Anna Heiða Baldursdóttir, doktor í sagnfræði og sérfræðingur hjá Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri, hefur rannsakað laxveiðar.
Anna Heiða Baldursdóttir, doktor í sagnfræði og sérfræðingur hjá Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri, hefur rannsakað laxveiðar.
Mynd / Aðsend
Viðtal 17. mars 2025

Gríðarleg áhrif á mótun landbúnaðar í Borgarfirði

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri er með í undirbúningi sýningu um sögu laxveiða í Borgarfirði frá öndverðu.

Sýning, byggð á rannsókn á sögu laxveiða í Borgarfirði, á að varðveita sögu og menningu laxveiða, sem mun ekki hafa verið gert áður hér á landi með viðlíka hætti.

Væntanleg sýning verður sett upp í kjallara safnsins, í 120 m2 rými og opnar með vori, eða um svipað leyti og borgfirskar ár verða opnaðar veiðimönnum. Um er að ræða þemasýningu þar sem m.a. náttúruog líffræði laxins, netaveiðum í Hvítá, þróun atvinnugreinarinnar og veiðisögum verða gerð skil. Vonir eru bundnar við að sýningin geti staðið til framtíðar í safninu.

Aftur til Skallagríms á Borg

Anna Heiða Baldursdóttir, doktor í sagnfræði og sérfræðingur hjá Landbúnaðarsafninu, segir sögu laxveiða í Borgarfirði vera þriggja ára rannsóknarverkefni innan safnsins.

„Þar eru laxveiðar í Borgarfirði skoðaðar út frá mörgum þáttum, s.s. sögu, menningu, efnahag, náttúru- og líffræði. Verkefnið nær til sveitarfélagsins Borgarbyggðar þótt áherslan sé á þær ár sem renna í Hvítá/Borgarfjörð. Nánar tiltekið Hvítá, Langá, Gljúfurá, Gufuá, Norðurá, Þverá/Kjarará, Reykjadalsá, Flókadalsá, Grímsá/ Tunguá og Andakílsá. Svæðið er því frá uppsveitum Borgarfjarðar og vestur á Mýrar,“ útskýrir hún.

Saga laxveiða í Borgarfirði nær til landnáms Skallagríms á Borg á Mýrum. Í Egils sögu segir m.a. að árnar hafi iðað af fiski og Skallagrímur sett menn við árnar til að gæta þessarar dýrmætu auðlindar. Borgfirðingar og Mýramenn hafa því alla tíð nýtt laxinn, annaðhvort fyrir matbjörg heimilisfólksins eða sem söluvöru, þó í mismiklum mæli, að sögn Önnu Heiðu.

Hvítárvallabóndi milliliður

„Það má segja að á seinni hluta 19. aldar hafi Borgarfjörður orðið nokkurs konar miðpunktur laxveiða á Íslandi. Um 1860 fór skoskur verslunarmaður, James Ritchie, að venja komur sínar í Borgarfjörð til að kaupa lax af bændum til niðursuðu. Hann reisti til að mynda hús í Borgarnesi og flutti það reyndar síðar upp að Grímsárósum, til að sjóða niður lax. Viðskipti hans sköpuðu vináttu við bóndann á Hvítárvöllum, Andrés Andrésson Fjeldsted, sem lærði ensku og leiddi af sér að hann varð milliliður fyrir leigu enskra og skoskra stangveiðimanna á borgfirskum ám, eins og Grímsá, Langá og Norðurá,“ segir hún.

Þetta sé í raun upphaf stangaveiði hér á landi þótt vissulega hafi svipuð þróun farið af stað í stöku ám í kringum landið. Anna Heiða lýsir því hvernig vinsældir borgfirsku ánna uxu óðfluga á 20. öld og menn fóru að mynda félagsskap um veiðarnar í gegnum veiði- og fiskræktarfélög, þar sem markmiðið var fiskrækt og efling veiðanna með t.d. framkvæmdum eins og laxastigum og vatnsmiðlun. Þannig hafi komist á það form sem þekkist í dag, þar sem veiðifélög leigja út veiðarnar og þjónustu við veiðimenn ásamt því að vernda og efla íslenska laxastofninn.

