Sinn er siður í landi hverju
Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem eiga rætur í menningu þjóðanna, með sterku ívafi af dönskum áhrifum.
Við skulum líta á helstu drætti jólahalds hjá þessum vinaþjóðum okkar.
Gleðilig jól!
Færeyingar eru ekki fjarri okkur Íslendingum í sínu jólahaldi. Þeir skreyta til dæmis hús sín í hólf og gólf og heilu byggðarlögin taka sig jafnvel saman um skreytingar.
Skerpukjöt er einatt á matseðlinum en áður fyrr var algengt að snæða gerjaðan fisk á aðfangadagskvöld. Það hefur þó vikið að mestu fyrir t.d. önd og gæs, gerjuðu kindakjöti og ristuðum lambarifjum. Allt eru þetta hefðbundnir færeyskir réttir, ef undan er skilin öndin sem er innflutt hefð frá Danmörku. Yngra fólkið setur mögulega malt-grís með kóksósu á borðið á aðfangadagskvöld, með brúnuðum kartöflum, rauðkáli, baunum og salati.
Konfekt er gjarnan búið til í höndum og smákökur eru á pari við það sem gerist í íslenskum eldhúsum, þ.á m. sörur. Þá er heitt súkkulaði alsiða. Færeyska sjónvarpið sendir út færeyskt „Jóladagatal“ líkt og hér er gert.
Þórshafnartréð íslenskt
Í Þórshöfn eru, í byrjun aðventu, tendruð ljós á bæjarjólatrénu sem gefið er frá Reykjavík, enda eru þetta vinabæir. Stærsta verslanamiðstöð eyjanna, SMS, byggir heila jólaborg með álfum, dýrum, jólatrjám og jólaskrauti og er sú ein stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Skautasvell er í miðbæ Þórshafnar og lokkar gesti til sín á aðventunni.
Það má kannski segja að fyrir utan hefðbundna færeyska jólamatinn séu svokallaðir klifurnissar eitthvað sem við þekkjum ekki sérstaklega hér heima. Þeir eru þó nokkuð í ætt við „Elf on the shelf“, sem hefur smokrað sér inn á allmörg íslensk heimili upp á síðkastið, og eru hengdir úti um allt í klifurstellingum. Færeyingar eiga sér jólakött og vilja síður lenda í honum, t.d. með því að vera í gömlum fötum um hátíðina.
Kirkjuhald ríkur þáttur
Gjarnan er farið til kirkju í jólamessu síðdegis á aðfangadag og gjafir eru opnaðar um kvöldið í kjölfar ríkulegs hátíðarmálsverðar, þar sem venjan er að fjölskyldur hópi sig saman. Gjafir eru yfirleitt margar, ekki síst til barna sem eiga sér tíðum gjafmilda guðforeldra auk ættingja og vina.
Á jóladag er lífinu tekið rólega en þó farið í kirkju um hádegisbil og aldrei eins fjölmennt og í þeim messum. Eftir það er hádegisverður og síðar, um kvöldið, önnur jólamáltíð.
Annar dagur jóla er í Færeyjum almennur frídagur og er sérstakur og hátíðlegur dans- og veisludagur. Í gamla daga gekk fólk hús úr húsi til að heimsækja hvað annað. Víða var boðið upp á jólamat sem gestir hvaðanæva að voru velkomnir að borða. Þá var algengt að fólk ferðaðist til annarra þorpa til að dansa og njóta félagsskapar hvað annars. Enn er annar dagur jóla einn stærsti veisludagur ársins í Færeyjum.
Juullimi Pilluarit!
Jólahald er víða mjög hátíðlegt í Grænlandi, Kalaallit Nunaat. Mikið er notað af kertum til að lýsa upp langvinnt myrkrið og áberandi jólaskraut er rauðgul pappírs- jólastjarna. Á hverju heimili í öllu landinu er kveikt á slíkri stjörnu og er það gömul hefð. Í flestum bæjum eru sett upp útijólatré sem hafa komið frá Danmörku.
Jólatré heima við eru skreytt með kertum, björtu skrauti og stundum litlum útgáfum af selskinnsbuxum sem kallast kamiks. Trén eru vanalega skreytt að kvöldi 23. desember. Fólk sem notar ekki innflutt tré er gjarnan með hefðbundið rekaviðartré skreytt með lyngi.
