni á sjúkrahúsi árið 2008 og ég kom til að hjálpa mömmu í nokkra mánuði vegna þess. Svo hef ég ekki farið síðan,“ segir hann.

Hann sá fljótt fyrir sér að uppfæra þyrfti húsakost jarðarinnar til að viðhalda og stækka framleiðsluna. „Við byggjum fjárhús 2013 og svo nýtt fjós 2017 og tökum þetta svo í gegn árið 2018–2019,“ segir hann og meinar þá huggulegt íbúðarhús fjölskyldunnar í Göngustaðakoti rétt norðan við Göngustaði. Í fyrra var svo byggt nautahús og gamla fjósið var endurnýjað á árunum 2018–2020.

Það var einmitt í einum af þessum miklu framkvæmdum sem Gunnar og Auður kynntust. Árið var 2017. „Við keyptum allt nýja fjósið af Landstólpa, bæði húsið og tækjabúnað. Svo fer ég að kaupa af þeim kjarnfóður líka. Þá er Auður að sjá um það fyrir Landstólpa svo við þurftum að tala mjög reglulega saman í síma,“ segir Gunnar.

Í þeim símtölum komust Gunnar og Auður að því að þau ættu margt sameiginlegt. „Við vorum með svipaðar skoðanir og svipaðan húmor. Þegar við komumst svo að því að við kusum bæði Davíð Oddsson í forsetakosningum áttuðum við okkur á því að þetta væri skrifað í skýin,“ segir Auður og hlær.

Gunnar gerðist svo kræfur að bjóða Auði á þorrablót í Svarfaðardal árið 2018. Fyrsta stefnumót þeirra var því innan um fjölskyldu og sveitunga Gunnars. „Auðvitað komu fjölskylda og vinir af fjöllum þegar þau sáu Auði enda hafði ég ekki sagt að það væri neinn að koma með mér á þorrablótið.“

Skemmst er frá því að segja að Auður hefur varla farið frá Svarfaðardal síðan og voru þau Gunnar gefin saman akkúrat fimm árum eftir þorrablótið, í janúar árið 2023. Þau eiga tvö börn, Hilmar f. 2020 og Margréti Adele f. 2022.

Ástralía og Svarfaðardalur

Auður er alin upp á kúabúinu Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en segist alls ekki hafa ætlað sér að verða bóndi. Þvert á móti bjó hún lengi í Ástralíu og hafði hugsað sér að setjast þar að. Hún flutti út árið 2011 þar sem hún vann á stóru kúabúi. Slíkur búskapur er harla ólíkur íslenskri mjólkurframleiðslu.

„Þar voru um 900 kýr sem voru mjólkaðar í hringekju og þau voru að fá um 25 krónur fyrir lítra. Vinnudagurinn byrjaði um klukkan hálf fjögur á morgnana með morgunstörfum til klukkan svona 10–12. Svo var aftur unnið frá klukkan tvö fyrir kvöldverkin sem kláruðust svona um sjöleytið.“

Auður fann sig vel í Ástralíu og ákvað að hefja nám við flutningafræði. „Þetta kallast á ensku Logistics and Supply Chain Management og snýst um bestun í flutningakerfum. Mér fannst þetta skemmtilegt og hluti af þessu var launað verknám þar sem ég vann við gripaflutninga.“

Þegar hún hafði verið sex ár í Ástralíu ákvað hún að kíkja aðeins heim í nokkra mánuði og starfaði hjá fjölskyldufyrirtækinu Landstólpa. Hún átti þó ekki afturkvæmt til Ástralíu en unir sér þess í stað afar vel í Svarfaðardalnum.

„Áður en ég kynntist Gunnari var ég að selja öðrum bónda í Svarfaðardal fóður í gegnum síma og hann hafði það á orði að ég yrði að koma því þetta væri fallegasti dalur á Íslandi. Ári síðar var ég bara flutt hingað og er alveg sammála honum. Ég hélt fyrst að ég fengi einhverja innilokunarkennd innan um fjöllin. En dalurinn er sjarmerandi, fjöllin eru kraftmikil og falleg og það er eiginlega ekkert fallegra en þegar maður labbar út úr fjósinu á kvöldin og horfir yfir dalinn í bleikum birtuskilyrðum,“ segir Auður.