„Laxauðugar borgfirskar ár, viðskipti Ritchies, enskukunnátta Andrésar, myndun veiðifélaga og uppbygging ánna urðu þannig til þess að hér fór af stað hröð þróun sem varð til þess að laxveiðar eru í dag gríðarlega öflug og mikilvæg atvinnugrein fyrir Borgarbyggð og þróun landnýtingar og landbúnaðar þar. Því til dæmis má nefna að tekjur af henni eru um 50% af heildartekjum landbúnaðar í Borgarbyggð,“ segir Anna Heiða jafnframt.

Rannsóknin hefur, að hennar sögn, leitt í ljós að laxveiði hefur haft gríðarleg áhrif á hvernig landbúnaður mótaðist í héraðinu. Tekjur af auðlindinni skipti bændur á svæðinu miklu máli og hafi átt sinn þátt í að héraðið er fyrst og fremst landbúnaðarmiðað svæði með áherslu á sauðfjárrækt. Eins megi nefna hve mikilvægt það sé að gæta vel að þessari auðlind. „Laxveiðar og velgengni þeirra eru ekki sjálfsagt mál og margar hættur sem steðja að greininni, eins og loftslagsbreytingar, aukið sjókvíaeldi, ásælni fjársterkra aðila að landnæði og vatnsréttindum,“ segir hún enn fremur.

Rannsókn leiddi í ljós að laxveiði hefur haft gríðarleg áhrif á hvernig landbúnaður mótaðist í Borgarfirði. Mynd / Pixabay

Saga laxanýtingar stórmerkileg

„Fyrir mig persónulega, sem kem að þessu verkefni fyrst og fremst sem sagnfræðingur og í öðru lagi sem íbúi við eina af þessum veiðiám, með afar takmarkaða þekkingu á veiðimálum, finnst mér tilraunir manna til að nýta lax á mismunandi hátt í gegnum tíðina stórmerkilegar,“ segir Anna Heiða og heldur áfram: „Hér má nefna fjárfestingar Einars Þórólfssonar, sem var mögulega Mýramaður eða Lunddælingur og fyrsti borgari Reykjavíkur, í söltun laxa á seinni hluta 18. aldar. Starfsemi hans stórjók útflutning á söltuðum laxi og voru fjárfestingarnar miklar, eins kaup á skipum og bygging verksmiðju. Sumir halda því jafnvel fram að umsvifin hafi verið meiri en Innréttingarnar sem voru á svipuðum tíma í Reykjavík,“ segir hún. Ástæðuna fyrir því megi jafnvel rekja til þess að viðskipti Einars enduðu illa. „Hann fór lóðbeint á hausinn eftir u.þ.b. einn og hálfan áratug og talið er að hann hafi fyrirfarið sér í kjölfarið úti í Kaupmannahöfn,“ hnýtir hún við.

Henni þykir sömuleiðis merkilegt hve gamlar fiskirannsóknir og fiskrækt eru. „Þær hafa verið stundaðar hér á svæðinu frá lokum 19. aldar. Fyrirbærið veiðifélag er líka stórmerkilegt, sérstaðan við að félagsaðild að þeim er skylda og hvernig samtakamáttur þessara einstaklinga getur haft mjög jákvæð áhrif á margan hátt,“ segir hún.

Laxveiðiminjar á Landbúnaðarsafninu. Mynd / Aðsend

Skotar horfa til Íslands

Hún fór ásamt safnstjóranum, Ragnhildi Helgu Jónsdóttur, til Skotlands síðasta sumar, þar sem þær kynntu sér reynslu Skota af laxveiðum og félagsmálum og rannsóknir á sviði safna og fiskræktar. „Þau sem við hittum þar litu hýru auga til íslenska fyrirkomulagsins hvað varðar veiðifélögin, enda er vandamál þar að menn komi sér saman um veiðarnar og nýtingu ánna. Eins var líka áhugavert að sjá að þær hættur sem steðja að greininni hér og umræður um náttúruverndarmál eru afar líkar þeim sem hafa verið, eða eru, í brennidepli í Skotlandi. Það væri því ráð fyrir Íslendinga að ráðfæra sig við kollega sína í Skotlandi í hverju hætturnar leynast hvað þessi mál varðar,“ segir Anna Heiða að endingu.

Auk munnlegrar geymdar, skjala og ljósmynda, var í rannsókninni aflað ýmissa gripa til að nýta á sýningunni. Má þar nefna fyrsta stóráa-laxateljarann sem notaður var í Norðurá og var þá hinn eini sinnar tegundar í heimi.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f