Jólatrjáalundur sem Stefán Hrafn Magnússon hefur ræktað upp í Isortoq á Suður-Grænlandi. Hann ræktar m.a. greni og lerki og hyggur á uppgræðslu sanda á svæðinu.
Jólatrjáalundur sem Stefán Hrafn Magnússon hefur ræktað upp í Isortoq á Suður-Grænlandi. Hann ræktar m.a. greni og lerki og hyggur á uppgræðslu sanda á svæðinu.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi sínu í Isortoq á Grænlandi og er búinn að koma upp allmyndarlegum jólatrjáalundi.

Stefán hefur lengi verið í Grænlandi. Hann fór þangað fyrst, til Qaqortoq, aðeins fimmtán ára gamall eftir að hafa verið í sveit fyrir vestan öll sumur. Áhugi hans beindist enda snemma að landkönnun og pólförum og hann drakk í sig bókmenntir um Inúíta og lifnaðarhætti þeirra. Hann varð búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1974, lærði umhirðu hreindýra hjá Sömum í Noregi, lærði hreindýrarækt við hreindýrabraut Menntaskólans í Gellivare í Norður- Svíþjóð, kenndi hana í Alaska og tók flugmannspróf í Kanada. Sömuleiðis vann hann um skeið á norskum rækjutogara sem einnig var útbúinn á selveiðar í Hvítahafinu.

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi á Grænlandi, ásamt dóttur sinni og syni, þeim Freyju Aþenu og Manitsiaq John.
Heima á Íslandi yfir veturinn

Stefán stofnaði hreindýrabúið Isortoq Reindeer Station árið 1989 og hefur í 35 ár verið hreindýrabóndi á jörðinni Isortoq á Suður-Grænlandi. Fyrrverandi samstarfsmaður Stefáns, Ole Kristiansen frumkvöðull (1947– 2021), flutti fyrstu hreindýrin til Suður-Grænlands árið 1973.

Stefán býr í Grænlandi með uppkomnum börnum sínum, þeim Manitsiaq John og Freyju Aþenu, en dvelur yfirleitt um háveturinn á Íslandi. Þá ganga hreindýrin á víðavangi og sjá um sig sjálf. Í mars fer hann til Grænlands að huga að hjörðinni. Loftslagsbreytingar orsaka að hreindýrabændur/ hjarðmenn á norðurslóðum þurfa að huga að fóðrun hreindýra á vetrum og hefur svo verið um nokkur ár í Skandinavíu, þörfin fyrir þetta er einnig á Grænlandi og eru áætlanir um það fyrir áframhaldandi hreindýrarækt á Grænlandi.

„Við vorum í miklu samstarfi við rússneska hreindýrahjarðmenn og bændur; Nenetsa, Evenka, Evena, Chuktsja og Búrjata. En eftir stríðið hefur lokast á allar ferðir og ég sakna þessa vina minna. Þeir eru mjög jólalegir og lifandi ímynd jólasveinsins með hreindýrasleða sína,“ segir Stefán.

Hann skipuleggur ásamt börnum sínum m.a. veiðiferðir og gönguferðir fyrir ferðafólk.

Trjárækt og landgræðsla

Stefán hefur gróðursett nokkur tré í Isortoq og hyggur á frekari landgræðslu, segir þar vera mikla sanda sem græða þurfi upp. Rauðgreni og sitkagreni sem hann gróðursetti fyrir allnokkru dafnar vel og nefnir hann það jólatrjáalund sinn. „Þetta er svo sem ekkert merkilegt hjá mér, nokkur tré á stangli,“ segir hann sposkur. „Og ég hefði betur átt að setja niður 2.000–5.000 tré strax frá byrjun, þá ætti ég nógan eldivið í dag, en það er huggulegt að sitja að snarkandi báli við arininn að kveldi dags.“

„Lerki spjarar sig einnig mjög vel þar sem við búum, á 61° norðlægrar breiddar. Sunnar en Ísland,“ bætir Stefán við. Skógrækt á Grænlandi byrjaði kringum 1953. „Þar var einn frumkvöðull, Poul Bjerge heitinn. Grænlenska Arboratið, eða Skógrækt Grænlands, var stofnað af danska skógræktarmanninum Søren Ødum um 1988 og er staðsett i Narsarsuaq. Eftir dauða Sørens 1999 hefur Skógræktin verið í samstarfi með Skógræktinni í Hörsholm, Danmörku, og Búnaðarfélagi Grænlands. Einn af aðalhvatamönnum skógræktar á Grænlandi hefur verið Kenneth Höegh,“ útskýrir Stefán. Hann telur að í kringum 100.000 tré vaxi hjá skógræktinni við flugvöllinn í Narsarsuaq, og spretti ágætlega. „Loftslag þar einkennist af fjarðarbotnsloftslagi, með góðum sumarhita, meðalhiti er 11 °C í júlí,“ segir hann enn fremur.

Tilraunir hafa sýnt að unnt er að rækta ýmsar trjátegundir á sunnanverðu Grænlandi en best hafa þrifist hægvaxta tegundir frá norðurlægum skógarmörkum, svo sem skógarfura, fjallaþinur, hvítgreni, ilmbjörk og balsamösp. Náttúrulega birkiskóga, sömu tegundar og vex á Íslandi, má finna í afskekktum fjörðum á sunnanverðu Grænlandi. Innan um má finna reynivið, grænöl og ýmsar víðitegundir.

Stefán segir Grænland hafa breyst talsvert á þeim tíma sem hann hefur verið þar. Það sé á hraðleið inn í nútímann og gamlir hættir láti undan síga. Þó eru matarhefðir Grænlendinga enn hafðar í heiðri, svipað og þorramatur Íslendinga, en þó oftar notaðar á tyllidögum.

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...