Myndarleg uppbygging hefur átt sér stað á Göngustöðum síðan Gunnar flutti aftur heim.

Útsjónarsamir vinnuþjarkar

Lífið á íslensku kúabúi er þó ekki síður annasamt. „Ég held að það gleymist oft hvað bændur vinna mikið. Við förum til dæmis fjórum sinnum á dag í fjós. Gunnar fer kl. 6.30 á morgnana til svona níu. Annaðhvort okkar fer svo aftur klukkan eitt til að mjólka hánytjakýrnar. Svo tökum við kvöldfjósatíma um fimmleytið og svo fer Gunnar aftur milli svona 9 og 10 á kvöldin. Það eru bara kýrnar,“ segir Auður en auk þess fylgir hinum daglegu störfum umönnun nauta, kinda, hænsna svo ekki sé minnst á heimilisstörfin, uppeldi á tveimur börnum, þvottur og eldamennska.

Þegar kemur að hinu síðastnefnda er Auður afar útsjónarsöm. Þau taka heim kjöt til heimilisbrúks og úr því vinnur hún góðmeti á borð við pylsur og kjötbollur. Þá býr hún til osta og bakar flest allt brauðmeti á heimilinu.

„Forgangsröðunin mín er sú að ég vil frekar að börnin borði hollan mat en húsið sé sprittað, enda er ég meira í eldhúsinu en fjósinu og mér þykir gaman að finna hvað ég get gert úr því sem til er. Við erum með mjólk, egg og fulla kistu af kjöti. Því þurfum við ekki að versla nema á tveggja til þriggja vikna fresti. Þá kaupi ég mikið af búrskápsvörum, fisk og hveiti en fæ fisk hjá sjómanni. Svo fáum við lífræna ávexti frá Andalúsíu í gegnum Fincafresh í áskrift og ég kaupi líka hjá Austurland Food Coop.“

Hún á það reglulega til að skora sig á hólm í nýtni á matvælum. „Ísskápurinn er kannski tómur en ég næ einhvern veginn að finna leið til að gefa öllum að borða í fimm daga úr því sem til er. Mér finnst gaman að para saman matvælin sem til eru og notast þá stundum við Pinterest.“

Úr þessari hagsýni hafa orðið til hinar ýmsu óvæntu kræsingar, til dæmis kjötmarinering úr ávöxtum og grillsósa úr rabarbara. Auður var nýbúin að pakka niður beikoni sem hún hafði sjálf unnið frá grunni. „Svo er ég búin að gera fjórar týpur af kjötbollum með kryddjurtum og engum aukaefnum. Við höfum það í frystinum sem fljótlegan mat. Við kaupum í raun ekkert tilbúið eða afar lítið. Leyfum okkur af og til pitsu á Dalvík en oftast er fljótlegra að baka eina heima en að fara niður eftir og sækja hana,“ segir Auður.

Af búvörusamningum og nýliðunarstuðningi

Gunnar segir að forsjálni Auðar sé stór ástæða þess að þrátt fyrir hátt vaxtastig og þunga greiðslubyrði séu þau á góðum stað í lífinu.

„Um leið og vextir myndu fara niður um eitt og hálft eða tvö prósent yrði lífið okkar betra. En þetta gengur allt upp og við missum aldrei af afborgun,“ segir Gunnar hógvær en búreksturinn er skráður í einkahlutafélag og hefur aðeins tök á að greiða öðru þeirra laun sem nema um 380.000 krónum á mánuði.

„Það væri góð byrjun að geta greitt okkur báðum laun. Við erum ekki að fara fram á að vera með 700.000 krónur á mánuði og geta farið til útlanda þrisvar á ári. Heldur eingöngu að hægt verði að fara einhvern sanngjarnan milliveg,“ segir Auður þegar talið berst að afkomuvanda bænda og búvörusamningum.

