Lækkað áburðarverð
Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.
Sláturfélag Suðurlands (SS) gaf út verðskrá fyrir Yara-áburð 4. desember og er verðlækkun frá síðustu skrá fimm prósent yfir vörulínuna.
Alexander Áki Felixson, deildarstjóri búvörudeildar hjá SS, segir að áburðarverð hafi náð hámarki í apríl 2022, eftir að hafa hækkað hratt í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu í byrjun árs 2022. „Síðan lækkaði áburðarverð allt fram í byrjun árs 2024 og hefur hin mikla verðhækkun í raun gengið til baka. Áburðarverð hefur síðan haldist nokkuð stöðugt á þessu ári,“ segir hann.
Að sögn Alexanders er SS með gott og traust viðskiptasamband við Yara, sem framleiðir sinn eigin áburð. „Áætlanir um framleiðslu áburðar og flutning til landsins í vor liggja fyrir. Við fáum áburð frá verksmiðjum Yara í Noregi, Finnlandi og Þýskalandi. Um er að ræða einkorna áburð sniðinn að ræktunarþörf hér á landi.
SS flytur einnig inn kalk frá Noregi sem hefur reynst mjög hagkvæmur kalkgjafi en kölkun hefur mikil og jákvæð áhrif á áburðarnýtingu.
Með því að kalka og viðhalda réttu sýrustigi í jarðvegi næst að hámarka aðgengi og upptöku næringarefna sem myndar grundvöll fyrir gott gróffóður. Verð á kalki hefur verið óbreytt frá árinu 2021.