Grænland er heimkynni jólasveinsins, að sögn ferðamálayfirvalda, eða hið minnsta sumardvalarstaður hans. Hann er sagður eiga heimili í norðurhluta landsins, í Spraglebugten, nálægt bænum Uummannaq.
Sungið fyrir bæjarhúsum
Lúsíuskrúðganga, í m.a. skólum og á frístundaheimilum, er 13. desember, þegar börn með kransa á höfði halda á kertum og syngja um heilaga Lúsíu.
Jólin eru haldin hátíðleg 24. desember með dansi í kringum jólatréð en sum börnin hafa þegar fengið gjafirnar sínar snemma um morguninn. Fólk klæðir sig upp fyrir hátíðina.
Siður er að börn og ungmenni í hverri byggð syngi fyrir bæjarhúsum á aðfangadagskvöld og þau fá síðan sönginn ríkulega verðlaunaðan með jólasælgæti frá íbúum.
Kristni er mikilvæg fyrir marga Grænlendinga og fara margir í kirkju alla sunnudaga á aðventunni. Á aðfangadagskvöld eru guðsþjónustur og fara flestir til þeirra, margir í þjóðbúningi. Karlar klæðast margir hverjir hvítum anorakk sem er notaður við sérstök tækifæri. Hefð er fyrir að setja ljós á leiði í kirkjugörðum.
Samsöngur og kórsöngur er mikilvægur um grænlensk jól, hvort sem er í kirkjum, heimahúsum eða í útvarpi og sjónvarpi. Í kirkjum heyrast gjarnan tví- eða þríraddaðir söngvar úr kirkjubekkjunum þar sem allmargir Grænlendingar eru tíðir kirkjugestir og söngvarar.
Hefð er fyrir því á jólanótt að karlarnir sjái um konurnar, beri fram mat og kaffi og undirbúi matinn. Leikir fylgja jólamáltíðinni, þar á meðal þar sem hlutur er færður undir dúknum milli manna í kringum langborð. Hluturinn skal helst vera fráhrindandi, t.d. frosið egg, vafið inn í strimla af blautu refaskinni.
Ýmislegt girnilegt
Á sumum heimilum er jólamatseðillinn steikt svínakjöt og önd en önnur kjósa frekar grænlenskt lambakjöt, moskusnaut, hreindýr, rjúpu eða kríu, allt eftir því hvar á Grænlandi fólk er. Oft er lambakjöt í suðri en hreindýr í norðri.
Þá er hefðbundinn réttur svokallað mattak, sem er hvalskinn með spiklagi. Það á að bragðast eins og ferskur kókos en er oft of sterkt til að tyggja og er venjulega gleypt. Annar jólamatur er kivial. Þetta er hrátt kjöt heimskautasmáfugla sem hafa verið grafnir heilir í selskinni í nokkra mánuði og þykir lostæti.
Af öðrum vinsælum réttum á Grænlandi má nefna suaasat sem er plokkfiskur eða nokkurs konar súpa, grillað hreindýrskjöt, lambakjöt, rjúpur og fiskur annaðhvort sem hrátt sushi eða soðinn. Vinsælir eftirréttir eru ber og epli með stökkum hjúp og jólagrautur borinn fram með smjöri, sykri og kanil. Einnig er borðað mikið af dönsku bakkelsi og jólakökum.
Kaffiboð í hverjum krók og kima
Jóladögunum er varið með fjölskyldu og vinum. Auk matarboða eru haldin mörg lítil „kaffemikk“ eða kaffisamsæti með gestum og gangandi, hér og hvar í húsum, og þá allir velkomnir. Í þorpum Inúíta, ekki síður en annars staðar, finnst fjölskyldum gaman að heimsækja hver aðra og halda veislur. Þá er drukkið kaffi, borðaðar kökur og skipst á litríkum pökkum. Hefðbundnar gjafir eru módelsleðar, pör af fáguðum rostungstönnum eða selskinnsvettlingar.
Hinn 6. janúar er Mitaartut, hefð sem er blendingur af siðum Inúíta og Dana. Mitaartut eru þöglar grímu- og búningaklæddar verur sem heimsækja fjölskyldur í bæjum og byggðum. Þær eiga samskipti án orða og nota gamansamar athafnir og hreyfingar sem samsvara dulbúningum þeirra.
Í lok heimsóknar eru dulbúnu verurnar verðlaunaðar með góðgæti og jafnvel tóbaki.