Gunnar segist vilja endurskoða tilhögun framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu. „Ég er hrifinn af mjólkurkvóta en mér finnst þessi stærðarhræðsla sérstök. Eftir 60 árskýr eru greiðslurnar lækkaðar og svo eru takmörk sett á kvótakaup. Ef við sæjum fyrir okkur að geta stækkað töluvert þá gætum við samt sem áður bara bætt við okkur 150.000 lítrum af kvóta á ári. Það er sérstakt að refsa fólki fyrir að reyna að vera duglegt.“

Þá segir hann nýliðunarstuðning einnig takmarkaðan. „Þetta er sniðugur stuðningur, en bara fyrir suma. Þegar ég kaupi búið árið 2016 þá borga ég alveg jafnmikið og allir aðrir. Nema hvað, ég var ókvæntur, barnlaus og hafði ekki farið á Hvanneyri. Ég fékk núll. Á meðan fengu nágrannar mínir hátt í yfirleitt 10–15 milljónir króna. Ég byrja því alltaf þrepi neðar, en borga samt alveg jafnmikið fyrir jörðina og allt sem ég geri og þeir sem fóru á Hvanneyri,“ segir Gunnar.

Samkvæmt reglugerð um almennan stuðning við landbúnað eru umsækjendur með menntun á sviði landbúnaðar eða sem nýtist í landbúnaði settir í forgang fyrir nýliðunarstuðning ef sótt er um hærri fjárhæð en til úthlutunar er hverju sinni.

Flestöll tún Göngustaða kólu og þurftu hjónin að ráðast í margra milljóna króna endurræktun og kaupa á heyi. Mynd/Sigurgeir B. Hreinsson
Vill skoða betur aðgerðir í loftslagsmálum

Þrátt fyrir erfitt búrekstrarár horfa hjónin björtum augum til framtíðar. „Við erum ekki landmikil svo frekari stækkunarmöguleikar eru takmarkaðir. Þannig nú er verkefnið að auka afurðirnar á hverja skepnu og grípa svo þau tækifæri sem kunna að gefast,“ segir Gunnar og Auður nefnir í því samhengi mögulega kjötvinnslu og eða aðra matvælaframleiðslu.

Þá eru þau nýir þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn land- búnaður. Auður segir að verkefnið sé athyglisvert, það snúist um markmiðasetningu og jafningjafræðslu. Flest markmið í loftslagsmálum leiði til betri búrekstrar og nefnir sem dæmi betri lifun lamba og aukinn fallþunga sem og bætt sýrustig jarðvegs á túnum sem leiðir til betri áburðarnýtingar.

„Þetta er áhugavert, en ég er ekkert endilega sammála öllu sem þarna kemur fram. Það sem situr helst eftir var þegar verið að tala um hvað kýr menguðu mikið og að það ætti að gefa þeim einhver efni til að minnka losun vegna iðragerjunar. Þessi efni innihalda nítrít sem er þekktur krabbameinsvaldur. Ég vildi vita hver langtímaáhrifin væru af því en fékk ekki svör. Ég ætla ekki að setja vísvitandi krabbameinsvaldandi efni í mína aðaltekjulind nema ég viti fyrir víst að það skaði ekki kýrnar mínar. Af hverju að setja þetta í dýrin ef þú vilt ekki borða þetta sjálfur?“

Þá segist hún enn fremur vilja fá skýrari raunmælingar á losun í búrekstri á Íslandi, sérstaklega áður en þau leggi út í mikinn kostnað í nafni loftslagsvænni búskapar. Hún tekur dæmi. „Því er haldið fram að mykjuhúsin losi tiltekið magn gróðurhúsalofttegunda, en þær tölur eru byggðar á dönskum rannsóknum þar sem mykjan fer upp í tuttugu gráðu hita á sumrin. Hitastigið í okkar mykjuhúsi fór örugglega aldrei upp fyrir þrjár gráður í sumar. Það er mikill munur þar á. Af hverju eigum við að fara að kosta í breytingar til að minnka losun frá mykjuhúsinu okkar þegar það liggur ekki einu sinni fyrir hver losun okkar er? Væri ekki hægt að fjármagna raunmælingar svo við séum ekki að leggja í framkvæmdir
að óþörfu?“ spyr Auður.

Jólaskrautið Brynjar Níelsson

Aðventan nálgast og kosningar einnig og fyrsta jólaskrautið er komið upp í Göngustaðakoti. Það er innrömmuð mynd af Brynjari Níelssyni í jólapeysu. „Ég klippti hana út úr Mogganum og rammaði hana inn. Jólaskraut sem kostaði nær ekkert. Fólki fannst þetta fyrst skrítið en nú er farið að spyrja eftir honum. Þetta er uppáhaldsjólaskrautið mitt og alltaf það fyrsta sem fer upp á þessu heimili,“ segir Auður að bragði.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...